Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Yfir milljarði úthlutað til aukins samstarfs háskóla

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ákveðið að úthluta yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna. Hugmyndin var kynnt í haust og brugðust allir 7 háskólarnir við ásamt 37 öðrum samstarfsaðilum. 48 umsóknir bárust og sótt var um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna. Upphaflega var ætlunin að úthluta allt að milljarði króna til Samstarfsins en vegna gæða umsóknanna og mats á líklegum árangri þeirra hefur verið ákveðið að úthluta tæplega 1,2 milljörðum. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfið verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður. 

Að sögn Áslaugar Örnu fór áhugi háskólanna fram úr hennar björtustu vonum. „Um leið og hugmyndin var kynnt fór af stað mikið samtal á milli allra háskólanna sem skilaði sér ekki einungis í miklum fjölda umsókna heldur eru gæði verkefnanna slík að ég trúi því að þau geti haft mikil og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Umsóknirnar sýna að með Samstarfi háskóla erum að leysa úr læðingi krafta og hugmyndir sem hafa verið í gerjun um langt árabil en geta nú loks orðið að veruleika.“

Ráðherra fagnar að skólarnir eigi nú mikilvægt frumkvæði að því að koma á fót spennandi námsbrautum sem mæta þörfum nýrra tíma. „Fjölmargar nýjar námsbrautir verða settar á laggir, klínískt heilbrigðisnám verður eflt verulega, aukin áhersla verður á hinar svokölluðu STEAM greinar, íslenskunám verður eflt og svo nefni ég að skólarnir munu stórauka fjarnám sem á að nýtast fólki um allt land.

Eftirfarandi verkefnum er boðið til samninga um stuðning úr Samstarfi háskóla að þessu sinni:

Nemendur geti tekið námskeið í meistaranámi við marga skóla samtímis

Allir háskólarnir fá í sameiningu 35 m.kr. til að nemendur geti í auknum mæli stundað nám í mörgum skólum á sama tíma. Áhersla verður á samstarf við atvinnulífið og nám óháð staðsetningu, innanlands eða á milli landa. Þverþjóðlegt samstarf um nám á meistarastigi mun auka framboð náms sem kennt verður á ensku og þar með auðvelda erlendum nemendum að taka meistaranám á Íslandi. Ávinningur verkefnisins er aukin gæði og fjölbreyttara framlag meistaranáms sem kennt er við íslenska háskóla.

Fjölgun nemenda í heilbrigðisvísindum með nýjum færnibúðum

Háskóli Íslands (HÍ), Háskólinn á Akureyri (HA) og Háskólinn í Reykjavík (HR) o.fl. fá 165 m.kr. til að setja á laggir sérhönnuð færni- og hermisetur til að unnt verði að fjölga nemendum í klínísku námi. Hermikennsla felst í að herma með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda, án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Sambærilegt framlag kemur frá heilbrigðisráðuneyti til verkefnisins en háskólaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa unnið saman að ýmsum hugmyndum um hvernig megi efla heilbrigðismenntun.

Öflugra tækninám á Norðurlandi

HR og HA fá 33 m.kr. til að setja á laggir B.Sc. nám í iðnaðar- og orkutæknifræði fyrir tæknifræðinga á Akureyri haustið 2023. Námið mun styðja við atvinnulíf á Norðurlandi en með því gefst nemendum tækifæri til að stunda námið í heimabyggð, sbr. fullgilt tæknifræðinám sem nú þegar er í HR.

Ný námsbraut fyrir kvikmynda- og tölvuleikjagerð

Listaháskóli Íslands (LHÍ) og Háskólinn í Reykjavík (HR) fá 64 m.kr. til að setja á laggir sameiginlega námsbraut á bakkalárstigi í stafrænni sköpun, miðlun og hreyfimyndagerð. Með samstarfinu eru nokkrar STEAM greinar tengdar saman en það eru kvikmyndalist, hönnun, myndlist, forritun, tölvugrafík, gervigreind og sálfræði en fyrirhugað er að námið hefjist haustið 2024. Nú þegar er mikil og brýn eftirspurn er eftir sérhæfingu á innlendum sem alþjóðlegum starfsvettvangi kvikmynda- og tölvuleikjagerðar. 

Nemendum í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði fjölgað

HA, HÍ og HR fá 30 m.kr. til að fjölga brautskráningum í STEM greinum, þ.e. vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði. Útbúið verður betra kynningarefni um námið, kennsluháttum breytt og komið verður á netnámskeiðum í eðlisfræði, efnafræði, forritun, stærðfræði og tölfræði til að framhaldsskólanemar, hvar sem er á landinu fái betri tækifæri til að undirbúa sig vel undir nám á þessu sviði.

Nýtt meistaranám í netöryggi

HÍ og HR fá 90 m.kr. til að koma á legg tveggja ára meistaranámi og rannsóknasetri í netöryggi þar sem m.a. verður sérhæfing á sviði gervigreindar. Námskeið hjá háskólum erlendis verða nýtt sem hluti af náminu og einnig verður boðið upp á námskeið fyrir aðra háskóla á Íslandi. Nemendur munu geta tekið námskeið úr báðum háskólum. Áhersla verður lögð á gott samstarf við atvinnulífið. Námskeið verða kennd á ensku og áhersla lögð á fjölbreyttan hóp nemenda.

Öflugt háskólanám í þágu fiskeldis

Hólar, HÍ, HA, Landbúnaðarháskóli Íslands (LBHÍ), Háskólasetur Vestfjarða o.fl. fá 58 m.kr. til að bjóða upp á BS og MS námi í eldi, ræktun og nýtingu sjávar- og vatnalífvera, samhliða samræmdum rannsóknum og rannsóknainnviðum. Námið á að skila öflugu fagfólki til starfa og nýsköpunar á þessu ört vaxandi sviði matvælaframleiðslu. Verkefnið mun stuðla að forystuhlutverki Íslands í sjálfbæru lagareldi sem tekur fullt mið af opinberum stefnum um sjálfbærni, loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni. 

Ísland verði í forystu í framleiðslu nýrra próteina

LBHÍ og HÍ fá 31,6 m.kr. til að koma upp aðstöðu til rannsókna og nýsköpunar á sviði næstu kynslóða matvæla- og fóðurpróteina og byggja upp nám á þessu sviði. Ætlunin er að taka þátt í þeirri umbyltingu sem er að eiga sér stað í matvælaframleiðslu í heiminum þar sem hugað að er sjálfbærri og umhverfisvænni framleiðslu próteingjafa úr þörungum, skordýrum, einfrumungum og með frumuvökum. Markmiðið er að koma Íslandi í forystu á sviði framleiðslu nýrra próteina sem er ört vaxandi svið í heiminum.

Sameiginlegt átak í íslensku, m.a. með fjarnámi

HÍ, HR, HA og Háskólinn á Bifröst fá 100 m.kr. til að styrkja stöðu íslenskunnar í samfélaginu. M.a. verður unnið að þróun og innleiðingu lausna til að efla íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Tæknilausnir verða nýttar til að stórefla fjarnám í íslensku. Ætlunin er að auka markvissa málörvun barna í skólakerfinu.

Fagmenntuðu leikskólastarfsfólki fjölgað og fjarnám eflt

HÍ og HA fá 48 m.kr. til að vinna saman að tveggja ára hagnýtu námi í leikskólafræði sem er skipulagt samhliða starfi. Lögð er áhersla á fjarnámsmöguleika. Ætlunin er að fjölga menntuðum leikskólakennurum og efla innra starf með því að bjóða starfsfólki leikskóla sem ekki lauk framhaldsskólanámi sérsniðið nám sem getur orðið brú yfir í háskólanám. Gert er ráð fyrir að námið verði í boði frá og með hausti 2023.

Aukin starfsþróun háskólakennara til að auka gæði kennslu í stafrænu samfélagi

Allir háskólarnir fá sameiginlegan styrk upp á 46 m.kr. til að efla starfsþróun háskólakennara. Með samstarfinu má draga úr yfirbyggingu stoðþjónustu og auka gæði náms og kennslu. Ólíkt kennurum á öðrum skólastigum eru háskólakennarar ráðnir til starfa á grundvelli fræðimennsku sinnar en þeir eru sjaldnast fagmenntaðir kennarar. Skapað verður sameiginlegt framboð á kennslufræði sem mun standa öllum þeim sem sinna háskólakennslu og kennsluþróun á háskólastigi til boða. 

Ugla þróuð til að bæta þjónustu við háskólanema

Opinberu háskólarnir ásamt Háskólanum á Bifröst og LHÍ fá 102 m.kr. til að þróa betur tölvukerfið Ugluna m.a. til að tengja hana við sameiginlega innritunargátt háskóla, smíða lausnir fyrir stjórnendaupplýsingar og auðvelda flæði nemenda milli innlendra og erlendra háskóla með bætta þjónustu að leiðarljósi.

Þverfagleg meistaranám í heilbrigðislausnum og í svefni

HR, HA og HÍ fá 64 m.kr. fyrir ný þverfagleg meistaranám, annars vegar í stafrænum heilbrigðislausnum og hins vegar með áherslu á svefn. Verkefnið skapar tækifæri til nýsköpunar í stafrænni heilbrigðistækni. 

Samstarf um nýtingu rannsóknarinnviða á Íslandi 

Vísindagarðar HÍ, HÍ, HR, HA, LBHÍ og Hólar fá 54 m.kr. til að nýta betur rannsóknarinnviði, tækjabúnað og aðstöðu milli háskóla, stofnana og fyrirtækja um allt land. Áhersla verður lögð á að nýta þverfaglega þekkingu og reynslu við mótun stefnu um rannsóknarinnviði og samfélagslega hagnýtingu þeirra.

Undirbúningsnámsleið fyrir innflytjendur og flóttamenn á Íslandi

HA og HÍ fá 53 m.kr. til að setja á laggir 60 eininga undirbúningsnámsleið fyrir innflytjendur og flóttamenn á Íslandi m.a. til að auka færni þeirra í íslensku og búa þá undir nám hér á landi. Fjarnám verður notað til að tryggja gott aðgengi að náminu.

Gagnaþjónusta félagsvísinda efld

HÍ, HR, HA og Háskólinn á Bifröst fá 30 m.kr. til að efla gagnaþjónustu félagsvísinda á Íslandi. Uppbyggingin er í samræmi við markmið sem sett voru fram í stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017-2019 og stefnu háskólanna um opin vísindi.

Að auki fá eftirfarandi verkefni styrki sem nema lægri upphæð en 30 m.kr.:

Allir háskólarnir fá samtals 28 m.kr. til að samþætta og þróa notkun PURE (IRIS)  þvert á háskóla og rannsóknarstofnanir til að efla tengsl og gera rannsóknir sýnilegri innanlands og á alþjóðvettvangi. 

HÍ, LHÍ o.fl. fá 28 m.kr. til að efla STEAM greinar með því að setja upp öfluga Vísindaheima og vel útbúna Fab-Lab smiðju í húsnæðinu sem áður hýsti Hótel Sögu og er nú verið að endurbyggja fyrir HÍ.

LBHÍ, HÍ, HR og LHÍ fá 21 m.kr. til að greina forsendur fyrir þverfaglegu M.Sc. námi í skipulagsfræði en námið byggir á þekkingu úr náttúruvísindum, félagsvísindum og arkitektúr.

HA og HÍ fá 9 m.kr. til að undirbúa meistaranám í heilsugæsluhjúkrun fyrir hjúkrunarfræðinga alls staðar af landinu. Sérstök áhersla verður á nýjungar í nýtingu fjarheilbrigðisþjónustu.

HR og HA fá 8 m.kr. til að bjóða upp á íþróttasálfræði á meistarastigi.

HR og HA fá 4. mkr. til að vinna að fjölgun raungreinakennara með því að bjóða upp á sérhæft nám í kennslufræði raungreina til kennsluréttinda á meistarastigi.

Hólar og LBHÍ fá 22 m.kr. til að undirbúa stofnun Akademíu íslenska hestsins til að styrkja gæði rannsókna á þessu sviði auk þess sem samvinna verður um nám á framhaldsstigi. 

Hólar og HÍ fá 21 m.kr. til að setja upp nýtt fjarnám á ensku fyrir erlent starfsfólk í ferðaþjónustu og aðra þá sem vilja læra um ferðamálafræði á háskólastigi. 

Háskólinn á Bifröst, HA og HÍ fá 21 m.kr. til að efla rannsóknavirkni á sviði menningar og skapandi greina á meistara- og doktorsstigi. Kennt verður í fjarnámi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum