Hoppa yfir valmynd
10. desember 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukin áhersla á kjara- og mannauðsmál með nýrri starfseiningu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Með breytingum sem urðu í vor á skipulagi fjármála- og efnahagsráðuneytis varð til ný eining innan þess; Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR).

Meginhlutverk hennar er að sinna ýmissi þjónustu og ráðgjöf við ríkisstofnanir í umboði ráðherra, sem fram til þess tíma var einkanlega á hendi starfsmannaskrifstofu ráðuneytisins. Þessi breyting endurspeglar að kjara- og mannauðsmál eru vaxandi málaflokkur sem krefst aukinnar áherslu og athygli, en laun- og launatengd gjöld stofnana ríkisins eru yfirleitt um 75% rekstrarútgjalda þeirra.

Fyrir skipulagsbreytingarnar annaðist starfsmannaskrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytis margskonar þjónustu og upplýsingagjöf, auk stefnumörkunar, framkvæmdar og sérfræðiráðgjafar til ráðherra og ríkisstjórnar. Jafnframt sinnti hún almennum samskiptum við fulltrúa stéttarfélaga og ríkisstofnana. Við skipulagsbreytingarnar í apríl 2013 var verkefnum starfsmannaskrifstofu skipt á milli nýrrar skrifstofu stjórnunar og umbóta í ráðuneytinu og KMR. Starfsmannaskrifstofan var hins vegar lögð af í þáverandi mynd.

Ein veigamestu rökin fyrir því að setja á fót sérstaka einingu á sviði kjara- og mannauðsmála eru þau að ráðuneyti sinni ekki umsýslu og framkvæmd almennra málaflokka, heldur séu þau verkefni á hendi annarra starfseininga. Þetta er í samræmi við þá þróun sem oðið hefur á síðustu árum varðandi hlutverk og verkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Í framhaldi af skipulagsbreytingunum í vor hefur verið unnið að því að ákvarða nánar verkefni og verkaskiptingu ráðuneytisins og KMR. Í kjölfar þess staðfesti ráðherra þann 4. september sl. sérstakan viðauka við fyrri ákvörðun um skipulag ráðuneytisins. Þar eru eftirfarandi þættir sérstaklega hafðir í huga:

  • Að styrkja stefnumótun á sviði kjara- og mannauðsmála
  • Að tengja stefnumörkun mannauðsmála við önnur hlutverk ráðuneytisins á sviði stjórnunar og rekstrar
  • Að styrkja ráðgjöf og þjónustu við stofnanir og önnur ráðuneyti
  • Að gerð og framkvæmd kjarasamninga verði í vissri fjarlægð frá ráðuneytinu, með því að Kjara- og mannauðssýsla haldi utan um þau verkefni. Náið samráð verður þó haft við ráðuneytið

Kjara- og mannauðssýslan, sem tók til starfa í vor, er til húsa að Sölvhólsgötu 4, 4. hæð. Hjá einingunni starfa 8 manns.

Helstu hlutverk Kjara- og mannauðssýslu ríkisins eru:

  • Þátttaka í stefnumótun
  • Útfærsla og framkvæmd stefnumörkunar í kjara- og mannauðsmálum
  • Ráðgjöf og stuðningur við ráðuneyti og ríkisstofnanir
  • Leiðbeiningar til ríkisstofnana og ráðuneyta um ákvæði starfsmannalaga og framkvæmd kjarasamninga
  • Starfsþróun og fræðslumál
  • Málefni forstöðumanna ríkisstofnana
  • Samstarf við samtök launþega, atvinnurekenda og sveitarfélaga um launa- og kjaramál
  • Gerð kjarasamninga með samninganefnd ríkisins

Verkefni á sviði mannauðsmála sem falla undir skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu eru almenn stefnumörkun varðandi mannauðsmál ríkisins, svo sem  réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, kjarasamninga, launa- og lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna og greining á mannaflaþörf og launum.

Á næstu misserum mun komast frekari reynsla á verkaskiptingu og samvinnu skrifstofa fjármála- og efnahagsráðuneytisins og KMR. Jafnhliða verður skoðað hvort hagkvæmt sé að fela KMR frekari verkefni til að ná fram styrkari stjórnun og þar með betri rekstrarhagkvæmni á þessu sviði ríkisrekstrarins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum