Hoppa yfir valmynd
7. október 2020 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Um reglur og tilmæli

COVID-19: Um reglur og tilmæli - myndMynd: Landspítali / Þorkell

Reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkörkun á samkomum og hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu tók gildi í gær. Reglugerðin byggist á minnisblaði sóttvarnalæknis og er þar farið að tillögum hans í öllum meginatriðum. Í minnisblaði hans koma einnig fram ákveðin tilmæli varðandi íþróttastarf og fleiri atriði sem mikilvægt er að fólk taki mið af, þótt tilmælin séu ekki liður í reglugerð ráðherra. Einnig má benda á að ríkislögreglustjóri hyggst birta almenn tilmæli sem ætlað er að styðja við markmið hertra sóttvarnaaðgerða á höfuðborgarsvæðinu.

Ábyrg hegðun

Ástæða þess að gripið var til hertra svæðisbundinna sóttvarnaráðstafana er mikil útbreiðsla COVID-19 smita á höfuðborgarsvæðinu er ástæða þess að gripið var til hertra svæðisbundinna sóttvarnaráðstafana. Mikilvægt er að höfuðborgarbúar sýni ábyrgð við þessar aðstæður og hagi daglegu lífi sínu þannig að hætta á útbreiðslu smita verði sem minnst. Í því felst ekki einungis að fylgja boðum og bönnum sem birtast í reglugerðum heilbrigðisráðherra um smitvarnir, heldur að haga sér á ábyrgan hátt í samræmi við tilgang þeirra sóttvarnaráðstafana sem gripið hefur verið til.

Eins og fram kemur í minnisblaði sóttvarnalæknis, er mælst til þess að öllu keppnisstarfi í íþróttum verði frestað um tvær vikur.  Í dag hefur jafnframt komið fram það sjónarmið sóttvarnalæknis að hann telji að einnig eigi að stöðva íþróttastarf hjá börnum næstu tvær vikurnar, þótt í minnisblaðinu hafi verið miðað við að engar hömlur yrðu á æskulýðsstarfi, íþróttum og tómstundum leik- og grunnskólabarna.

Í ljósi þess að smithætta við íþróttaiðkun innanhúss er talin meiri en utandyra var tekin ákvörðun um að setja eftirfarandi skorður í reglugerð ráðherra og var útfærslan unnin í samráði við sóttvarnalækni: „Líkamsrækt, íþróttastarf og sambærileg starfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu á milli fólks eða mikilli nálægð, eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér er óheimil innandyra.“ Íþróttaiðkun utanhúss er hins vegar heimil með þeim takmörkunum sem leiða af gildandi sóttvarnareglum.

Íþróttir og hreyfing sem fólk stundar utanhúss er margvísleg og felst ekki aðeins í hefðbundnum keppnisíþróttum, heldur einnig óformlegri hreyfingu. Ráðuneytið taldi mikilvægt út frá lýðheilsusjónarmiðum að leggja ekki bann við allri heilsurækt og hreyfingu.

Tilmæli ríkislögreglustjóra

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hyggst ríkislögreglustjóri birta almenn tilmæli til fólks á höfuðborgarsvæðinu sem ætlað er að styðja við hertar sóttvarnaráðstafanir á höfuðborgarsvæðinu til að draga úr útbreiðslu COVID-19. Tilmælin lúta að því að fólk haldi sig sem mest heima, veri ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsyn krefur, geri hlé á hvers kyns íþrótta-, og tómstundastarfi og störfum útivistarhópa og fresti öllum viðburðum næstu tvær vikurnar, svo eitthvað sé talið. Ráðuneytið hvetur almenning til að fara að tilmælum sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra eins og frekast er kostur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum