Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 53/2019 úrskurður 7. ágúst 2019

Mál nr. 53/2019                     Millinafn:       Ljónshjarta

                                               

 

 

Hinn 7. ágúst 2019 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 53/2019 en erindið barst nefndinni 24. júní.

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt millinafn þurfa öll skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn, að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa áunnið sér hefð í íslenskumáli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu.
  2. nöfn sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn.
  3. millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama

Auk þess má nafnið ekki vera ættarnafn í skilningi 7. gr. mannanafnalaga.

Í þessu máli reynir á það skilyrði að millinafn skuli ekki hafa nefnifallsendingu. Millinafnið Ljónshjarta hefur nefnifallsendinguna –a og fullnægir því strangt til tekið ekki fyrrgreindu ákvæði. Þrátt fyrir það telur mannanafnanefnd að í þessu máli verði einnig að líta til eftirfarandi atriða. Í fyrsta lagi er nafnið Ljónshjarta eins í öllum föllum, endingin –a er ekki einkennandi fyrir nefnifallið. Í öðru lagi má skilja af greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum að með umræddu ákvæði hafi verið ætlunin að stuðla að því að millinöfn yrðu mynduð í samræmi við venjur um myndun íslenskra ættarnafna, þ.e. að nöfn leidd af örnefnum, t.d. fjarða- og dalanöfnum, séu án nefnifallsendingar. Í greinargerðinni segir: „Nöfn eins og Sædalur og Ön(undar)fjörður þykja ótæk millinöfn, einkum á stúlkum, og því er hér sett það ákvæði að millinöfn skuli ekki hafa nefnifallsendingu.“ Þarna kemur einnig fram það sjónarmið að nafn með karlkynsendingu væri ótækt sem millinafn kvenkyns nafnbera. Þannig er ákvæðinu einnig ætlað að stuðla að því að millinöfn geti hæglega verið borin af einstaklingum af báðum kynjum.

Mannanafnanefnd telur ljóst að þótt fallist yrði á millinafnið Ljónshjarta yrði ekki með því brotið gegn venjum sem skapast hafa um myndun nafna af þeirri gerð, sem nefnd voru í síðustu efnisgrein, þ.e. nafna eins og Sædal og Önfjörð. Sömuleiðis er ekki hægt að halda því fram að vegna nefnifallsendingarinnar -a í hvorugkynsorðinu hjarta, sem myndar síðari lið nafnsins Ljónshjarta, sé þetta nafn ótækt fyrir nafnbera af öðru hvoru kyninu.

Með hliðsjón af dómafordæmum, þar sem ákvæði mannanafnalaga eru skýrð rúmri skýringu, og með vísan til Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og Mannréttindasáttamála Evrópu, telur mannanafnanefnd rétt að fallast á millinafnið Ljónshjarta þótt það uppfylli ekki ákvæði 2. mgr. 6. gr. mannanafnalaga samkvæmt orðanna hljóðan, enda þykir sýnt að fyrrnefndu ákvæði hafi ekki verið ætlað að koma í veg fyrir nafn af því tagi sem hér um ræðir.

 

Úrskurðarorð:

 

Beiðni um millinafnið Ljónshjarta er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira