Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2014 Innviðaráðuneytið

Drög að stefnu um net- og upplýsingaöryggi til umsagnar

Starfshópur um stefnumótun í net- og upplýsingaöryggi var settur á fót á vegum innanríkisráðuneytisins í júní 2013. Aðalverkefni hópsins var að móta stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki og vernd upplýsingainnviða sem varða þjóðaröryggi. Drög að stefnu 2014 til 2025 eru nú tilbúin og birt hér á vefnum til umsagnar.

Umsagnarfrestur um drögin er til 19. janúar 2015 og óskast umsagnir sendar á netfangið [email protected] með efnislínunni: Umsögn um stefnu um net- og upplýsingaöryggi.

Í stefnunni er að finna Framtíðarsýn 2025 um net- og upplýsingaöryggi og Meginmarkmið stefnu til að ná megi þeirri sýn. Í inngangi er fjallað um vinnu starfshópsins sem vann að mótun stefnunnar og aðgerðaáætlun sem byggð er á stefnunni. Því næst er lýst ýmsum ógnum við nýtingu Netsins og mikilvægi þess að brugðist sé við þeim. Þá er fjallað um hvernig íslenskt samfélag er í stakk búið til að glíma við þessa ógn og hvað sé unnt að gera til að snúa vörn í sókn og nýta net- og upplýsingaöryggi til framfara og ábata. Nánari lýsingu á meginmarkmiðum stefnunnar má finna aftast. Fjallað verður um aðgerðaáætlunina í sérriti enda er hún til skamms tíma í senn og verður endurskoðuð árlega.

Auk draga að stefnu í net- og upplýsingaöryggi er einnig birt hér efni frá samráðsfundi um stefnumótunina með hagsmunaaðilum. Var fundurinn haldinn í Safnahúsinu í Reykjavík 2. júní síðastliðinn. Hluti fundarins var í formi vinnustofu þar sem þátttakendum var skipt í hópa eftir atvinnugreinum og rætt um stefnumótun og hugsanlegt framtíðarskipulag. Hópstjórar kynntu síðan niðurstöður umræðna hvers hóps og skráðu. Um 80 fulltrúar frá um 60 stofnunum og fyrirtækjum mættu og tóku þátt í þessu starfi.

Nánari upplýsingar um starf hópsins má finna hér.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum