Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2018

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 25. október 2018 í máli nr. 4/2018.

Fasteign: Kólumbusarbryggju [], fnr. [], Snæfellsbæ.

Kæruefni: Fasteignamat.

 

 

Árið 2018, 25. október, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 4/2018 kveðinn upp svohljóðandi

 

Úrskurður

Með erindi, dags. 30. apríl 2018, kærði Sveinn Jónatansson, lögmaður, fyrir hönd X, kt. [ ], Snæfellsási [ ], Snæfellsbæ, ákvörðun Þjóðskrár Íslands um endurmat á fasteignamati fasteignarinnar Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, fnr. [ ], vegna áranna 2011 - 2014.

Með bréfi, dags. 2. maí 2018, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn Þjóðskrár Íslands vegna kærunnar. Umsögn barst þann 6. júní 2018.

Með bréfi, dags. 16. maí 2018, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn frá þrotabúi [ ] vegna kærunnar. Umsögn barst þann 7. júní 2018.

Þann 14. júní 2018 voru umsagnir Þjóðskrár Íslands og þrotabús [ ] sendar kæranda og honum gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir. Með bréfum, dags. 27. júní 2018, bárust frekari athugasemdir af hálfu kæranda.

Athugasemdir kæranda voru sendar Þjóðskrá Íslands og þrotabúi [ ] þann 2. júlí 2018.

Engar frekari athugasemdir bárust.

Kærandi gerði kröfu um að yfirfasteignamatsnefnd frestaði réttaráhrifum hins kærða úrskurðar. Yfirfasteignamatsnefnd tók þá kröfu til úrskurðar sérstaklega og með úrskurði nefndarinnar þann 10. ágúst 2018 var fyrrgreindri kröfu kæranda hafnað.

Málið var tekið til úrskurðar 14. september 2018.

 

 1. Málavextir

  Líkt og að framan greinir lýtur mál þetta að kæru S á ákvörðun Þjóðskrár Íslands um endurmat á fasteignamati fasteignarinnar Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ vegna áranna 2011 – 2014.

  Þann 11. apríl 2017 gerði þrotabú [ ] kröfu um leiðréttingu á fasteignamati fasteignarinnar að Kólumbusarbryggju [ ], fnr. [ ], fyrir árin 2011-2014. Krafan kom fram í kjölfar úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar frá 8. mars 2017 í máli nr. 25/2016 sem varðaði umrædda fasteign. Í forsendum fyrrgreinds úrskurðar kemur m.a. fram að það sé mat nefndarinnar að ekki hafi verið grundvöllur til að ákvarða mannvirkinu húsmat fyrr en með ákvörðun Þjóðskrár Íslands þann 6. desember 2016. Gerði þrotabúið kröfu um að fasteignamat eignarinnar fyrir árin 2011-2014 yrði leiðrétt til samræmis við forsendur fyrrnefnds úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar.

  Með ákvörðun, dags. 3. maí 2017, leiðrétti Þjóðskrá Íslands áður tilkynnt fasteignamat fasteignarinnar að Kólumbusarbryggja [ ], Snæfellsbæ, fnr. [ ], fyrir árin 2011-2016.

  Með erindi, dags. 8. maí 2017, gerði kærandi athugasemdir við leiðréttinguna og taldi hana ekki vera í fullu samræmi við fyrrgreindan úrskurð yfirfasteignamatsnefndar. Með erindi, dags. 19. júní 2017, krafðist kærandi þess svo formlega að eignin yrði endurmetin.

  Með bréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 8. september 2017, til kæranda og þrotabús [ ], var þeim tilkynnt um að fyrirhugað væri með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna að leiðrétta áður tilkynnt breytt fasteignamat fasteignarinnar frá 3. maí 2017. Var af hálfu Þjóðskrá Íslands vísað til þess að áðurnefnd leiðrétting frá 3. maí 2017 hafi byggst á forsendum úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 en ekki úrskurðarorðum hans. Þar sem að í forsendum úrskurðarins væri tiltekið lengra tímabil en fram kæmi í úrskurðarorðum hans væri það mat stofnunarinnar að hluti leiðréttingarinnar hefði ekki verið réttmæt. Þá væri það álit stofnunarinnar að endurmat fasteignarinnar fyrir árin 2011-2014 ætti að taka til sjálfstæðrar meðferðar í sérstöku máli. Var aðilum veittur frestur til 22. september 2017, til að koma á framfæri athugasemdum sínum við fyrirhugaða leiðréttingu. Skiptastjóri þrotabús [ ] sendi Þjóðskrá Íslands athugasemdir með bréfi, dags. 20. september 2017, þar sem fyrirhugaðri leiðréttingu var mótmælt.

  Með ákvörðun, dags. 27. nóvember 2017, leiðrétti Þjóðskrá Íslands fasteignamat fasteignarinnar fyrir tímabilið 2011-2014. Fasteignamat eignarinnar fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til og með 5. desember 2016 hélst hins vegar óbreytt frá því sem áður hafði verið tilkynnt í ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 3. maí 2017.

  Í framhaldinu tók Þjóðskrá Íslands kröfu um endurmat fasteignarinnar fyrir árin 2011-2014 til sjálfstæðrar meðferðar. Með erindi, dags. 27. nóvember 2017, tilkynnti Þjóðskrá Íslands, kæranda og þrotabúi [ ] að fyrirhugað væri með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að endurmeta fasteignamat eignarinnar fyrir árin 2011-2014 til samræmis við það er fram kæmi í forsendum úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 26/2016. Var aðilum veittur tveggja vikna frestur til að koma að athugasemdum sínum við fyrirhugaða leiðréttingu Þjóðskrár Íslands á fasteignamati eignarinnar fyrir fyrrgreind ár.

  Þann 7. desember 2017, bárust Þjóðskrá Íslands athugasemdir frá skiptastjóra þrotabús [ ] þar sem þess var krafist að fyrirhugað endurmat fasteignarinnar yrði staðfest.

  Með erindi, dags. 11. desember 2017, bárust Þjóðskrá Íslands svo athugasemdir frá kæranda þar sem fyrirhuguðu endurmati fasteignarinnar var mótmælt og þess krafist að fasteignamat yrði óbreytt frá því sem ákveðið hafði verið með frummati og árlegri lögboðinni endurskoðun þess á árunum 2011 til 2014.

  Með ákvörðun, dags. 30. janúar 2018, endurmat Þjóðskrá Íslands fasteignamat ofangreindrar fasteignar fyrir árin 2011-2014. Var í ákvörðun Þjóðskrár Íslands vísað til þess að í forsendum úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 hafi komið fram að ekki hafi verið grundvöllur til að ákvarða mannvirkinu húsmat fyrr en með ákvörðun Þjóðskrár Íslands þann 6. desember 2016. Var við endurmatið ákveðið að eignin skyldi einungis bera lóðarmat á árunum 2011 – 2014 en ekkert húsmat. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun Þjóðskrá Íslands frá 30. janúar 2018 og hefur því kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir.

   

 2. Sjónarmið kæranda.

  Kærandi gerir aðallega þá kröfu að kröfu þrotabús [ ] um framkvæmd endurmats á fasteignamati fasteignarinnar Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, vegna áranna 2011-2014, verði synjað og að kröfu þess efnis verði vísað frá Þjóðskrá Íslands.

  Er aðalkrafa kæranda í fyrsta lagi á því byggð að þrotabú [ ] eigi ekki aðild að málinu.

  Í öðru lagi er á því byggt að allir tímafrestir lögum samkvæmt til að krefjast endurmats á fasteigninni séu löngu liðnir. Samkvæmt 3. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 hafi sá sem vill krefjast endurupptöku á endurmati fasteignar einn mánuð til að gera þá kröfu. Þá sé meginreglan sú að kröfu um endurupptöku á íþyngjandi stjórnsýsluákvörðunum skuli gera innan þriggja mánaða. Þó sé endurupptaka heimil eftir það ef allir aðilar málsins samþykki slíkt en frestur skal þó ekki vera lengri en eitt ár frá því að stjórnsýsluákvörðun var tekin og tilkynnt aðila, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Aðeins sé heimilt að víkja frá þessum eins árs fresti ef veigamiklar ástæður mæli með því. Megi af þessu ákvæði vera ljóst að eftir því sem lengra er liðið frá því að ákvörðun var tekin verði að gera þeim mun ríkari kröfur til þeirra ástæðna sem eigi að réttlæta það að vikið sé frá lögboðnum frestum til að krefjast endurupptöku á ákvörðunum um fasteignamat.

  Vísar kærandi til þess að þegar krafa um endurmat á fasteignamati eignarinnar hafi komið fram frá þrotabúi [ ] í apríl 2017 hafi verið um sjö ár liðin frá því að félaginu var tilkynnt um fasteignamat ársins 2011. Ljóst sé að ef ekki eru takmarkanir á því hversu langt aftur í tímann sé hægt að krefjast endurskoðunar á fasteignamati þá skapi það réttaróvissu og glundroða í þeirri stjórnsýslu sem snýr að fasteignamati og fyrir skattheimtu sveitarfélaga á fasteignaskatti almennt. Slíkt sé í andstöðu við meginmarkmið laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Þá bendir kærandi á að frestir til endurupptöku ákvarðana umfram þriggja mánaða frest sé í öllum tilvikum háður samþykki frá öðrum aðilum máls eins og skýrt sé tekið fram í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi, sem ótvírætt sé aðili að þeim málum sem varða endurmat á fasteignamati eignarinnar, hafi ekki samþykkt endurupptöku á stjórnsýsluákvörðunum Þjóðskrár Íslands sem varða endurmat á fasteignamati eignarinnar og því sé óheimilt að heimila endurupptöku. Beri þegar af þeirri ástæðu að fella endurmatið frá 30. janúar 2018 úr gildi. Þá telur kærandi að tilvísun Þjóðskrár Íslands til þess rökstuðnings sem fram kemur í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 16/2015 eigi ekki við í því máli sem hér um ræðir.

  Í þriðja lagi byggir kærandi á því að ef svo ólíklega vilji til að talið verði að tímafrestir séu ekki liðnir þá sé þegar búið sé að verða við kröfu þrotabús [ ] um endurmat á eigninni með ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 27. nóvember 2017. Með þeirri ákvörðun hafi verið fallist á kröfur kæranda um leiðréttingu fasteignamats og kröfum þrotabúsins verið hafnað. Því máli sem krafa þrotabúsins frá 11. apríl 2017 laut að hafi því formlega verið lokið. Kærandi telur að það hafi verið ólögmætt að búa til nýtt mál og taka aftur til úrskurðar kröfu þrotabúsins frá 11. apríl 2017 með nýju máli þann 27. nóvember 2017. Telur kærandi stjórnsýslu Þjóðskrár Íslands í málinu vera í andstöðu við lög nr. 6/2001 og stjórnsýslulög nr. 37/1993. Lögmæt meðferð málsins hefði verið að þrotabúið hefði nýtt rétt sinn til að kæra niðurstöðu Þjóðskrár Íslands frá 27. nóvember 2017 með því að fara lögboðna kæruleið á grundvelli 34. gr. laga nr. 6/2001 innan mánaðar eða eftir atvikum þriggja mánaða í samræmi við 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrotabúið hafi hins vegar ekki nýtt þann rétt innan lögboðins frests og standi því ákvörðun Þjóðskrár Íslands óhögguð. Því beri að fella þessa málsmeðferð niður í heild sinni og vísa málinu frá Þjóðskrá Íslands.

  Í fjórða lagi byggir kærandi á því að þrotabú [ ] sé ekki eigandi eignarinnar og hafi ekki verið það þegar krafa um endurmat var sett fram 11. apríl 2017. Þrotabúið sé heldur ekki hagsmunaaðili í skilningi 31. gr. laga nr. 6/2001 enda séu allar kröfu þrotabúsins fallnar niður fyrir tómlæti og/eða fyrningu hafi þær einhvern tímann verið til staðar. Þá bendir kærandi á að þrotabúið hafi engar athugasemdir gert við uppboðsmeðferð á fasteigninni eða úthlutun uppboðsandvirðis á sínum tíma. Skiptastjóri þrotabúsins hafi auk þess fengið tilkynningar um fasteignamat áranna 2011 – 2014 á sínum tíma og engar athugasemdir gert við þær ákvarðanir né farið fram á endurmat á fasteignamati.

  Í fimmta lagi byggir kærandi á því að engar nýjar upplýsingar eða breytingar liggi fyrir sem geti réttlætt endurmat og því beri að synja kröfum þess efnis og/eða vísa slíkum kröfum frá Þjóðskrá Íslands.

  Í sjötta lagi byggir kærandi á því að aðilum hafi ekki verið veitt tækifæri til að andmæla þeim athugasemdum sem aðrir aðilar hafi sett fram við meðferð málsins sem sé í andstöðu við ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt og almennar málsmeðferðarreglur í málum sem þessum.

  Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda í málinu gerir hann þá kröfu til vara að hin kærða ákvörðun um endurmat á fasteignamati fasteignarinnar Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, vegna áranna 2011-2014, verði felld úr gildi og að staðfest verði að fasteignamat eignarinnar sé kr. 299.650.000.- vegna ársins 2011, kr. 303.450.000.- vegna ársins 2012, kr. 315.050.000.- vegna ársins 2013 og kr. 315.050.000.- vegna ársins 2014.

  Vísar kærandi til þess að málsnúmeri hafi verið breytt hjá Þjóðskrá Íslands og gefið í skyn að um hafi verið að ræða einhliða ákvörðun um endurmat á grundvelli þess sem kemur fram í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016. Telur kærandi þetta vera rangt og í ósamræmi við grundvöll málsins er fram kemur í bréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 27. nóvember 2017, þar sem fram kemur að um sé að ræða mál sem varði endurmat að kröfu þrotabús [ ] frá 11. apríl 2017. Telur kærandi að málsgrundvelli hafi verið breytt í miðri meðferð málsins.

  Jafnframt telur kærandi það liggja fyrir að búið sé að framkvæma endurmat í framhaldi af framangreindum úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016. Það endurmat sé bindandi og því ólögmætt að fara af stað með nýtt mat á sama grundvelli án þess að fyrir liggi að nokkrar breytingar hafi orðið í millitíðinni eða að fyrir liggi nýjar upplýsingar eða gögn.

  Kærandi telur að rökstuðningur Þjóðskrár Íslands í ákvörðun stofnunarinnar frá 30. janúar 2018 sé  mjög rýr. Þar sé vísað til forsendna í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 og að telja verði að fasteignamat eignarinnar hafi verið byggt á röngum upplýsingum um fasteignina fram til 6. desember 2016. Þá vísi Þjóðskrá Íslands til þess að skilyrði séu fyrir endurupptöku þar sem hækkun fasteignamats geti varðað mikla fjárhagslega hagsmuni þrotabús [ ] og að þau tímamörk sem fram koma í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga standi ekki í vegi fyrir endurupptöku málsins. Kærandi mótmælir þessum rökstuðningi. Vísar kærandi m.a. til þess að búið sé að framkvæma það endurmat sem þrotabúið fór fram á og hafi þrotabúið fengið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum og eftir atvikum að kæra endurmatið en það hafi ekki verið gert. Kærandi mótmælir einnig efnislegum rökstuðningi fyrir endurmatinu og telur að Þjóðskrá Íslands sé komin í andstöðu við þann rökstuðning sem stofnunin hafi sett fram af sinni hálfu í málum yfirfasteignamatsnefndar nr. 10/2016 og 25/2016.

  Kærandi telur það beinlínis ranga fullyrðingu hjá Þjóðskrá Íslands að fasteignamat eignarinnar að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ hafi byggst á röngum upplýsingum um eignina allt fram til 6. desember 2106. Þvert á móti sé óumdeilt að lokið hafi verið við að koma eigninni í núverandi ástand á árinu 2010. Gögn sýni að ekkert hafi verið framkvæmt í húsinu eftir að [ ] var gjaldþrota í lok árs 2011. Núverandi eigandi hafi ekkert gert varðandi byggingu hússins enda hafi hann keypt húsið til niðurrifs og flutnings.

  Kærandi telur það fráleita niðurstöðu sem fram kemur í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 að Þjóðskrá Íslands hafi fyrir skoðun á eigninni í nóvember 2016 ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærandi í ljósi þess að viðurkennt sé að fasteignin hafi uppfyllt matsstig 4 í nóvember 2016 þá hafi hún einnig gert það á árinu 2010 þar sem hún hafi verið í óbreyttu ástandi frá því ári.  Ekki verði séð að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Þjóðskrá Íslands hafi fengið upplýsingar um eignina frá eiganda hennar sem og frá kæranda og fagmönnum sem hafi skoðað eignina. Þá hafi sérfræðingar Þjóðskrár Íslands einnig skoðað eignina. Með þessu hafi rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga verið fullnægt með sambærilegum hætti og með þeim sömu aðferðum og beitt hafi verið áratugum saman við mat á fasteignum um land allt. Telur kærandi að óheimilt sé að beita öðrum aðferðum við mat á fasteigninni að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, auk þess sem verið sé að endurmeta fasteignina á öðrum forsendum en venja sé til.

  Verði ekki fallist á kröfu kæranda í málinu sé yfirfasteignamatsnefnd í raun að byggja niðurstöðu sína í þessu máli og máli nefndarinnar nr. 25/2016 á því að Þjóðskrá Íslands hafi vanrækt skyldur sínar og það hlutverk sem stofnuninn hafi verið falið. Slíkt kalli á bótaskyldu af hálfu Þjóðskrár Íslands bæði í þessu máli og fjölda annarra. Slík niðurstaða muni skapa glundroða á þessu sviði og kollvarpa áralöngum venjum sem viðhafðar hafa verið við framkvæmd fasteignamats hér á landi. 

  Kærandi gerir þá kröfu til þrautavara að hin kærða ákvörðun um endurmat á fasteignamati fasteignarinnar Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, vegna áranna 2011-2012, verði felld úr gildi og að staðfest verði að fasteignamat Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, sé kr. 299.650.000.- vegna ársins 2011 og kr. 303.450.000.- vegna ársins 2012.

  Byggir kærandi þrautavarakröfuna á því að breyting á fasteignamati eignarinnar vegna áranna 2011 og 2012 komi undir engum kringumstæðum til greina enda hafi fasteignamat þessara ára verið ákveðið í maí 2010 og 2011 og að áhrif vegna breytinga á byggingastigi hafi ekki haft áhrif á fasteignamat þessara ára. Ef breytt byggingarstig kalli á formlega rannsókn á ástandi húss þá hafi það ekki átt sér stað fyrr en að búið var að ákvarða fasteignamat áranna 2011 og 2012.

  Kærandi gerir einnig kröfu um að þrotabúi [ ] verði gert að greiða kæranda málskostnað vegna reksturs málsins bæði fyrir Þjóðskrá Íslands og yfirfasteignamatsnefnd. Telur kærandi að krafa þrotabúsins um endurmat á fasteignamati eignarinnar sé tilefnislaus og með vísan til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 6/2001 sé gerð krafa um málskostnað.

   

 3. Sjónarmið Þjóðskrár Íslands.

  Í umsögn Þjóðskrár Íslands, dags. 6. júní 2018, er því mótmælt að afgreiðsla málsins hafi ekki verið lögum samkvæmt. Vísað er til þess að í úrskurðarorðum úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016, frá 8. mars 2017, komi fram að fasteignin að Kólumbusarbryggja [ ] , Snæfellsbæ, fnr. [ ], skuli frá árinu 2015 til 5. desember 2016, einvörðungu bera lóðarmat. Þá komi fram í niðurstöðu fyrrgreinds úrskurðar að ekki hafi verið grundvöllur til að ákvarða mannvirkinu húsmat fyrr en með ákvörðun Þjóðskrár Íslands þann 6. desember 2016. Því hafi fasteignin allt frá árinu 2010 og fram til 6. desember 2016 einungis átt að bera lóðarmat.

  Þjóðskrá Íslands bendir á að sú leiðrétting sem gerð hafi verið með tilkynningu, dags. 3. maí 2017, hafi verið gerð í tilefni af fyrrgreindum úrskurði eða nánar tiltekið til að ljúka því máli sem til meðferðar hefði verið hjá nefndinni, sbr. 2. málslið 2. mgr. 34. gr. laga um skráningu á og mat fasteigna nr. 6/2001, þar sem kveðið sé á um að nýtt matsverð úr niðurstöðu kærumáls fyrir yfirfasteignamatsnefnd skuli þegar skráð í fasteignaskrá. Ekki hafi verið tilefni til að leiðrétta fasteignamat eignarinnar fyrir árin 2011-2014 í þeirri leiðréttingu enda hafi úrskurðarorð fyrrgreinds úrskurðar ekki tekið til þeirra ára. Hins vegar hafi verið rétt að taka þá kröfu sem kom fram um breytingu á fasteignamati eignarinnar fyrir árin 2011 - 2014 til sjálfstæðrar meðferðar.

  Þjóðskrá Íslands hafi tekið kröfu um endurmat fasteignarinnar fyrir árin 2010-2014 til sjálfstæðrar meðferðar. Í því skyni hafi verið stofnað nýtt mál með nýju málsnúmeri. Þjóðskrá Íslands hafi þann 27. nóvember 2017, tilkynnt þrotabúi [ ] og kæranda að fyrirhugað væri með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að endurmeta fasteignamat eignarinnar fyrir árin 2011-2014 til samræmis við það er fram kæmi í forsendum fyrrgreinds úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016. Í þessari tilkynningu hafi málsnúmer málsins fyrir mistök verið ranglega tilgreint en það hafi síðar verið leiðrétt í tilkynningu sem send var málsaðilum 30. janúar 2018. Kæranda hafi mátt vera það ljóst að um nýtt mál væri að ræða enda verið upplýstur um að krafa þessi yrði tekin til sjálfstæðrar meðferðar, sbr. tilkynningu Þjóðskrár Íslands til kæranda um leiðrétt fasteignamat eignarinnar, dags. 27. nóvember 2017.

  Kærandi bendir á að kæranda og þrotabúi [ ] hafi verið veittur tveggja vikna frestur til að koma að athugasemdum sínum við fyrirhugaða leiðréttingu Þjóðskrár Íslands á fasteignamati eignarinnar fyrir fyrrgreind ár. Var þetta gert þrátt fyrir að samkvæmt 3. mgr. 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 gildi ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga ekki um málsmeðferð samkvæmt 30. og 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Ákvæði þetta komi þó ekki í veg fyrir að Þjóðskrá Íslands veiti aðilum færi á að koma að athugasemdum sínum telji stofnunin tilefni til. Það að aðilum hafi verið veitt færi á að koma að athugasemdum sínum virkjar þó ekki fyrrgreint ákvæði stjórnsýslulaga við meðferð málsins og hafni Þjóðskrá Íslands því þegar af þeirri ástæðu þeim málatilbúnaði kæranda að meðferð málsins hafi verið í andstöðu við IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt og almennar málsmeðferðarreglur. Eftir að athugasemdir höfðu borist frá báðum aðilum hafi Þjóðskrá Íslands tekið þá ákvörðun að staðfesta fyrirhugaða leiðréttingu. Þjóðskrá Íslands hafi því endurmetið, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fasteignamat eignarinnar fyrir árin 2011-2014 til samræmis við það sem fram hafi komið í forsendum fyrrgreinds úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar.

  Þjóðskrá Íslands telur að samkvæmt niðurstöðu yfirfasteignamatsnefndar hafi fasteignin einungis átt að bera lóðarmat á þeim árum sem hér um ræðir, en þar sem fasteignamat eignarinnar hafi byggst á lóðarmati og húsmati á fyrrgreindum árum verði að telja að það hafi verið byggt á röngum upplýsingum um eignina. Ekki sé hægt að gera þá kröfu til eigenda fasteigna að þeir átti sig á að munur sé á matsstigi og byggingarstigi eigna. Með hliðsjón af framansögðu verði að telja að frumskilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til endurupptöku máls hafi verið uppfyllt. Þar sem lækkun fasteignamats geti varðað mikla fjárhagslega hagsmuni fyrir þrotabú [ ], verði einnig að telja að þau tímamörk sem komi fram í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 standi ekki í vegi fyrir endurupptöku málsins, sbr. t.d. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 16/2015.

  Í forsendum fyrrgreinds úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 komi fram að skilyrðum rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 3//1993 hafi ekki verið fullnægt við ákvörðun Þjóðskrár Íslands um mat fasteignarinnar, þar sem fullnægjandi skoðun eignarinnar af hálfu stjórnvaldsins hafði ekki farið fram. Þjóðskrá Íslands hafi ekki óskað eftir rökstuðningi eða skýringum frá sveitarfélaginu hvorki fyrir hækkun né lækkun byggingarstigs árin 2010 og 2011. Þá væri ekki í gögnum málsins að finna ástæðu fyrir því að byggingarstig eignarinnar var lækkað en matsstigi hennar haldið óbreyttu. Hafi yfirfasteignamatsnefnd talið að grundvöllur hefði verið fyrir Þjóðskrá Íslands til þess að leggja sjálfstætt mat á það hvort eignin væri réttilega skráð á matsstig 4 eða lækka matsstigið í samræmi við breytt byggingarstig. Enn frekari ástæða hafi verið fyrir Þjóðskrá Íslands til að skoða málið nánar eftir að ósk um endurmat á fasteignamati eignarinnar kom fram 12. nóvember 2015. Ekki hafi verið bætt úr þessum ágalla fyrr en með sjálfstæðri skoðun Þjóðskrár Íslands á fasteigninni þann 10. nóvember 2016. Ljóst sé því af mati nefndarinnar að skoðunarskylda Þjóðskrár Íslands sé óháð því hvort athugasemdir hafi verið gerðar við fasteignamat eignarinnar. Enda hafi yfirfasteignamatsnefnd komist að fyrrgreindri niðurstöðu þrátt fyrir að engar athugasemdir hefðu borist um fasteignamat eignarinnar fyrr en árið 2015.

  Þjóðskrá Íslands bendir á að yfirfasteignamatsnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu í fyrrgreindum úrskurði í máli nr. 25/2016 að fasteignin, skyldi fyrir árið 2015 og fram til 6. desember 2016 einungis bera lóðarmat. Þá tiltaki yfirfasteignamatsnefnd það einnig í forsendum sama úrskurðar að fasteignamat eignarinnar hafi verið rangt ákvarðað allt frá árinu 2011 fram til 6. desember 2016. Ljóst sé þó af fyrrgreindum úrskurði að Þjóðskrá Íslands hafi beitt réttum aðferðum við ákvörðun fasteignamats fasteignarinnar en sá ágalli sem hafi verið á meðferð málsins allt til 6. desember 2016, hafi leitt til þess að ekki hafi verið rétt að ákvarða fasteignamat eignarinnar með þessum hætti fyrr en þá. Þó svo að Þjóðskrá Íslands hafi fyrir úrskurð þennan talið sig hafa ákvarðað fasteignamat eignarinnar með réttum hætti þá séu úrskurðir yfirfasteignamatsnefndar fullnaðarúrskurðir, sbr. 3. mgr. 34. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Þó svo að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 hafi ekki tekið til þess tímabils sem hér um ræðir þá sé fjallað um það í niðurstöðu málsins og afstaða nefndarinnar sé afdráttarlaus til þess hvert fasteignamat eignarinnar á því tímabili eigi að vera.

  Þá bendir Þjóðskrá Íslands á að það sé á ábyrgð annarra stjórnvalda að innheimta fasteignagjöld. Hlutverk Þjóðskrár Íslands sé eingöngu að meta verðgildi fasteigna samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 en álagning fasteignaskatts sé framkvæmd samkvæmt II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Það sé því ekki í höndum Þjóðskrár Íslands að skera úr um hvort endurkröfuréttur fasteignagjalda stofnist er fasteignamati eignar sé breytt enda hafi stofnunin hvorki forsendur né heimildir til að taka afstöðu til þess.

   

 4. Sjónarmið þrotabús [ ]

  Í umsögn þrotabús [ ], dags. 7. júní 2018, kemur fram að eina eign þrotabúsins hafi verið verksmiðjuhús á byggingastigi staðsett að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ. Kaupsamningur um sölu eignarinnar hafi verið gerður á grundvelli VI. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, þ.e. kafla um nauðungarsölu á almennum markaði. Helstu kröfur á hendur þrotabúinu hafi verið ógreidd fasteignagjöld og iðgjöld brunatrygginga sem greidd hafi verið að fullu við sölu eignarinnar.

  Á grundvelli forsendna úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 og með vísan til 1. og 2. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna hafi þrotabúið  farið þess á leit við Þjóðskrá Íslands með bréfi, dags. 11. apríl 2017, að leiðrétt yrði núverandi skráning eignarinnar til samræmis við forsendur fyrrnefnds úrskurðar nefndarinnar. Þann 3. maí 2017 hafi fasteignamat eignarinnar verið leiðrétt fyrir árin 2010-2016 með vísan til fyrrgreinds úrskurðar.

  Þrotabúið vísar í fyrsta lagi til þess að umrædd fasteign hafi eingöngu átt að bera lóðarmat frá árinu 2010 til 6. desember 2016, sbr. fyrrgreindar forsendur í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar.

  Í öðru lagi sé á því byggt að ekki sé tilefni til að fjalla um ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 27. nóvember 2017, um að leiðrétta mat fasteignarinnar að kröfu kæranda, enda hafi stofnunin tilkynnt í sama bréfi að hún myndi taka sjálfstæða afstöðu til endurmats eignarinnar fyrir árin 2011-2014 í aðskildu máli. Það hafi Þjóðskrá Íslands síðan gert með hinni kærðu ákvörðun um endurmat fasteignamats eignarinnar, dags. 30. janúar 2018.

  Í þriðja lagi byggir þrotabúið á því að Þjóðskrá Íslands sé endanlega búin að staðfesta fasteignamat umræddrar eignar með hinum kærða úrskurði, á þeim grunnforsendum sem komi fram í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016. Þá sé ljóst að lækkun fasteignamats geti varðað mikla fjárhagslega hagsmuni fyrir þrotabúið sem þrotabúið eigi rétt á að fá endurgreitt samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

  Þá er af hálfu þrotabúsins lögð áhersla á að þrotabúinu hafi ekki fyrr en við uppkvaðningu úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 í mars verið kunnugt um að ekki hafi verið grundvöllur til að ákvarða mannvirkinu húsmat fyrr en með ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 6. desember 2016.

   

 5. Viðbótarathugasemdir kæranda við umsagnir Þjóðskrár Íslands og þrotabús [ ]

  Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð Þjóðskrár Íslands og telur að það geti ekki verið mistök þegar sama málsnúmerið er ítrekað sett í erindi Þjóðskrár Íslands varðandi málið. Telur kærandi að málsmeðferð Þjóðskrár Íslands sé ólögmæt og sem beri að ógilda.

  Kærandi mótmælir fullyrðingu Þjóðskrár Íslands um að fasteignamat eignarinnar hafi á einhverjum tíma verið byggt á röngum upplýsingum um eignina. Kærandi ítrekar að eignin hafi á árinu 2010 verið komið í það horf sem hún var í þegar ákvörðun Þjóðskrár Íslands var tekin 30. janúar sl. Ákvörðun um fasteignamat eignarinnar hafi því hvorki fyrr né síðar verið reist á röngum upplýsingum.

  Það kemur kæranda á óvart að Þjóðskrá Íslands skuli í rökstuðningi sínum vísa til þess að yfirfasteignamatsnefnd hafi í úrskurði sínum í máli nr. 25/2016 komist að þeirri niðurstöðu að stofnunin hafi ekki fullnægt kröfum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með því sé Þjóðskrá Íslands að taka undir þau sjónarmið sem fram koma í fyrrgreindum úrskurði yfirfasteignamatsnefndar um að stofnuninni hafi orðið á mistök við framkvæmd á lagaskyldum sínum við að meta verðmæti fasteignarinnar til fasteignamats samkvæmt lögum nr. 6/2001 sem síðan er notað sem grundvöllur að álagningu fasteignagjalda. Verði það niðurstaðan sé engum vafa undirorpið að Þjóðskrá Íslands sé bótaskyld vegna þessarar vanrækslu og mistaka að umrædd eign skuli einungis bera lóðamat frá árinu 2010 til 2016. Kærandi telur að ekki hafi verið brotið gegn 10. gr. laga nr. 37/1993 og bendirá að engin breyting hafi átt sér stað á nýtingu eða ástandi eignarinnar á því tímabili sem hér um ræðir. Mat Þjóðskrár Íslands hafi því frá upphafi byggst á réttum upplýsingum um ástand og verðmæti eignarinnar og því hafi stofnunin sinnt rannsóknarskyldu sinni að öllu leyti. Rannsókn og gagnaöflun við ákvörðun á fasteignamati eignarinnar hafi að öllu leyti verið fullnægjandi og í samræmi við lög og áratugalangar vinnureglur stofnunarinnar.

  Vegna röksemda Þjóðskrár Íslands og þrotabús [ ] um að úrskurðir yfirfasteignamatsnefndar séu fullnaðarúrskurðir samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 þá bendir kærandi á að líta beri til efnishliðar málsins en ekki hvort yfirfasteignamatsnefnd hafi endanlegt úrskurðarvald í málum sem þessum Þjóðskrá Íslands hafi haft uppi vel rökstuddar skoðanir á fyrri stigum málsins og hafi Þjóðskrá Íslands ekki átt að víkja frá faglegum skoðunum sínum í málinu.

  Kærandi telur fráleita þá röksemd Þjóðskrár Íslands að stofnunin beri enga ábyrgð á álagningu fasteignaskatts. Lögum samkvæmt sé slíkur skattur lagður á með þeim hætti að fasteignamat Þjóðskrár Íslands sé lagt til grundvallar við útreikning á skattinum.

  Kærandi mótmælir fullyrðingum Þjóðskrár Íslands um að heimilt hafi verið að taka hina kærðu ákvörðun um endurmat vegna hagsmuna þrotabús [ ] og að kröfur þrotabúsins hafi verið innan tímafresta. Ekki sé hægt að byggja á því að þrotabúið hafi átt mikla hagsmuni að gæta enda geti það aldrei verið grundvöllur eða röksemd sem stjórnsýsluákvörðun byggi á. Þá liggi fyrir að kærandi eigi með sama hætti mikilla hagsmuna að gæta i málinu sem taka verði tillit til á sama hátt.

  Kærandi telur að þau grundvallarsjónarmið sem mestu máli skipti við úrlausn mála sem þessara og sem leggja beri til grundvallar við mat á fasteignum samkvæmt lögum nr. 6/2001 komi fram í 26. – 29. gr. þeirra laga.  Samkvæmt þeim ákvæðum beri að leitast við að meta fasteignir þannig að mat þeirra  sé sem næst raunverulegu verðmæti viðkomandi eignar þegar hún hefur náð matsstigi 4. Á árinu 2010 var búið að reisa Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ fyrir hundruði milljóna króna og fráleitt sé að meta viðkomandi mannvirki aðeins með tilliti til verðmæti lóðar og meta í engu mannvirkið sjálft.  Sé niðurstaða sé í andstöðu við lög.

  Kærandi mótmælir því að skiptastjóra þrotabús [ ] hafi ekki verið kunnugt um að ekki hafi verið grundvöllur til að ákvarða fasteigninni húsmat fyrr en 8. mars 2017 þegar úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 lá fyrir. Kærandi telur að skiptastjóri hafi átt þess kost að krefjast endurmats á fasteignmati eignarinnar allt frá því að hann var skipaður með sama hætti og Móabyggð ehf. sem keypti umrædda fasteign í febrúar 2015 gerði í framhaldi af kaupum á eigninni. Skiptastjóri hafði nákvæmlega sömu möguleika að krefjast endurmats og Móabyggð ehf. en ástand eignarinnar var óbreytt frá því að bú [ ] var tekin til gjaldþrotaskipta og þar til Móabyggð ehf. eignaðist eignina. 

   

 6. Niðurstaða

I.

Kærandi krefst þess aðallega að kröfu þrotabús [ ] um endurmat á fasteignamati fasteignarinnar að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, vegna áranna 2011-2014, verði synjað og að kröfu kæranda þess efnis verði vísað frá Þjóðskrá Íslands. Er sú krafa m.a. á því byggð að þrotabúið eigi ekki aðild að málinu þar sem þrotabúið uppfylli ekki þau skilyrði sem fram koma í 21. og 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, og geti þar af leiðandi ekki krafist endurmats á fasteignamati eignarinnar. Vísar kærandi m.a. til þess að þrotabúið sé ekki eigandi umræddrar fasteignar í dag og þá hafi engar athugasemdir komið fram af hálfu þrotabúsins við greiðslu fasteignagjalda samkvæmt frumvarpi að úthlutunargerð við nauðungarsölu á fasteigninni á árinu 2014.

Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 6/2001 kemur fram að eigandi fasteignar eða annar aðili, sem telur sig eiga hagsmuna að gæta í lýsingu fasteignar eða mati, geti krafist endurskoðunar samkvæmt 1. gr. sömu lagagreinar. Séu þessir hagsmunir að mati Þjóðskrár Íslands svo miklir að þeir réttlæti endurskoðun skal sú endurskoðun fara fram svo fljótt sem við verður komið. Þá kemur fram í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 að aðili, sem verulega hagsmuni getur átt í matsverði eignar og sættir sig ekki við skráð mat samkvæmt 29. og 30. gr. geti krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið. Samkvæmt framansögðu og með vísan til þeirrar almennu skilgreiningar stjórnsýsluréttarins að aðili máls sé m.a. sá sem hafi beina og lögvarða hagsmuni að gæta af úrlausn máls, verður að telja að þrotabúið sé aðili að því máli sem hér um ræðir, og hafi getað sett fram kröfu um endurmat á fasteignamati eignarinnar með vísan til fyrrgreindra ákvæða laga nr. 6/2001. Þá er einnig til þess að líta að ekki er um það deilt að [ ] var eigandi umræddrar fasteignar á þeim árum sem hin kærða ákvörðun tekur til. Engu breytir í því sambandi þó þrotabúið hafi ekki verið eigandi fasteignarinnar þegar krafa var sett fram í apríl 2017 um endurmat á fasteignamati eignarinnar fyrir árin 2011 – 2014.

II.

Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku stjórnvaldsákvarðana, en þar segir orðrétt:

,,Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Til þess að fallist verði á endurupptöku máls nægir að annað af tveimur skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993 sé uppfyllt og að beiðni um endurupptöku komi fram innan þeirra tímamarka er fram koma í 2. mgr. sömu lagagreinar, nema veigamiklar ástæður mæli með því að vikið sé frá þeim tímamörkum sem þar eru tilgreind.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um fasteignamat geti komið til endurskoðunar eftir almennum reglum stjórnsýsluréttarins um endurupptöku máls samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga.

Eins og fram kemur í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar frá 8. mars 2017 í máli nr. 25/2016 var talið að Þjóðskrá Íslands hefði ekki sannreynt raunverulegt ástand fasteignarinnar að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ og kannað hvort mannvirkið uppfyllti skilyrði 4. töluliðar 6. gr. reglugerðar nr. 406/1978 fyrr en með vettvangsgöngu hinn 10. nóvember 2016. Var jafnframt talið að í ljósi þess að byggingarstigi eignarinnar var lækkað á árinu 2011 en matsstigi eignarinnar hins vegar haldið óbreyttu að ástæða hefði verið fyrir Þjóðskrá Íslands að leggja sjálfstætt mat á það hvort fasteignin væri réttilega skráð á matsstig 4 eða hvort tilefni væri til að lækka matsstig eignarinnar í samræmi við breytt byggingarstig. Með hliðsjón af fyrrgreindum sjónarmiðum verður að telja að fyrri ákvarðanir Þjóðskrár Íslands varðandi fasteignamat eignarinnar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um eignina og þannig sé uppfyllt skilyrði 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fyrir endurupptöku fyrri ákvarðana varðandi fasteignamat eignarinnar.

Það liggur fyrir að meira en ár leið frá því að eiganda fasteignarinnar að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, var tilkynnt um fasteignamat áranna 2011 – 2014 þar til óskað var eftir endurupptöku á fasteignamati eignarinnar fyrir fyrrgreind ár með bréfi skiptastjóra þrotabús [ ] til Þjóðskrár Íslands þann 11. apríl 2017. Í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna kemur fram að aðili, sem verulega hagsmuni geti átt í matsverði eignar og sætti sig ekki við skráð mat samkvæmt 29. og 30. gr. laganna, geti krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið. Ekki er í lögunum vikið sérstaklega að tímafrestum hvað endurmat varðar og því eðlilegt að litið sé í þeim efnum til þeirra sjónarmiða sem fram koma 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þurfa veigamiklar ástæður að mæla með því að mál verði tekið upp að nýju ef meira en ár er liðir frá þeim tímamörkum sem fram koma í lagaákvæðinu. Að mati yfirfasteignamatsnefndar getur tómlæti til að leita endurupptöku þó ekki eitt og sér útilokað rétt aðila til endurupptöku heldur verður að kanna það hverju sinni hverjar ástæður tómlætis eru. Ekkert er fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að þrotabúi [ ] hafi verið kunnugt um lækkun á byggingarstigi eignarinnar á árinu 2011 eða haft vitneskju um það ágalla á málsmeðferð sem leiddu til lækkunar á fasteignamati eignarinnar, sbr. úrskurður yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016. Þá er jafnframt ljóst að veigamiklar ástæður mæla með endurupptöku málsins enda viðbúið að breytingar á fasteignamati geti varðað verulega hagsmuni þrotabúsins. Að mati yfirfasteignamatsnefndar verður að telja að ákvæði 2. mgr. 24, gr, stjórnsýslulaga standi ekki í vegi fyrir beiðni um endurmat á fasteignamat eignarinnar.

III.

Kærandi byggir kröfu sína um frávísun jafnframt á því að Þjóðskrá Íslands hafi þegar verið búin að taka afstöðu til kröfu þrotabús [ ] frá 11. apríl 2017 um endurmat á fasteignamati eignarinnar. Það hafi Þjóðskrá Íslands gerð með ákvörðun um endurmat á fasteignamati eignarinnar þann 27. nóvember 2017 þar sem fallist var á kröfur kæranda. Ekki verði tekin ný ákvörðun varðandi erindi sem þegar sé búið að taka afstöðu til.

Þjóðskrá Íslands sendi kæranda og þrotabúi [ ] tvö bréf þann 27. nóvember 2017. Í öðru þeirra var gerð grein fyrir þeirri ákvörðun Þjóðskrár Íslands að leiðrétta áður tilkynntar breytingar á fasteignamati Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, frá 3. maí 2017 vegna fasteignamats áranna 2011 – 2014. Sú  leiðrétting hafði verið byggð á forsendum úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 en ekki á úrskurðarorðum þess úrskurðar. Þjóðskrá Íslands taldi eftir frekari skoðun að ákvörðunin frá 3. maí 2017 hafi verið byggð á röngum forsendum og því hafi verið ákveðið að leiðrétta hana með fyrrgreindri ákvörðun frá 27. nóvember 2017. Í hinu bréfinu tilkynnti Þjóðskrá Íslands kæranda að stofnunin hefði í hyggju vegna erindis skiptastjóra þrotabús [ ] frá 11. apríl 2017, að endurmeta fasteignamat eignarinnar fyrir árin 2011 – 2014 í samræmi við ákvæði 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/1978. Var kæranda jafnframt gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við fyrirhugað endurmat.

Ljóst má vera af fyrrgreindum bréfum að ekki var verið að taka afstöðu til erindis skiptastjóra þrotabús [ ] með fyrrgreindri ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 27. nóvember 2017 með leiðréttingu á áður tilkynntum breytingum á fasteignamati eignarinnar enda kom fram með mjög skýrum hætti í fyrrgreindum bréfum að afstaða til erindis þrotabúsins yrði tekin í sérstöku máli, óháð þeirri leiðréttingu sem stofnunin gerði vegna fyrri ákvarðana. Afstaða til erindis skiptastjóra var síðan tekin með hinni kærðu ákvörðun þann 30. janúar 2018.

 

 

IV.

Kærandi hefur vísað til þess að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla þeim athugasemdum sem aðrir aðilar hafi sett fram við meðferð málsins og málsmeðferð málsins sé því í ekki í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða aðrar almennar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að Þjóðskrá Íslands sendi kæranda bréf þann 27. nóvember 2017 þar sem fram kom að stofnunin hefði í hyggju að endurmeta fasteignamat Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ fyrir árin 2011 – 2014. Í því bréfi var kæranda veittur tveggja vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum sínum við fyrirhugað endurmat. Kærandi kom athugasemdum sínum á framfæri með bréfi, dags. 11. desember 2017. Af því bréfi verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi notið andmælaréttar varðandi fyrirhugað endurmat þrátt fyrir að ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga gildi ekki um meðferð mála samkvæmt 30. og 31. gr. laga nr. 6/2001, sbr. 3. mgr. 31. gr. sömu laga. Að mati yfirfasteignamatsnefndar verður ekki séð að einhverjir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins af hálfu Þjóðskrár Íslands sem gefi tilefni til að ætla að málsmeðferð þess hafi verið lögum samkvæmt.

V.

Eins og nánar er rakið hér að framan tók Þjóðskrá Íslands kröfu skiptastjóra þrotabús [ ] um endurmat á fasteignamati Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ til sjálfstæðrar meðferðar. Í bréfi Þjóðskrár Íslands til kæranda þann 27. nóvember 2017 þar sem tilkynnt var um fyrirhugað endurmat var tilgreint sama málsnúmer og var í bréfi stofnunarinnar þann sama dag til kæranda þar sem tilkynnt var um leiðréttingu á áður breyttu fasteignamati eignarinnar fyrir sömu ár.  Af hálfu Þjóðskrár Íslands hefur verið vísað til þess að mistök hafi verið gerð varðandi tilgreiningu málsnúmera en rétt málsnúmer varðandi erindi skiptastjóra þrotabúsins komið fram í bréfi stofnunarinnar 30. janúar sl. þegar tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun.

Að mati yfirfasteignamatsnefndar getur röng tilgreining málsnúmera ein og sér ekki valdið ógildingu þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir. Því til viðbótar mátti kæranda vera það ljóst af efni fyrrgreindra bréfa frá 27. nóvember 2017, óháð tilgreindum málsnúmerum, að Þjóðskrá Íslands hefði í hyggju að endurmeta fasteignamat eignarinnar fyrir tilgreind ár. Af bréfi kæranda til Þjóðskrár Íslands, dags. 11. desember 2017, verði heldur ekki ráðið að kærandi hafi verið í vafa um fyrrgreind áform Þjóðskrár Íslands. Þá verður ekki séð að Þjóðskrá Íslands hafi verið óheimilt að taka erindi skiptastjóra þrotabús [ ] frá 11. apríl 2017 til sjálfstæðrar afgreiðslu vegna þess að stofnunin hafi með ákvörðun sinni frá 27. nóvember 2017 leiðréttingu áður tilkynnt fasteignamat eignarinnar.

VI.

Með hinni kærðu ákvörðun tók Þjóðskrá Íslands ákvörðun um endurmat fasteignamats fasteignarinnar að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, fyrir árin 2011 – 2014. Var það niðurstaða Þjóðskrár Íslands að fasteignin skyldi á fyrrgreindum árum einungis bera lóðarmat og var til stuðnings þeirri niðurstöðu vísað til þess rökstuðnings sem fram kemur í niðurstöðu úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016. 

Í fyrrgreindum úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 25/2016 kemur fram að Þjóðskrá Íslands hafi ekki sannreynt raunverulegt ástand fasteignarinnar og ekki gengið úr skugga um að mannvirkið uppfyllti skilyrði 4. tl. 6. gr. reglugerðar nr. 406/1978 fyrr en með vettvangsgöngu þann 10. nóvember 2016. Var því talið að skilyrðum rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið fullnægt við ákvörðun um fasteignamat eignarinnar fyrr en með sjálfstæðri skoðun Þjóðskrár Íslands á eigninni þann 10. nóvember 2016. Var í því sambandi m.a. vísað til þess að Þjóðskrá Íslands hafi ekki óskað eftir rökstuðningi eða skýringum frá kæranda hvorki fyrir hækkun eða lækkun byggingarstigs eignarinnar árin 2010 og 2011. Þá lá ekki fyrir ástæða þess að byggingarstig eignarinnar var lækkað en matsstigi haldið óbreyttu. Með hliðsjón af framangreindu var kominn grundvöllur fyrir Þjóðskrá Íslands til að leggja sjálfstætt mat á það hvort eignin væri réttilega skráð á matsstig 4 eða hvort lækka ætti matsstigið í samræmi við breytt byggingarstig. Var það niðurstaða yfirfasteignamatsnefndar í fyrrnefndu máli að allt frá árinu 2010 og fram til 6. desember 2016 hafi fasteignin að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, einvörðungu átt að bera lóðarmat. 

Að mati yfirfasteignamatsnefndar er ekkert nýtt komið fram í málinu sem gefur tilefni til að hnekkja fyrrgreindri afstöðu nefndarinnar um að fasteignin hafi einvörðungu átt að bera lóðarmat frá árinu 2011. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu kæranda til stuðnings þeirri fullyrðingu hans að ástand fasteignarinnar hafi verið óbreytt frá árinu 2010 og allt þar til eignin var skoðuð af starfsmönnum Þjóðskrár Íslands í nóvember 2016. Þá breytir engu í þessum efnum þótt breyting á byggingastigi eignarinnar hafi ekki verið gerð fyrr en á árinu 2011. Með vísan til framangreinds er staðfest ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 30. janúar 2018 varðandi endurmat fasteignamats fasteignarinnar fyrir árin 2011 – 2014.

VII.

Rétt er að taka fram að með úrskurði þessum er einungis tekin afstaða til hinnar kærðu ákvörðunar Þjóðskrár Íslands frá 30. janúar 2018 varðandi endurmat á fasteignamati Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ fyrir árin 2011 -2014. Fyrrgreind ákvörðun er eins og áður hefur komið fram kæranleg til nefndarinnar með vísan til 34. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Það skal hins vegar áréttað að yfirfasteignamatsnefnd tekur enga afstöðu til hugsanlegra krafna um endurgreiðslu á þegar álögðum fasteignaskatti vegna eignarinnar, enda ekki sjálfgefið að endurmat á fasteignamati leiði til endurgreiðslu á mögulega ofteknum fasteignaskatti, sbr. lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. 

VIII.

Vegna kröfu kæranda um að þrotabúi [ ] verði gert að greiða kæranda málskostnað að mati yfirfasteignamatsnefndar þá skal tekið fram að það er utan valdsviðs yfirfasteignamatsnefndar að úrskurða um málskostnað. Vegna tilvísunar kæranda til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 6/2001 þar sem fram kemur að yfirfasteignamatsnefnd geti gert eiganda fasteignar að greiða kostnað vegna tilefnislausrar kæru til nefndarinnar er það mat nefndarinnar að fyrrgreint ákvæði eigi ekki við í því máli sem hér um ræðir og er kröfu kæranda um málskostnað því hafnað.

 

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er öllum kröfum kæranda í málinu hafnað og staðfest ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 30. janúar 2018 um endurmat fasteignamats fasteignarinnar að Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, vegna áranna 2011-2014.

 

 

Úrskurðarorð.

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 30. janúar 2018, um endurmat fasteignamats Kólumbusarbryggju [ ], Snæfellsbæ, fnr. [ ], vegna áranna 2011-2014 er staðfest.

 

___________________________

Hulda Árnadóttir

 

___________________________                                                   __________________________

Ásgeir Jónsson                                                                                   Björn Jóhannesson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira