Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana

Nefnd sem falið var að meta þörf á setningu heildarlöggjafar um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana telur lagasetningu æskilega. Niðurstöður nefndarinnar verða til umfjöllunar á málþingi sem fram fer við Háskóla Íslands í hádeginu í dag, 14. febrúar.

Nú liggur fyrir skýrsla nefndar um mat á mikilvægi heildarlöggjafar um starfsemi frjálsra félagasamtaka og sjálfseignarstofnana. Félags- og tryggingamálaráðherra skipaði nefndina í apríl 2009 og fól henni að skoða kosti og galla slíkrar lagasetningar og hvort ástæða væri til að setja heildarlöggjöf um starfsemi almannaheillasamtaka þannig að slík samtök fái skýrari réttarstöðu sem og rekstrarumhverfi. Með skýrslu nefndarinnar fylgir álitsgerð frá Hrafni Bragasyni um löggjöf félagasamtaka og sjálfseignarstofnana.

Nefndin leggur til að hafist verði handa við samningu löggjafar um félagasamtök sem samhæfa þarf núgildandi löggjöf um sjálfseignarstofnanir. Í ljósi þess að efnahags- og viðskiptaráðuneytið fer með málefni félaga- og sjálfseignarstofnana í atvinnurekstri samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands telur nefndin eðlilegt að undirbúningur slíkrar lagasetningar fari fram þar. Nefndin telur tvær meginleiðir koma til álita:

  • Að lög um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri verði endurskoðuð þannig að þau nái einnig til félagasamtaka í atvinnurekstri. Jafnframt verði skoðað hvort ekki sé ástæða til að fella lög um sjálfseignarstofnanir/-sjóði sem ekki eru í atvinnurekstri undir sömu lög.
  • Að ný heildarlög verði samin sem nái til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana þar sem reglur um þessi félagsform verði samhæfðar og lög um sjálfseignarstofnanir falli úr gildi.

Fjallað verður um niðurstöður nefndarinnar á málþingi Fræðaseturs þriðja geirans og Almannaheilla í samvinnu við velferðarráðuneytið sem haldið verður í stofu 101 í Lögbergi við Háskóla Íslands 14. febrúar kl. 12.00–13.15.

Skýrslan:

Nefndin sem fjallaði um málið og vann skýrsluna var skipuð eftirtöldum aðilum:

  • Ómar H. Kristmundsson, skipaður af félags- og tryggingamálaráðherra, formaður
  • Eva Þengilsdóttir, tilnefnd af Samtökum almannaheilla
  • Hjalti Zóphóníasson, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðuneyti
  • Ingibjörg Helga Helgadóttir, tilnefnd af fjármálaráðuneyti
  • Sólveig Guðmundsdóttir, tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti

Starfsmaður nefndarinnar var Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira