Hoppa yfir valmynd

Nr. 8/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 8. apríl 2019

í máli nr. 8/2019

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð X ásamt vöxtum.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 9. febrúar 2019, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 11. febrúar 2019, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Beiðni um greinargerð varnaraðila var ítrekuð með bréfi kærunefnar, dags. 25. febrúar 2019. Greinargerð varnaraðila, dags. 25. febrúar 2019, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd 1. mars 2019. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 1. mars 2019, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 20. ágúst 2018 til 21. desember 2018 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili kveðst vera frá Slóvakíu en í skiptinámi á Íslandi. Fyrstu önnina hafi hún leigt íbúð af varnaraðila og greitt 350 evrur í tryggingarfé. Tryggingarféð hafi verið greitt samhliða fyrstu leigugreiðslunni í október 2018. Sóknaraðili hafi farið úr íbúðinni 16. desember 2018 þegar hún hafi farið aftur til heimalands síns. Hún hafi sent varnaraðila staðfestingu á brottför sinni.

Systir varnaraðila hafi gist í íbúðinni í nokkra daga með fjölskyldu sinni frá 22. desember 2018 en varnaraðili hafi verið erlendis til 26. desember 2018. Eftir nokkur samskipti aðila hafi varnaraðili sett inn skilaboð á sameiginlega facebook síðu varnaraðila og leigjenda hennar 7. janúar 2019 þar sem hún hafi gert grein fyrir kvörtunum sínum og upplýst að hún myndi ekki endurgreiða tryggingarfé. Sóknaraðili hafi svarað tölvupóstinum degi síðar. Eftir það hafi sóknaraðili ítrekað reynt að hafa samband við varnaraðila þar sem hún hafi lofað að upplýsa um lokaákvörðun sína um hversu mikið sóknaraðili þyrfti að greiða fyrir skemmdir. Varnaraðili hafi ekki svarað þeim fyrirspurnum. Sóknaraðili sé ósammála skoðun varnaraðila á íbúðinni.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að samskipti aðila hafi byrjað á tilteknu vefsvæði í apríl 2018 þar sem sóknaraðili hafi óskað eftir að fá leigt eitt af fjórum herbergjum í íbúð varnaraðila haustmisserið 2018. Áætlaður leigutími hafi verið fjórir mánuðir og aðilar átt góð samskipti allan þann tíma. Þegar nær hafi dregið að lokum leigutímabils hafi varnaraðili sent leiðbeiningar um skil og frágang á íbúðinni á lokað svæði á facebook. Í þeirri kveðju hafi hún einnig nefnt að systir hennar, sem sé búsett erlendis, myndi dvelja í íbúðinni ásamt fjölskyldu sinni frá 22. desember 2018 en hún sjálf kæmi heim fjórum dögum síðar. Plön systur hennar hafi breyst þannig að hún hafi aldrei komið í íbúðina.

Á öðrum degi jóla hafi varnaraðili komið heim ásamt fjölskyldu sinni og vonast til að koma að hreinni íbúð, í samræmi við skilalýsingu og hvernig hún hafði skilið við hana þegar hún hafi afhent leigjendum hana í ágúst 2018. Það hafi þó ekki orðið raunin. Hún hafi því sent bréf til allra leigjenda á sameiginlegt facebook svæði þeirra þar sem hún hafi greint frá ástæðum þess að ekki yrði unnt að greiða allt tryggingarféð til baka. Í ljósi þess að hún hafi átt von á gestum næstu daga í gistingu hafi hún þurft að ræsa út vini og vandamenn til að aðstoða við þrif í eldhúsi, gangi, stofu og herbergjum. Þá hafi nokkrir munir orðið fyrir skemmdum eða horfið og ekki hafi öllum lyklum verið skilað.

Í ljósi þess að fimm einstaklingar hafi deilt almennum rýmum íbúðarinnar hafi varnaraðili ekki séð annan kost en þann að skipta jafnt á milli þeirra allra þar sem enginn hafi stigið fram og gengist við ósköpunum. Sóknaraðili hafi sent bréf með tölvupósti í desember 2018 og varnaraðili útskýrt fyrir henni hvenær hún kæmi heim og gengi frá greiðslu tryggingar. Í janúar 2019 hafi hún sent annað bréf þar sem hún hafi gert athugasemdir við niðurstöðu varnaraðila um greiðslu tryggingarinnar sem hún hafi svarað.

Það hafi alfarið lent á varnaraðila og hennar fólki að þrífa íbúðina í miðju jólahaldi og bæta það tjón sem hafi orðið á munum. Það hafi tekið lengri tíma en hún hafi óskað eftir mati á kostnaði vegna tjónsins. Það liggi nú fyrir og búið sé að endurgreiða þeim leigjendum hluta af tryggingarfé sem hafi skilað inn viðeigandi bankaupplýsingum.

IV. Niðurstaða            

Fyrir liggur að sóknaraðili greiddi varnaraðila tryggingarfé að fjárhæð 350 evrur til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi aðila. Ekki verður annað ráðið en að leigusamningi hafi lokið á umsömdum tíma eða 21. desember 2018 þrátt fyrir að sóknaraðili hafi farið af landinu nokkrum dögum fyrr. Varnaraðili hefur ekki endurgreitt sóknaraðila tryggingarféð á þeirri forsendu að þrifum á íbúðinni hafi verið ábótavant við lok leigutíma og einnig hafi orðið skemmdir á munum í íbúðinni á leigutíma og einhverjir horfið.

Í 1. málsl. 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingarfé samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Hafi leigusali ekki gert kröfu samkvæmt 1. málsl. skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar og skal hann greiða leigjanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er hann skilar tryggingarfénu. Í 5. mgr. sömu greinar segir að geri leigusali kröfu í tryggingarfé innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis samkvæmt 4. mgr. skal leigjandi tilkynna leigusala skriflega hvort hann hafnar eða fellst á kröfuna innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar. Hafni leigjandi kröfu leigusala ber leigusala að vísa ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfða mál um bótaskyldu leigjanda innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi hafnaði kröfunni, ella skal hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt vöxtum án ástæðulauss dráttar.

Leigutíma lauk 21. desember 2018. Varnaraðili gerði kröfu í tryggingarféð 7. janúar 2019 á sameiginlegu facebook svæði aðila. Sóknaraðili hafnaði kröfunni með tölvupósti sendum til varnaraðila 8. janúar 2019. Frá þeim tíma mátti varnaraðila vera ljóst að ágreiningur væri um bótaskyldu sóknaraðila. Þar sem varnaraðili vísaði þeim ágreiningi hvorki til kærunefndar húsamála né dómstóla innan fjögurra vikna frá þeirri dagsetningu talið ber henni, þegar af þeirri ástæðu, að endurgreiða sóknaraðila tryggingarféð, sbr. 5. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. og 4. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, ber varnaraðila að endurgreiða tryggingarféð ásamt vöxtum frá þeim tíma sem það var lagt fram og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá þeim degi er fjórar vikur eru liðnar frá skilum leiguhúsnæðis til þess dags er varnaraðili skilar tryggingarfénu. Kærunefnd miðar við að íbúðinni hafi verið skilað 21. desember 2018 en þann dag lauk leigusamningi og reiknast dráttarvextir því frá 19. janúar 2019.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila tryggingarfé að fjárhæð 350 evrur ásamt vöxtum, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 40. gr., frá þeim tíma sem tryggingarféð var lagt fram til 19. janúar 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Reykjavík, 8. apríl 2019

 

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira