Hoppa yfir valmynd
11. júní 2024 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði velsældarþing í Hörpu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tekur við viðurkenningu frá Christine Brown, yfirmanni Feneyjaskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. - myndMynd: Pétur Fjelsted

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti í dag opnunarávarp á alþjóðlegu velsældarþingi (Wellbeing Economy Forum) sem fram fer í Hörpu. Þingið sem er haldið í annað sinn er skipulagt af embætti landlæknis í samstarfi við forsætisráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið en dagskrá þess lýkur á morgun.

Í ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra m.a. um velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar en innleiddir hafa verið 40 velsældarvísar til að styðja við stefnumótun með það að markmiði að auka velsæld og lífsgæði.

„Á undangengnum áratugum hafa ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir sameinast um að innleiða aðferðafræði velsældar og sjálfbærrar þróunar við stefnumótum og ákvarðanatöku og forgangsraða á grunni efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta. Þannig er leitast við að líta ekki einungis til efnahagslegra mælikvarða líkt og þjóðarframleiðslu eða hagvaxtar þegar lagt er mat á þróun lífsgæða almennings. Hér á landi er meðal annars horft til þess að aukin velsæld hefur jákvæð áhrif á heilsufar sem kemur öllu samfélaginu til góða,“ sagði forsætisráðherra í ávarpinu.

Á velsældarþinginu tók forsætisráðherra við viðurkenningu frá Evrópuskrifstofu  Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fyrir vinnu íslenskra stjórnvalda að innleiðingu velsældaráherslna hér á landi. Við veitingu viðurkenningarinnar var dreginn fram árangur íslenskra stjórnvalda við að samþætta velsældaráherslur við stefnumótun á ólíkum málefnasviðum, m.a. í fjárlagagerð.

Forsætisráðherra mun einnig í tengslum við velsældarþingið eiga tvíhliðafund með Tom Arthur, ráðherra vinnumála og fjárfestinga í Skotlandi. Ísland og Skotland hafa átt gott samstarf á sviði velsældarmála og taka þátt í samstarfi velsældarríkja. Þá mun forsætisráðherra eiga tvíhliðafund með Gabrielu Ramos, aðstoðarframkvæmdastjóra félags- og hugvísinda hjá UNESCO.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum