Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2014 Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um framtíðarskipan ákæruvalds til umsagnar

Drög að frumvarpi til laga um framtíðarskipan ákæruvalds eru nú til umsagnar hjá ráðuneytinu. Unnt er að senda umsagnir um frumvarpið á netfangið [email protected] til og með 21. nóvember næstkomandi.

Frumvarpið var samið á vegum réttarfarsnefndar að frumkvæði dómsmálaráðherra, m. a. á grundvelli minnisblaðs stýrihóps um mótun réttaröryggisáætlunar og vinnuhóps um framtíðarskipan ákæruvalds. 

Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst að kveða á um framtíðarskipan ákæruvalds hér á landi og breytingar á fyrirkomulagi rannsókna á efnahagsbrotum. Almennt gengur frumvarpið út á að efla og styrkja ákæruvaldið í landinu, þ.e. efla stjórnunar- og eftirlitshlutverk ríkissaksóknara, stuðla að betri og skilvirkari málsmeðferð og auka réttaröryggi.

Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi: 

1. Ákæruvaldið verði á tveimur ákæruvaldsstigum. Æðsti handhafi ákæruvalds verði áfram ríkissaksóknari en lögreglustjórar og hliðsett héraðssaksóknaraembætti fari með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi, sem og rannsókn og saksókn efnahagsbrota sbr. 3. tl. hér á eftir. Embætti Sérstaks saksóknara verði lagt niður. 

2. Hlutverk ríkissaksóknara verði að flestu leyti með sama hætti og fyrir er mælt í 21. gr. sakamálalaga, en taki þó þeim breytingum sem hér greinir:

a. Ríkissaksóknari höfði sakamál ef brot varðar X. kafla almennra hegningarlaga, svo og þau mál önnur þar sem ráðherra tekur ákvörðun um saksókn, sbr. 2. mgr. 21. gr., sbr. 2. mgr. 19. gr. sakamálalaga. Ríkissaksóknari geti þó tekið saksókn í sínar hendur í öðrum sakamálum á öllum stigum.

b. Ríkissaksóknari taki ákvörðun um áfrýjun til Hæstaréttar og annist sókn áfrýjaðra mála þar og á millidómstigi ef það verður að veruleika.

c. Eftirlitshlutverk ríkissaksóknara með rannsóknum, rannsóknaraðgerðum og saksókn verði eflt.

d. Ákvarðanir lögreglustjóra og héraðssaksóknara, um að hætta rannsókn, fella mál niður eða falla frá saksókn, sbr. 52. gr. og 145.-147. gr. sml. verði kæranlegar beint til ríkissaksóknara.

e. Ríkissaksóknari geti ákveðið hvaða lögreglustjóri eða héraðssaksóknari skuli rannsaka og eftir atvikum höfða mál vegna tiltekins brots og þannig falið öðru embætti en rannsakað hefur mál að annast saksókn, þ.m.t. að höfða mál.

f. Ríkissaksóknari skeri úr álitaefnum sem upp koma milli lögreglustjóra og héraðssaksóknara um lögsögu varðandi rannsókn, saksókn og önnur atriði.

g. Ríkissaksóknari fari ekki lengur með það verkefni sem honum er nú falið skv. 35. gr. lögreglulaga, þ.e. að fara með rannsókn á ætluðum refsiverðum brotum starfsmanna lögreglu við framkvæmd starfa.

3. Ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi, vegna annarra brota en þeirra sem ríkissaksóknari höfðar, verði í höndum lögreglustjóra í hinum 9 lögregluumdæmum og héraðssaksóknara, þannig:

a. Lögreglustjórum verði falið að höfða mál vegna fleiri tegunda brota en áður. Þannig höfði þeir sakamál vegna allra þeirra brota sem þeir hafa gert frá árinu 2009, samkvæmt 5. mgr. VII. gr. í bráðabirgðaákvæðum með sakamálalögum. Því til viðbótar verði fært til þeirra ákæruvald frá ríkissaksóknara vegna brota m.a. gegn 148. gr., 206. gr., 210. gr. a og 219. gr. alm. hgl.

b. Stofnað verði héraðssaksóknaraembætti (saksóknar- og lögregluembætti) sem fari með ákæruvald vegna flestra þeirra brota sem ríkissaksóknari fer nú með ákæruvald fyrir héraðsdómi og fari jafnframt með rannsókn og saksókn alvarlegra skattalaga- og efnahagsbrota, brota gegn valdstjórninni og brota starfsmanna lögreglu. Embættið leysi þannig af hólmi héraðssaksóknaraembætti skv. lögum nr. 88/2008 og embætti sérstaks saksóknara.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira