Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ný sókn í þágu háskóla og samfélags

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára felur í sér 6 ma. kr. aukningu til háskólastigsins, árið 2028, samanborið við fyrri áætlanir. Áætlunin er í samræmi við áherslu ríkisstjórnarinnar að fjárfesta í vaxtartækifærum framtíðar. Strax á árinu 2024 er aukningin um 3,5 ma. kr. frá áætlun úr fjárlögum frá sl. hausti.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti áherslur fjármálaáætlunar í málaflokkum ráðuneytisins á Alþingi í dag. Hún segir hana fagnaðarefni fyrir háskólastigið. Hún hafi bent á að í kjölfar efnahagshruns hafi fjárveitingar til háskóla verið skornar niður og vísbendingar séu um að þróunin sé farin að bitna á gæðum háskólanáms. „Ég hef sagt að við það verði ekki unað enda eru alþjóðlega samkeppnishæfir háskólar lykilinn að auknum hagvexti, bættum lífskjörum auk þess sem háskólarnir gegna lykilhlutverki fyrir upplýsta samfélagsumræðu. Fjölgun háskólanema er líka forsenda þess að við getum mannað velferðarþjónustuna með þeim hætti af sómi sé af. Á tímum heimsfaraldurs voru fjárveitingar til háskólanna tímabundið auknar en með nýrri fjármálaáætlun er Covid aukningin gerð varanleg og nemur hún um tveimur og hálfum milljarði. Þar að auki er strax á næsta ári settur inn um einn milljarður til styrkingar háskólanáms sem er mikið ánægjuefni. Segja má að þessi fjármálaáætlun boði nýja sókn fyrir háskólastigið. Í þeirri sókn legg ég áherslu á að auknar fjárveitingar fari í að bæta gæði háskólanáms og rannsókna og til nýrra verkefna í háskólunum en ekki í óbreytta starfsemi.“

Auknar fjárveitingar næstu ára tryggja að á næstu mánuðum verður unnt að prufukeyra nýtt reiknilíkan háskóla sem verður haft til hliðsjónar við fjárlagavinnu ársins 2024. Líkanið mun í auknum mæli styðja við aukin á gæði náms en einnig mun það stuðla að stöðugri fjárveitingum, auka gagnsæi, efla rannsóknir og bæta fjármögnun náms en í því sambandi má t.d. nefna félags- og hugvísindi.

Samstarf háskóla framlengt til 2024

Ráðherra segir það ánægjuefni að með auknu fjármagni sé hægt að tryggja að verkefnið Samstarf háskóla haldi áfram til a.m.k. ársins 2024. „Nú þegar hefur 1,2 ma. kr. verið úthlutað til aukins samstarfs háskóla og fjölmörg áhugaverð verkefni hafa litið dagsins ljós. Verið er að ganga frá samningum um verkefnin og á næstu vikum verður auglýst eftir fleiri samstarfsverkefnum sem fá úthlutun á þessu ári. Samstarfið hefur verið tæki til að ýta undir samkeppni um viðbótarfjármagn til hugmynda sem sumar hverjar eru nýlegar en aðrar eldri en hafa ekki orðið að veruleika vegna skorts á fjármagni. Ég er mjög ánægð með afraksturinn af auknu samstarfi en leyni því ekki að óskastaðan er að einhverjir skólanna sameinist og helst sem fyrst.“ 

 

Með nýrri sókn fyrir háskólastigið verður m.a. hugað að því að fara í eftirfarandi verkefni:

Nemendum fjölgað í þágu heilbrigðisþjónustu

Hröð öldun þjóðarinnar kallar á mun fleiri útskrifaða nemendur í heilbrigðisvísindum. Til ársins 2028 er stefnt er að fjölga nemendum í læknisfræði úr 60 í 90 og hjúkrunarfræðinemum úr 195 í 250. Fjölgun í heilbrigðisvísindum er háð því hversu hratt er hægt að bæta námsaðstöðu nemenda m.a. með hermi- og færnisetrum og verður áhersla lögð á verulega eflingu aðsöðunnar, bæði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Auk þess er ætlunin að leggja áherslu á nám í sjúkraþjálfun, matvæla- og næringarfræði, tannlækningum, sálfræði, félagsráðgjöf, talmeinafræði og ljósmæðranámi jafnframt því sem gert er ráð fyrir stofnun námsbrautar tanntækna.

Sótt fram STE(A)M-greinum í þágu menningar og verðmætasköpunar

Á vettvangi atvinnulífsins hefur verið kallað eftir fleiri raungreina- og tæknimenntuðum einstaklingum en að mati þess vantar þúsundir einstaklinga til slíkra starfa. Auk þess kalla samfélagslegar áskoranir á fleiri sem eru menntaðir á þessum sviðum. Hröð þróun á sviði stafrænnar tækni kallar á þekkingu og færni til að móta umgjörð og sáttmála um notkun tækninnar og ýta undir þau tækifæri sem í henni felast. Með margvíslegum aðgerðum er ætlunin að fjölga nemendum í STE(A)M-greinum sem eru vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði auk skapandi greina. HÍ mun í þessu skyni m.a. vinna að því minnka brottfall með ýmsu móti þ.á m. með því að auka stuðning við nýnema efla tæknibúnað, HR hyggst efla þverfaglegt nám á sviði tækni og heilbrigðisvísinda, efla iðn- og tæknifræði en jafnframt nám í netöryggi í samstarfi við HÍ. Ýtt verður undir STE(A)M með enn meira samstarfi skóla um tengsl raungreina og skapandi greina sem er forsenda aukinnar nýsköpunar. Með bættri aðstöðu í LHÍ í Tollhúsinu er hægt að efla verulega samstarf listgreina við aðrar greinar á háskólastigi.

Öflugra fjarnám og jafnari tækifæri

Bætt fjarnám hefur aukið tækifæri fjölmargra til háskólanáms og sérstök ástæða er til að nefna Háskólann á Bifröst sem hefur t.d. náð vel til nemenda, innlendra og erlendra, um allt land. Með auknu fjármagni og nýju reiknilíkani er ætlunin að bæta gæði fjarnáms en jafnframt verður sérstaklega hugað almennt að jafnari tækifærum til háskólanáms óháð kyni, búsetu, efnahag og uppruna. Með fjölbreyttum námsleiðum, undirbúningsnámi, námi í íslensku og breyttum kennsluháttum, svo sem með auknu verknámi, hópavinnu, aðstoðarkennslu og persónulegri kennslu er betur hægt að ná til þeirra sem síður fundið leið inn í skólana. M.a. verður horft til þess að háskólanám höfði betur til ungra karla, fólks af erlendum uppruna og fólks með brotinn félagslegan bakgrunn. Auk þess verði unnið að því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að háskólanámi.

Áhersla á háskólanám og nýsköpun í þágu umhverfis og sjálfbærrar matvælaframleiðslu

Háskólarnir gegna lykilhlutverki þegar kemur að vísindalegri nýsköpun m.a. í þágu sjálfbærni og umhverfisverndar. Skólarnir hafa mikinn metnað til að efla háskólamenntun og nýsköpun á sviði matvælaframleiðslu enda geti aukin nýsköpun á því sviði haft veruleg áhrif á loftslagsmálin og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þrír háskólar gegna lykilhlutverki þegar kemur að matvælum, matvælaframleiðslu og fæðuöryggi en það eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskólinn. Á tímabili fjármálaáætlunar verður lögð áhersla á að bæta kennsluhúsnæði fyrir fiskeldi á Hólum og ljúka við byggingu Jarðræktarmiðstöðvar Landbúnaðarháskólans.

Fjölgun kennara í þágu menntunar og farsældar barna

Áfram verður unnið að fjölgun útskrifaðra kennara en með flutningi Menntavísindasviðs úr Stakkahlíð á Hótel Sögu þar sem tækifæri gefst til stórsóknar á þessu sviði. M.a. er ætlunin að byggja upp framúrskarandi aðstöðu fyrir þróun og miðlun STE(A)M menntunar. Jafnframt er ætlunin að byggja brýr á milli Menntavísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs m.a. til að gera kennaramenntun að valmöguleika fyrir nemendur í grunnnámi í verk- og náttúruvísindum. Samhliða því sem áhersla er lögð á bætt nám nemenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum þarf að styðja við það að skólakerfið hugi betur að farsæld barna og ungmenna.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum