Hoppa yfir valmynd
29. maí 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðgengileg og notendavæn framsetning álagningar opinberra gjalda

Bjarni Benediktsson kynnti í morgun breytta framsetningu álagningar opinberra gjalda og áherslu á bætta stafræna þjónustu.  - mynd

 Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á blaðamannafundi í morgun breytta framsetningu álagningar opinberra gjalda sem birt verður í vikunni, þar sem markmiðið er að upplýsingar séu aðgengilegar og notendavænar.

Álagningin sem birtist 31. maí 2018 felur í sér gjörbreytta framsetningu þar sem auðvelt er að nálgast niðurstöður álagningarinnar á stafrænan máta, hlutfall skatta af skattstofni og skiptingu skattgreiðslna milli sveitarfélags greiðanda og ríkissjóðs. Verkefnið var unnið á vegum ríkisskattstjóra að frumkvæði fjármála- og efnahagsráðherra.

Á fundinum kynnti ráðherra jafnframt ákvörðun ríkisstjórnar um að árið 2020 verði stafræn samskipti orðin meginsamskiptaleið hins opinbera við fyrirtæki og almenning. Markmiðið er að bæta þjónustu og gera hana skilvirkari en auk þess er gert ráð fyrir að þessar breytingar muni spara ríkinu umtalsverða fjármuni til framtíðar.

500 milljónir sparast með því að hætta að senda bréfpóst

Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar er að koma á stafrænni þjónustugátt fyrir hið opinbera. Unnið verður að því að styrkja island.is og þróa til að það þjóni til fulls þeim tilgangi sem ætlast er til að stafræn þjónusta hins opinbera uppfylli. Hluti af stafrænu þjónustugáttinni er pósthólf á island.is sem verið er að endurbæta með það að markmiði að einfalda samskipti fólks og fyrirtækja. Í pósthólfinu geta opinberir aðilar sameinast um að birta skjöl sem annars hefðu verið send í bréfpósti. Gert er ráð fyrir að ríkið spari árlega um 500 milljónir króna með því að hætta að senda bréfpóst. Með því að hafa þessi samskipti stafræn er einnig hægt að bæta þjónustu við viðtakendur með því að nota áminningar, ábendingar og tilkynningar.

Ríkisskattstjóri hefur í tengslum við vinnu fjármála- og efnahagsráðuneytisins við pósthólfið ákveðið að niðurstaða álagningar opinberra gjalda á einstaklinga verði aðgengileg í gegnum pósthólfið, sem og á þjónustusíðu RSK, nú í lok maí. Með því að birta álagninguna og hætta bréfsendingum vegna annarra slíkra gjalda eins og bifreiðagjalda má spara 120 m.kr. Þá hefur Reykjavíkurborg einnig hug á að nýta sér pósthólfið sem og Sjúkratryggingar Íslands. Nú þegar birta m.a. Þjóðskrá Íslands, Fjársýsla ríkisins og Tryggingastofnun bréf sín í pósthólfinu.

Glærur frá kynningu fjármála- og efnahagsráðherra (pptx) 

Myndband frá ríkisskattstjóra sem sýnir breytta áherslu við birtingu álagningar opinberra gjalda

Lengri útgáfa af myndbandi ríkisskattstjóra 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum