Hoppa yfir valmynd
24. júní 2011 Dómsmálaráðuneytið

Telja full rök til að stofna millidómstig

Vinnuhópur sem Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra  skipaði í desember síðastliðnum til að skoða hvort setja ætti á fót sérstakt millidómstig í einkamálum og sakamálum hefur skilað niðurstöðum. Telur hópurinn full rök til þess að stofna slíkt millidómstsig.

Forsaga málsins er sú að fjögur  fagfélög lögfræðinga á Íslandi: Ákærendafélag Íslands, Dómarafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands efndu til málþings 8. október 2010 um stofnun sérstaks millidómstigs. Þar kom fram mikill einhugur um stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Þessi félög sendu í kjölfarið erindi til ráðuneytisins þar sem skorað var á ráðherra að beita sér fyrir stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Í framhaldi af þessari áskorun skipaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vinnuhóp til að fylgja erindinu eftir. Hópurinn var skipaður þeim Sigurði Tómasi Magnússyni, prófessor, Ásu Ólafsdóttur, lektor og hæstaréttarlögmanni, Benedikt Bogasyni, dómstjóra og dósent, og Símoni Sigvaldasyni, héraðsdómara og formanni dómstólaráðs.

Í erindisbréfi vinnuhópsins kom fram að hann skyldi„ taka til skoðunar þörfina á að setja á fót hér á landi millidómstig sem taki bæði til sakamála og einkamála, kosti þess og galla og hvernig slíku milliómstigi væri best fyrir komið auk þess að leggja mat á þann kostnað sem slíku væri samfara.“ Þá skyldi vinnuhópurinn hafa samráð við fulltrúa framangreindra félaga við vinnu sína. 

Niðurstaða vinnuhópsins er sú að full rök séu til að taka undir með áskorun félaganna um að ráðast beri í stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum hér á landi. Hluti hópsins telur það samrýmast best því markmiði að stofna þegar í stað millidómstig í sakamálum þar sem þörfin fyrir millidómstig í sakamálum sé mun brýnni en í einkamálum. Hinn hluti vinnuhópsins telur hins vegar að þegar í stað eigi að hefja undirbúning að stofnun millidómstigs sem taki bæði til einkamála og sakamála.

Vinnuhópurinn setur fram í skýrslu sinni eftirfarandi ábendingar um hvernig millidómstigi verði komið á fót hér á landi:

1.      Öll dómsmál hefjist á fyrsta dómstigi

2.      Einn dómstóll verði starfræktur á millidómstigi fyrir landið allt

3.      Takmarkanir á málskotsheimildum af fyrsta dómstigi yfir á millidómstig verði með sambærilegum hætti og nú er varðandi málskot til Hæstaréttar

4.      Meginreglan verði sú að munnleg sönnunarfærsla fari fram á millidómstigi eftir því sem þurfa þykir en reynt verði að takmarka hana t.d. með því að sýna myndbandsupptökur af skýrslutökum í héraði við aðalmeðferð á millidómstigi

5.      Málsmeðferð verði að öðru leyti með svipuðum hætti á millidómstigi og nú er fyrir Hæstarétti

6.      Dómarar á almennu millidómstigi í einkamálum og sakamálum verði 15 og starfi í 5 deildum. Aðrir starfsmenn verði 16. Ef stofnað verður millidómstig í sakamálum eingöngu verði dómarar 6 og starfi í 2 deildum en aðrir starfsmenn verði 9.

7.      Sérfróðir meðdómsmenn taki sæti í dómi í málum á millidómstigi þar sem sérkunnáttu er þörf

8.      Héraðsdómarar verði 42 en tímabundin heimild er til að fjölga þeim í 48, skv. lögum nr. 12/2011

9.      Hæstaréttardómurum verði fækkað í 5 en þeir verða 12 til bráðabirgða frá 1. september 2011, skv. lögum nr. 12/2011

10.  Mál komi eingöngu til meðferðar í Hæstarétti á grundvelli áfrýjunarleyfis réttarins

Þeir sem óska geta sent ábendingar og athugsemdir til ráðuneytisins á netfangið [email protected].

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum