Hoppa yfir valmynd
18. október 2011 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra telur ríkislögreglustjóra hafa farið að lögum en tilefni sé til að skerpa á reglum

Innanríkisráðuneytið hefur fjallað um ábendingar Ríkisendurskoðunar um innkaup löggæslustofnana frá 27. september. Einnig hefur ráðuneytið farið yfir greinargerð frá ríkislögreglustjóra um málið sem óskað var eftir í framhaldi af ábendingum Ríkisendurskoðunar.

Niðurstaða innanríkisráðuneytisins er sú að dregin hafi verið upp villandi mynd af málinu þegar gefið sé til kynna að lögreglan hafi ekki farið að lögum og reglum við innkaup. Hins vegar sé nauðsynlegt að koma innkaupum á vegum lögregluembætta í landinu í markvissari farveg eins og Ríkisendurskoðun leggur til.

Ráðuneytið hefur falið ríkislögreglustjóra í samvinnu við lögregluembætti og Ríkiskaup að leggja fram eigi síðar en 1. febrúar tillögur að umbótum í innkaupum á búnaði og tækjum til lögreglunnar. Vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar um að innanríkisráðuneytið segi til um hvort það samrýmist störfum lögreglumanna að eiga og/eða starfa hjá fyrirtækjum sem löggæslustofnanir eiga í viðskiptum við er rétt að taka fram að á vegum ríkislögreglustjóra er nú að beiðni ráðuneytisins unnið að gerð reglna um aukastörf lögreglumanna. Að  málinu vinnur vinnuhópur á vegum ríkislögreglustjóra með aðkomu Landssambands lögreglumanna og Lögregluskóla ríkisins og skulu tillögur hans einnig liggja fyrir 1. febrúar næstkomandi. 

Í kjölfar ábendinga Ríkisendurskoðunar hefur innanríkisráðuneytið einnig ritað forstöðumönnum stofnana ráðuneytisins og kynnt fyrir þeim innkaupastefnu ráðuneytisins og stofnana þess sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ritaði undir 14. október. Innanríkisráðherra segir þetta mikilvægt skref og kveikjan hafi verið bréf Ríkisendurskoðunar um innkaupamál.

„Ég hef sannfærst um að embætti ríkislögreglustjóra hafi farið að lögum í innkaupum sínum. Sú mynd sem dregin hefur verið upp í fjölmiðlum af embættinu er ómakleg og röng. Hins vegar eru þessi mál almennt ekki í nógu góðum farvegi og því eru tilteknir þættir þeirra teknir til sérstakrar skoðunar,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisáðherra. 

Innkaupastefna innanríkisráðuneytisins

Innkaupastefnan tekur til ráðuneytisins og stofnana þess og verður hluti af árangursstjórnunarsamningum ráðuneytisins við stofnanirnar. Tilgangur hennar er að innkaup séu hagkvæm, opin, ábyrg og sanngjörn. Markmiðið er að auka hagkvæmni innkaupa með því að leita eftir bestu niðurstöðu að teknu tilliti til kostnaðar og ávinnings. Þá skulu allar stofnanir vera áskrifendur að rammasamningum Ríkiskaupa, að fjárhagslegur sparnaður náist, innleidd verði rafræn innkaupaferli og að skipaðir verði ábyrgðarmenn innkaupa.

Meðal annarra markmiða má einnig nefna:

  • Að lögum og reglum um opinber innkaup sé fylgt í hvívetna.
  • Að útgefnum leiðbeiningum um opinber innkaup sé fylgt í hvívetna.
  • Að auka vitund meðal ráðuneytisins og forstöðumanna stofnana þess um rétta og hagkvæma framkvæmd í opinberum innkaupum og skerpa stjórnun og skilgreina verklag við innkaup á vörum og þjónustu.
  • Að greina innkaup, skilgreina markmið sem byggð séu á greiningunni og ná þannig aukinni hagkvæmni í innkaupum.
  • Að undirbúningur innkaupa verði samkvæmt fyrirfram hönnuðum verkferlum.
  • Að hagkvæmum innkaupaaðferðum verði beitt, með því að auka notkun rammasamninga og útboða og gera verðkannanir þegar um bein kaup án útboðs er að ræða.

Þá má vekja athygli á að í innkaupastefnunni er lagt fyrir stofnanir ráðuneytisins að leita til Ríkiskaupa varðandi sérfræðiráðgjöf á sviði innkaupa.

Með innkaupastefnu leggur innanríkisráðuneytið ríka áherslu á að fylgt sé í hvívetna lögum,  reglum og útgefnum leiðbeiningum um opinber innkaup. Áskilið er að forstöðumenn stofnana og innkaupastjórar fylgi því eftir að farið sé að þessum reglum. Þá skulu þeir eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti meta árangur markmiða sem sett hafa verið. 

Á þennan hátt er leitast við að tryggja fagleg vinnubrögð og aðhald varðandi innkaup og er það von ráðuneytisins að leiðbeiningar innkaupastefnunnar nýtist í því skyni. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira