Hoppa yfir valmynd
26. maí 2009 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýjar úttektir á háskóla- og vísindakerfinu

Komin er út skýrslan Stefna í menntun, vísindum og nýsköpun: Ný leið fyrir Ísland. Þar koma fram afgerandi tillögur um uppstokkun háskólakerfisins með samruna háskóla, endurmat á starfi Vísinda- og tækniráðs og stóraukna áherslu á nýsköpun.

Í desember s.l. voru skipaðar tvær nefndir til að fjalla um möguleg viðbrögð stjórnvalda við hruni fjármálakerfisins í október sl. og hvernig væri best að takast á við afleiðingar þess.

Sérstök innlend verkefnisstjórn var skipuð til að leggja fram tillögur um:

  • aðgerðir og áherslur til skemmri og lengri tíma sem eru til þess fallnar að styrkja háskóla og vísindastarfsemi í landinu;
  • hvernig efla megi samstarf háskóla, vísindastofnana og fyrirtækja, með það að markmiði að fjármunir, sem veittir eru til kennslu og rannsókna, nýtist sem best til að styðja við nýsköpun og uppbyggingu á sviði atvinnumála;
  • hvernig skapa megi tækifæri og virkja þekkingu og reynslu háskólamenntaðra einstaklinga, sem misst hafa vinnuna, til virðisskapandi starfsemi og atvinnuuppbyggingar.

Nefndin hefur nú skilað af sér, sbr. hjálögð skilagrein. Meðal tillagna sem settar eru fram og væntanlega munu vekja nokkra umræðu er að háskólum verði fækkað í allt að tvo, þótt þeir geti verið fleiri, svo sem segir í nefndarálitinu, og hins vegar að stjórnvöld íhugi alvarlega að breyta ríkisskólunum fjórum í sjálfseignarstofnanir. Þá setur verkefnisstjórnin fram tillögur er miða að því að háskólar verði jafnsettir hvað varðar fjárveitingar til bæði kennslu og rannsókna, og að starfsskilyrði háskóla verði að öllu leyti sem áþekkust.

Margvíslegar tillögur eru einnig gerðar um breytingar á stuðningskerfi rannsókna og nýsköpunar, sem miða að því að því að niðurstöður rannsókna- og þróunarstarfs verði hagnýttar í auknum mæli og stuðli að virðis- og atvinnusköpun. Loks eru gerðar tillögur um að starfi Vísinda- og tækniráðs verði breytt og það eflt, m.a. með auknu sjálfstæði ráðsins og Rannís.

Jafnframt var skipaður erlendur ráðgjafahópur til að veita stjórnvöldum ráð um viðbrögð á sviði mennta- og vísindamála til að skjóta stoðum undir endurreisn efnahags- og þjóðlífs eftir hrun fjármálakerfisins og treysta samkeppnisstöðu landsins til lengri tíma. Ráðgjafahópnum var m.a. falið að gera tillögur um leiðir til að auka skilvirkni stofnana, þ. m. t. háskóla, rannsóknastofnana og stuðningskerfis rannsókna og nýsköpunar og beita fjármunum ríkisins þannig að árangur skilaði sér í endurnýjun og eflingu efnahagslífsins í samvinnu við atvinnulífið í landinu. Var leitað eftir áliti ráðgjafanna varðandi hlutverk og starfshætti Vísinda- og tækniráðs í því sambandi.

Í ráðgjafahópnum sátu háttsettir sérfræðingar frá OECD, fyrrverandi ráðuneytisstjóri finnska menntamálaráðuneytisins og fyrrverandi dóms- og menntamálaráðherra Finnlands, sem jafnframt hefur verið formaður finnsku háskólasamtakanna.

Skýrslan er kölluð Stefna í menntun, vísindum og nýsköpun: Ný leið fyrir Ísland. Þar koma fram afgerandi tillögur um uppstokkun háskólakerfisins með samruna háskóla, endurmat á starfi Vísinda- og tækniráðs og stóraukna áherslu á nýsköpun. Ráðgjafahópurinn gerir ítarlegar athugasemdir og tillögur í 34 liðum. Megin skilaboð ráðgjafahópsins eru eftirfarandi:

  • ,,Viðhaldið fjárfestingum í menntun á öllum skólastigum“
  • ,,Endurskoðið mennta- og rannsóknakerfið“
  • ,,Leggið áherslu á nýsköpun“
  • ,,Bætið og styrkið stjórnsýslu rannsókna og nýsköpunar“
  • ,,Náið samstöðu um skammtímabreytingar og hrindið þeim hratt í framkvæmd“

Meðal aðgerða sem hópurinn leggur til er að sameina hina 7 háskóla landsins í tvo, annan opinberan og hinn einkarekinn. Lögð er áhersla á eflingu Vísinda- og tækniráðs sem ákvörðunaraðila um stefnu í vísindum, tækni og nýsköpun og að RANNÍS verði efld sem stofnun er þjóni öllu sviðinu, veiti Vísinda- og tækniráði öfluga faglega þjónustu og annist mat á árangri stefnumarkandi aðgerða. Gagnrýnt er að skipulegt mat skort á árangri stuðningsaðgerða og frammistöðu stofnana sem njóta opinbers stuðnings. Þá leggur hópurinn áherslu á aukna samvinnu milli ráðuneyta og milli stofnana um framkvæmd stefnu á þessu sviði undir forystu forsætisráðuneytisins.

Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, lagði fram skýrslurnar til kynningar á ríkisstjórnarfundi í dag, þriðjudaginn 26. maí 2009.

Hjálagt:Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira