Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 10/2018

Beiðni um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-217/2016.

Hinn 7. maí 2019 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 10/2018:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. E-217/2016

Sigrún Sigurþórsdóttir

gegn

Guðmundi Sigurðssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

 1. Með erindi, dagsettu 25. september 2018, fór Guðmundur Sigurðsson þess á leit að útivistarmál nr. E-217/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Norðurlands eystra 5. janúar 2017, yrði endurupptekið.
 2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Gizur Bergsteinsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

  II. Málsatvik

 3. Með áritaðri stefnu í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 5. janúar 2017 var endurupptökubeiðanda gert að greiða gagnaðila skuld að fjárhæð 1.482.000 kr. ásamt málskostnaði og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um var að ræða skuld vegna húsaleigu og endurkröfu vegna greiðslna á skuldbindingum endurupptökubeiðanda sem gagnaðili hafði greitt.
 4. Samkvæmt endurupptökubeiðanda krafðist hann endurupptöku útivistarmálsins hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra með bréfi, dags. 2. júní 2017. Kveðst hann hafa afhent dóminum kröfuna á þriðjudegi eftir hvítasunnuhelgi. Hafi umræddri kröfu verið synjað vegna þess að hún barst degi of seint.

  II. Grundvöllur beiðni

 5. Forsögu málsins segir endurupptökubeiðandi vera þá að hann hafi keypt fasteign að Karlsbraut 16 á Dalvík, fnr. 215-4986, af Íbúðarlánasjóði, með kaupsamningi, dags. 15. ágúst 2013. Umsamið kaupverð hafi verið 5.000.000 kr. sem hafi átt að greiðast með 1.000.000 kr. í peningum og veðbréfi frá Íbúðarlánasjóði upp á 4.000.000 kr. Gagnaðili hafi lánað endurupptökubeiðanda 1.000.000 kr. til þess að greiða inn á fasteignina, en endurupptökubeiðandi hafi tekið einn ábyrgð á veðbréfi Íbúðarlánasjóðs. Gagnaðili hafi óskað eftir því að hún fengi eignarhluta í fasteigninni sem tryggingu fyrir þeim fjármunum er hún lánaði endurupptökubeiðanda og fengið hann til þess að undirrita afsal, þann 20. ágúst 2013, þar sem hann hafi afsalað gagnaðila 50% eignarhluta í fasteigninni, þrátt fyrir að hún hafi aðeins lagt til 20% af kaupverðinu. Endurupptökubeiðandi hafi lent í vanskilum og hafi verið gert fjárnám í fasteigninni vegna skulda hans, annars vegar þann 10. desember 2014 og hins vegar þann 15. júní 2015. Í kjölfarið hafi gagnaðili leitað til hans og stungið upp á því að fasteignin yrði færð alfarið yfir á hennar nafn til að koma í veg fyrir að gerð yrðu frekari fjárnám í eigninni. Endurupptökubeiðandi hafi fallist á þessa tillögu gagnaðila og í kjölfarið hafi verið útbúinn kaupsamningur, dags. 8. ágúst 2015, þar sem endurupptökubeiðandi hafi selt gagnaðila eignarhluta sinn í fasteigninni fyrir 8.000.000 kr. Á eigninni hafi hvílt lán frá Íbúðarlánasjóði að fjárhæð 4.082.188 kr. Afsal hafi svo verið gefið út þann 14. september 2015.
 6. Samkvæmt endurupptökubeiðanda var þessum skjölum aðeins ætlað að vera til málamynda, enda hafi gagnaðili ekkert greitt til endurupptökubeiðanda fyrir eignina. Yfirfærslan hafi aðeins verið til þess að koma í veg fyrir að gerð yrðu frekari fjárnám í eigninni vegna skulda endurupptökubeiðanda. Þrátt fyrir að gagnaðila hafi verið ljóst að hún hafi aðeins lagt til 1.000.000 kr. af kaupverðinu og að skráning eignarinnar á hennar nafn hafi alfarið verið gerð til málamynda þá hafi gagnaðili krafist þess í kjölfar útgáfu afsalsins að endurupptökubeiðandi myndi rýma eignina. Þegar hann hafi ekki rýmt fasteignina hafi hún leitað til dómstóla með aðfarabeiðni og krafðist þess að hann yrði borinn út úr eigninni. Endurupptökubeiðandi hafi rýmt eignina, enda gagnaðili ein þinglýstur eigandi hennar. Gagnaðili hafi leitað til dómstóla og krafist þess að endurupptökubeiðandi yrði dæmdur til þess að greiða henni húsaleigu fyrir þann tíma sem hann bjó í eigninni eftir útgáfu afsalsins, auk þess sem að hann greiddi henni til baka andvirði skuldanna er hvílt höfðu á eigninni með fjárnámi þegar endurupptökubeiðandi afsalaði fasteigninni til hennar.
 7. Stefna með framangreindum kröfum hafi verið birt fyrir bróður endurupptökubeiðanda en endurupptökubeiðandi hafi ekki fengið vitneskju um stefnuna fyrr en honum hafi verið tilkynnt um að fjárnám hafi verið gert í bát hans, Gvendi á Eyrinni, EA-79. Hann hafi því að eigin sögn ekki haft tök á að mæta við þingfestingu stefnunnar og hafi hún því verið árituð af dómara og í kjölfarið verið gert fjárnám í bát hans til tryggingar skuldum hans við gagnaðila samkvæmt hinni árituðu stefnu.
 8. Þann 18. apríl 2018 hafi endurupptökubeiðandi leitað til lögmanns vegna framangreinds fjárnáms og í kjölfarið hafi lögmaður endurupptökubeiðanda óskað eftir gögnum frá sýslumanni vegna málsins. Þann 2. maí 2018 hafi gögnin frá sýslumanni borist og þá komið í ljós að árituð stefna lá til grundvallar beiðninni en endurupptökubeiðandi hafi ekki vitað af tilvist hennar fyrr en þá. Í kjölfarið hafi verið óskað eftir gögnum vegna málsins frá héraðsdómi.
 9. Með tilliti til gagna frá héraðsdómi telur endurupptökubeiðandi að vísa hafi átt kröfum á hendur honum sjálfkrafa frá dómi, að minnsta kosti að einhverju leyti eða að sýkna hafi átt hann af hluta kröfunnar, sbr. 2. mgr. 16. gr., e- og g-liðar 1. mgr. 80. gr., 1. mgr. 95. gr., 1. mgr. 96. gr. og 1. mgr. 113. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Því byggir endurupptökubeiðandi á að skilyrði b- og c- liða 2. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála eigi við í málinu.
 10. Samkvæmt endurupptökubeiðni þá byggir krafa gagnaðila annars vegar á vangoldinni húsaleigu og hins vegar á endurkröfu vegna skuldbindinga endurupptökubeiðanda sem gagnaðili hafi greitt. Í stefnu kveðst gagnaðili byggja kröfu um húsaleigu á kaupsamningi, dags. 14. september 2015, þar sem hún kaupi 50% eignarhluta endurupptökubeiðanda í fasteigninni.
 11. Að mati endurupptökubeiðanda styðji ekkert kröfu gagnaðila um húsleigu, þar sem ekkert liggi fyrir í málinu um það hvenær hann hafi átt að afhenda fasteignina, né að það hafi nokkru sinni verið samið um að endurupptökubeiðandi greiddi gagnaðila húsaleigu vegna afnota hans af fasteigninni. Þar af leiðandi telji endurupptökubeiðandi að dómari hefði átt að vísa frá kröfu gagnaðila af sjálfsdáðum.
 12. Krafa gagnaðila vegna endurkröfu vegna skuldbindingar endurupptökubeiðanda sem gagnaðili greiddi, eigi heldur ekki við rök að styðjast að mati endurupptökubeiðanda. Þegar gagnaðili hafi keypt eignarhluta endurupptökubeiðanda í fasteigninni, þá hafi legið fyrir tvö fjárnám á eigninni. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að veðbókavottorð það sem lagt var fram við þingfestingu málsins hafi verið prentað út þann 10. ágúst 2015, en gagnaðili kveður kaupsamninginn hafi verið gerðan þann 14. september 2015, sem er rúmum mánuði eftir að umrætt veðbókavottorð hafi verið prentað út. Það liggi fyrir að gagnaðili hafi verið meðvituð um framangreind fjárnám og hafi greiðsla þeirra því verið hluti af kaupverði eignarinnar og því séu ekki rök til þess að krefja endurupptökubeiðanda sérstaklega um endurgreiðslu andvirðis þeirra. Þá liggi einnig fyrir kvittun Lögheimtunnar fyrir fullnaðargreiðslu, dags. 3. nóvember 2015, þar sem fram komi að það hafi ekki verið gagnaðili sem greiddi umrædda kröfu, heldur annar nafngreindur aðili. Þar af leiðandi hafi gagnaðili ekki átt réttmæta endurkröfu vegna þessa og hafi því verið um aðildaskort að ræða. Að framangreindu virtu og með vísun til áður greindra lagaákvæða krefst endurupptökubeiðandi endurupptöku málsins.

  III. Viðhorf gagnaðila

 13. Í greinargerð gagnaðila, dags. 11. desember 2018, rekur gagnaðili málsatvik eins og þau snúa að sér.
 14. Með áritaðri stefnu í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 5. janúar 2017, hafi endurupptökubeiðanda verið gert að greiða gagnaðila 1.482.000 kr. ásamt nánar tilgreindum vöxtum skv. kröfu og 99.500 kr. í málskostnað. Framangreind krafa hafi verið aðfarahæf með áritun.
 15. Forsaga málsins frá sjónarhorni gagnaðila sé sú að við kaup á fasteigninni Karlsbraut 16, Dalvík, hafi hún lagt til 1.000.000 kr. við kaup á eigninni. Samkvæmt kaupsamningi, dags. 15. ágúst 2013, sé sú fjárhæð einu fjármunirnir sem lagðir hafi verið til vegna kaupanna. Þann 20. ágúst 2013 hafi aðilar gert með sér samning þannig að gagnaðili keypti 50% hlut í fasteigninni og hafi þar verið tiltekið að umsamið kaupverð hafi verið að fullu greitt. Þann 8. ágúst 2015 hafi aðilar svo gert með sér kaupsamning þar sem gagnaðili hafi keypt 50% af endurupptökubeiðanda og sé kaupverðið þar lýst 8.000.000 kr. og sé greitt með yfirtöku á áhvílandi láni. Í kjölfar kaupsamnings hafi afsal verið gefið út, nánar tiltekið þann 14. september 2015, og þar hafi afhendingardagur verið tiltekinn 1. október 2015. Gagnaðili mótmælir málavaxtalýsingu endurupptökubeiðanda sem rangri.
 16. Þá er því sérstaklega mótmælt að endurkrafa gagnaðila vegna greiddra skuldbindinga endurupptökubeiðanda hafi verið hluti af kaupverði. Skýrt sé tekið fram í kaupsamningi að greiðsla fyrir eignarhlut endurupptökubeiðanda hafi verið greidd með yfirtöku á láni Íbúðarlánasjóðs. Endurupptökubeiðandi hafi ekki sannað þá fullyrðingu að framangreindar skuldir samkvæmt fjárnámi hafi verið hluti af greiðslu kaupverðs.
 17. Samkvæmt gagnaðila hafi stefna vegna málshöfðunar á hendur endurupptökubeiðanda verið birt á lögheimili hans þann 9. mars 2017. Bróðir endurupptökubeiðanda hafi kvittað fyrir móttöku hennar. Endurupptökubeiðanda hafi mátt vera kunnugt um fyrirhuguð málaferli þá þegar stefnan var birt á lögheimili hans. Honum hafi þá verið fært að taka til varna en kosið að gera það ekki.
 18. Endurupptökubeiðanda hafi þá þegar verið send innheimtuviðvörun, dags. 9. nóvember 2015. Þar hafi krafan á hendur honum verið sundurliðuð og í samræmi við stefnu. Þá hafi verið búið að taka fjárnám fyrir þeim skuldum og þinglýsa á eignina Karlsbraut 16. Þar hafi einnig verið tiltekin skuldin vegna húsleigunnar. Þar hafi því verið lýst að gagnaðili færi fram á greiðslu húsaleigu frá 1. október 2015. Þá hafi verið um að ræða tveggja mánaða leigu og skuld samkvæmt því 240.000 kr. Samkvæmt innheimtuviðvörun þá hafi heildarskuld endurupptökubeiðanda verið 1.002.000 kr. Þessu hafi aldrei verið mótmælt af hálfu endurupptökubeiðanda og hafi þetta verið lagt fram við þingfestingu málsins.
 19. Þann 20. janúar 2016 hafi gagnaðili sent áskorun til endurupptökubeiðanda. Þar hafi verið skorað á hann að greiða umrædda skuld en skuldin verið sundurliðuð nákvæmlega. Þannig hafi verið gerð krafa um greiðslu á skuldbindingum sem endurupptökubeiðandi bar ábyrgð á að greiða en kröfuhafar þá verið búnir að gera fjárnám í eigninni. Þá hafi verið gerð krafa um greiðslu á leigu frá sama tímamarki og lýst var í innheimtuviðvörun. Endurupptökubeiðandi hafi í engu mótmælt efni áskorunarinnar, er hún hafi verið lögð fram við þingfestingu málsins.
 20. Gagnaðili telur að skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt. Til að fallist verði á endurupptöku þurfi öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Endurupptökubeiðandi styðji beiðni sína um endurupptöku við framangreint ákvæði. Gagnaðili telji endurupptökubeiðanda ekki rökstyðja sérstaklega hvernig skilyrði a-, b- og c-liðar 1. mgr. 191. gr. laganna séu uppfyllt.
 21. Gagnaðili vísi til afsals, dags. 14. september 2015, þar sem afhendingardagur eignarinnar er tilgreindur 1. október 2015 og telji hún það í samræmi við innheimtuviðvörun sem endurupptökubeiðandi hafi fengið ásamt áskorun, þ.e. þau bréf sem lögð voru fram með stefnu við þingfestingu málsins. Gagnaðili tekur fram að endurupptökubeiðandi hafi í engu lagt fram gögn máli sínu til stuðnings, líkt og áskilið sé í b-lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála.
 22. Að framangreindu virtu og með vísun til nefndra lagaákvæða krefst gagnaðili þess að kröfu endurupptökubeiðanda um endurupptöku málsins verði hafnað.

  IV. Niðurstaða

 23. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXVIII. kafla laga um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 191. gr. getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í héraðsdómi verði tekið til nýrrar meðferðar ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Í 1. mgr. 192. gr. segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.
 24. Skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi
  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

  Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

 25. Af hálfu endurupptökubeiðanda er vísað til þess að honum hafi ekki verið kunnugt um þingfestingu dómsmálsins þegar hún átti sér stað og að honum hafi fyrst verið kunnugt um kröfu gagnaðila eftir að fjárnám hafði verið gert í báti hans þann 23. mars 2017. Í kjölfarið hafi hann leitað sér lögmannsaðstoðar. Samkvæmt 137. gr. laga um meðferð einkamála hafði endurupptökubeiðandi möguleika á því að sækja um endurupptöku útivistarmálsins fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra en gerði það ekki innan þeirra tímamarka sem þar greinir.
 26. Endurupptökunefnd hefur aflað birtingarvottorðs í málinu. Samkvæmt því var stefna í málinu birt fyrir bróður endurupptökubeiðanda á skráðu lögheimili endurupptökubeiðanda þann 25. nóvember 2016. Samkvæmt því var fullnægt þeim skilyrðum sem lög um meðferð einkamála gera til þess með hvaða hætti stefnubirting fer fram. Stefnubirting var því í fullu samræmi við ákvæði XIII. kafla um meðferð einkamála og voru því uppfyllt þau skilyrði sem lög gera til þess að stefndi eigi þess kost að mæta við þingfestingu máls og taka til varna í málinu. Þar sem útivist varð af hálfu endurupptökubeiðanda er þegar af þeirri ástæðu ekki uppfyllt skilyrði a- liðar 1. mgr. 191. gr. um að aðila verði því ekki kennt um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar í héraði.
 27. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála er því ekki uppfyllt og gerist því ekki þörf á að fjalla um b- og c-lið.
 28. Í ljósi þessa skortir lagagrundvöll til að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku héraðsdómsmáls nr. E-217/2016 og er henni því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Beiðni Guðmundar Sigurðssonar um endurupptöku héraðsdómsmálsins nr. E-217/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Norðurlands eystra 5. janúar 2017, er hafnað.

 

Haukur Örn Birgisson formaður

 

Gizur Bergsteinsson

 

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira