Hoppa yfir valmynd

Áherslur ríkisstjórnar

Velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar 

Ríkisstjórnin ákvað undir lok árs 2019 að sex velsældaráherslur yrðu í forgrunni við gerð árlegra fjármálaáætlana sem settar eru til fimm ára í senn í samræmi við lög nr. 123/2015 um opinber fjármál. 

Áherslurnar eru:

  • Andlegt heilbrigði
  • Öryggi í húsnæðismálum
  • Virkni í námi og starfi
  • Kolefnishlutlaus framtíð
  • Gróska í nýsköpun
  • Betri samskipti við almenning

Með velsældaráherslunum er horft til framtíðar á mikilvægum sviðum sem endurspegla stefnu ríkisstjórnarinnar. Áherslunum er ætlað að mynda grundvöll fyrir umfjöllun á 35 málefnasviðum ráðuneytanna í fjármálaáætlun. Áherslurnar um andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, og virkni í námi og starfi varða mörg málefnasvið en þær sem fjalla um kolefnishlutlausa framtíð, grósku í nýsköpun og betri samskipti við almenning varða öll málefnasvið ráðuneytanna. 

Andlegt heilbrigði

Góð andleg heilsa er undirstaða velsældar. Vaxandi áhyggjur eru af þróun geðheilsu, sér í lagi meðal yngra fólks. Efling geðheilbrigðisþjónustu hefur verið forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Frá árinu 2019 hafa fjárframlög til málefnisins verið aukin verulega til samræmis við geðheilbrigðisstefnu. Að auki voru hluti tímabundinna fjárframlaga í heimsfaraldri í verkefni til að styðja við geðheilbrigði og forvarnir gerð varanleg. Mikilvægt er að styrkja enn frekar forvarnarstarf m.a. gegn hvers kyns ofbeldi og styðja við félagsstörf, íþróttir, listir og menningu sem og aðra áhrifaþætti jafnvægis á milli vinnu- og einkalífs.

Öryggi í húsnæðismálum

Viðunandi húsnæði er ein af grunnþörfum einstaklingsins og er kostnaður við húsnæði oftast stærsti útgjaldaliður heimila. Í könnun um velsældaráherslur setti almenningur húsnæðisöryggi í annað sæti á eftir heilsu um hvað einkennir góð samfélög. Nokkuð stór hópur býr við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnaði og fleiri eru á leigumarkaði en kjósa að vera þar. 

Ríkisstjórnin hefur brugðist við vanda í húsnæðismálum í samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði m.a. með auknu framboði félagslegs húsnæðis og breytingu á lögum um húsnæðismál um hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur. Í lok ársins 2023 samþykkti Alþingi þingsályktun um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028. Húsnæðisstefnan er samhæfð stefnum og áætlunum í öðrum málaflokkum innviðaráðuneytisins (líkt og mannvirkjamálum og byggðastefnu). Grunnur samhæfingarinnar felst í sameiginlegri framtíðarsýn og meginmarkmiðum við stefnumótun þar sem til horft er til þess að íbúðauppbygging sé í samræmi við mannafjöldaaukningu og byggi á áætlanagerð til lengri tíma. Mikilvægt er að fylgja þessum áherslum vel eftir og skapa traustan húsnæðismarkað þar sem fólk geti búið við fyrirsjáanleika og langtíma öryggi í húsnæðismálum, hvort heldur á leigu- eða séreignarmarkaði. 

Virkni í námi og starfi 

Menntun skiptir máli bæði fyrir samkeppnishæfni þjóða en einnig fyrir lífsgæði einstaklinga. Menntun hefur áhrif á lífslíkur, heilsufar, tekjur og þátttöku í samfélaginu. Samkvæmt mælingum hefur dregið úr brottfalli úr framhaldsskólum á undanförnum árum en það er þó enn hátt í samanburði við helstu samanburðarlönd. Mikilvægt er að draga frekar úr brotthvarfi úr námi því það getur haft áhrif á framtíðarmöguleika einstaklinga á vinnumarkaði. Jafnframt þarf stefnumótun stjórnvalda að styðja við ungmenni sem eru ekki á vinnumarkaði, í skóla eða starfsþjálfun en þau eru í áhættuhópi fyrir félagslega einangrun. 

Mikilvægt er lögð sé áhersla á kynja- og jafnréttissjónarmið við stefnumótun á málefnasviðum menntunar og á öllum skólastigum. Kynjamunur er t.a.m. mikil áskorun í starfsnámi þar sem sumar starfsgreinar eru nær hreinar kvennastéttir og aðrar karlastéttir. Ráðuneytin hafa stutt aðgerðir til að stuðla að jafnara kynjahlutfalli í iðngreinum, auka áhuga ungs fólks, einkum stúlkna, og fjölga þeim sem velja starfs- og tæknimenntun að loknum grunnskóla. Stjórnvöld leggja jafnframt áherslu á eflingu jafnréttis- og kynfræðslu og ofbeldisforvörnum í skólum. 

Jafnframt hafa stjórnvöld sett í forgang að styðja við símenntun og starfsendurhæfingu. Áhersla er lögð á að veita bæði starfsfólki á vinnumarkaði, eldra fólki og þeim sem búa við skerta starfsgetu möguleika til náms og atvinnuþátttöku. Þannig vilja stjórnvöld styðja fólk til að búa í haginn fyrir breytingar sem verða á vinnumarkaði, m.a. með fjórðu iðnbyltingunni. 

Kolefnishlutlaus framtíð

Ísland hefur sett sér markmið um 55% samdrátt í nettólosun gróðurhúsalofttegunda (m.v. 1990) fyrir árið 2030 og lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Þar vegur einna þyngst sú áhersla stjórnvalda að ljúka orkuskiptum á næstu árum með samgöngur í lofti, á landi og legi í forgrunni en markmiðið er að hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum verði í það minnsta 40% árið 2030. Stjórnvöld hafa einnig sett sér markmið um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2050, þar sem sjálfbær orka mun gegna lykilhlutverki. Aðgerða er þörf svo þessum markmiðum megi ná.

Það hefur verið forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að takast á við áskoranir í umhverfis- og loftlagsmálum. Umhverfislegir velsældarvísar sýna flestir jákvæða þróun sem endurspeglar aukna áherslu á umhverfisvernd og sjálfbæra þróun á undanförnum árum. Flatarmál friðlýstra náttúruverndarsvæða þrefaldaðist milli áranna 2006 og 2020. Nokkuð dró úr magni heimilissorps á árunum 2018-2020 og endurvinnsluhlutfall heimilissorps tók jákvæðum breytingum milli áranna 2019 og 2020. Þá hefur heildarlosun sóts og svifryks dregist umtalsvert saman frá 2010 þótt örlítil neikvæð þróun hafi mælst milli 2020 og 2021. Þá hefur hlutfall endurnýjanlegrar orku í heildarnotkun haldið áfram að aukast. Hins vegar breyttist heildarlosun atvinnugreina á gróðurhúsalofttegundum lítið milli áranna 2020 og 2021, en þegar horft er til 2018 hefur losunin dregist nokkuð saman.

Gróska í nýsköpun

Nýsköpun er lykillinn að öflugu og fjölbreyttara hagkerfi. Í apríl 2023 tóku gildi lög um vísinda- og nýsköpunarráð sem komu í stað laga um vísinda- og tækniráð frá árinu 2003. Markmið nýrra laga er að styrkja langtímastefnumótun vísinda- og nýsköpunarmála með heildrænni nálgun á málaflokkinn, skýrari hlutverkum helstu aðila og öflugri sjálfstæðri gagnagreiningu, ásamt eftirfylgni og auknu samstarfi og samhæfingu milli ráðuneyta. Langtímastefna þarf að vera öflug og metnaðarfull, og er lykilatriði að hún fari saman við aðgerðavinnu ólíkra ráðuneyta og fjármálaáætlunar.

Háskóla, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið tók til starfa í byrjun ársins 2022. Nýtt ráðuneyti stuðlar að aukinni sérþekkingu og áherslu á málefnasvið vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar. Með tilkomu þess gafst tækifæri til að vinna að öflugum greiningum og betri yfirsýn yfir stuðningskerfi vísinda og nýsköpunar hér á landi. Á undanförnum árum hafa fjárframlög til háskóla, samkeppnissjóða og framlög vegna endurgreiðslu kostnaðar við rannsóknir og þróun fyrirtækja aukist mikið. Stjórnvöld leggja að auki áherslu á eflingu náms og fjölgun nemenda í raunvísindum, tæknigreinum og heilbrigðisvísindum og að fjölga körlum í háskólanámi. Þá er unnið að því að bæta enn frekar tengsl háskóla- og rannsóknarsamfélagsins til að efla megi nýsköpun, tryggja betur stöðugleika hagkerfisins og sjálfbærni útflutningsatvinnuvega.

Betri samskipti við almenning

Markmið fyrsta kjörtímabils núverandi ríkisstjórnar var að byggja upp traust í samfélaginu og efla innviði ásamt því að tryggja pólitískan, félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. 

Eitt helsta umbótarverkefni ríkisstjórnarinnar snýr að þessari velsældaráherslu. Stafræn framþróun hefur nú þegar skilað miklum ávinningi með nýjum samskiptaleiðum og stuðlað að bættri þjónustu stjórnvalda fyrir alla landsmenn, minni pappírsnotkun og aukinni skilvirkni. Ísland hefur á síðastliðnum árum bætt stöðu sína í alþjóðlegum mælingum á stafrænni þjónustu við almenning. 

Íslensk stjórnvöld taka þátt í samanburðarrannsóknum OECD sem mæla traust almennings til opinberra aðila. Samkvæmt nýlegum niðurstöðum mælist traust gagnvart opinberum stofnunum hér á landi yfir meðaltali í OECD í öllum tilvikum nema þegar kemur að dómskerfinu. Í könnun OECD er dregið fram að almennt geti stjórnvöld gert betur í að bregðast við ábendingum borgara. Þannig telur aðeins um 20% svarenda á Íslandi að þau geti haft áhrif á ákvarðanir stjórnvalda sem er undir meðaltali OECD. Þá telur um þriðjungur svarenda á Íslandi að opinber þjónusta verði bætt þegar kvartað er undan henni. Það hlutfall er einnig undir meðaltali OECD. Könnun OECD um ofangreinda þætti sem gerð var haustið 2023 verður birt í júní 2024.

Sem viðbrögð við niðurstöðum kannana OECD og eftirfylgni tillagna starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu frá 2018 er unnið að eflingu lýðræðislegs samráðs við almenning. Mótaðar verða frekari tillögur að aðgerðum.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum