Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2013 Forsætisráðuneytið

Kjarasamningar með áherslu á kaupmátt stuðla að stöðugleika

Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa í dag sent heildarsamtökum á vinnumarkaði minnisblað í tengslum við yfirstandandi kjarasamningalotu á almennum vinnumarkaði og væntanlega samningalotu á opinberum vinnumarkaði. Minnisblaðið er sent fyrir hönd ráðherranefndar um kjarasamninga en sú nefnd var tímabundið sett á laggirnar í ágúst sl. til að hafa yfirsýn yfir og safna upplýsingum um framgang kjarasamninga á almennum og opinberum vinnumarkaði. Til viðbótar við forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sitja félags- og húsnæðismálaráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ráðherranefndinni.  

Ráðherranefndin deilir þeirri sýn aðila vinnumarkaðarins að kjarasamningar með áherslu á kaupmátt og hóflegar launahækkanir séu best til þess fallnir að stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Ráðherranefndin vill leggja sitt af mörkum til að þessi sameiginlega sýn verði að veruleika og til að svo verði skiptir mestu að:  

  • Kjarasamningar miðist við að halda verðbólgu í skefjum og framkvæmd þeirra taki einnig mið af því markmiði. 
  • Gengi krónunnar verði stöðugt og styðji við verðstöðugleika sem viðheldur kaupmætti, skapar svigrúm til vaxtalækkunar og eykur tiltrú í atvinnulífinu og vilja til fjárfestingar.
  • Stefna stjórnvalda styðji við markmið um aukinn stöðugleika.  
  • Komið verði böndum á sjálfvirkar verðlagsbreytingar einkaaðila og opinberra aðila vegna hækkunar vísitölu neysluverðs. 

Í aðdraganda að gerð nýrra kjarasamninga hafa aðilar vinnumarkaðarins horft til framtíðar og breyttrar umgjarðar. Ráðherranefndin telur tímabært að nota tækifærið við nýskipan kjarasamninga til að endurskilgreina samráðskerfið og skilgreina aðkomu ríkisstjórna að gerð og frágangi kjarasamninga. Það er t.d. hægt að gera með því að skipta samskiptum við aðila vinnumarkaðarins í tvo farvegi: 

  1. Reglubundin samskipti. Með reglubundnum samskiptum er átt við formlegt og óformlegt samstarf ríkisins og aðila vinnumarkaðarins sem verður að vera til staðar á hverjum tíma, óháð því hvort endurnýjun kjarasamninga sé á næsta leiti. Hér er t.d. átt við samstarf vegna vinnumarkaðsgerða, skattamála, svartrar atvinnustarfsemi, samspil menntakerfis og vinnumarkaðar, aðgerða til að draga úr misnotkun bótafjár og tekjutilfærslna, almannatrygginga og lífeyrismála og menntamála og eftir atvikum nefndarstarf eða stefnumörkun á sviðum sem hafa áhrif á aðila vinnumarkaðarins.
  2. Efnahagsstefna í víðum skilningi. Með efnahagsstefnu í víðum skilningi er átt við þau viðfangsefni í almennri hagstjórn sem skipta mestu máli fyrir framgang kjaraviðræðna á hverjum tíma. Um þessar mundir er sameiginleg umfjöllun um áhrif stefnu stjórnvalda í peningamálum og húsnæðismálum mikilvæg fyrir framgang kjaraviðræðna.  

Ráðherranefnd um kjarasamninga leggur til að komið verði á fót fastanefnd um samskipti ríkisins og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði. Hlutverk hennar yrði að hafa yfirsýn yfir regluleg samskipti ríkisins og aðila vinnumarkaðarins og vera vettvangur hugmynda og skoðanaskipta um sameiginleg hagsmunamál. 

Í tengslum við það markmið aðila vinnumarkaðarins að efna til náins samráðs og samstarfs í vetur til að freista þess að leggja grunn að lengri kjarasamningum á næsta ári sem taki mið af lágri verðbólgu og stöðugleika hafa fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra ákveðið að efna til samráðs við aðila vinnumarkaðarins á ýmsum sviðum, eins og nánar er rakið í meðfylgjandi minnisblaði.

Sjá minnisblað: Undirbúningur kjarasamninga með áherslu á efnahagslegan stöðugleika og kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna sem og breytta umgjörð við gerð kjarasamninga

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira