Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Volkswagen óskar eftir því að viðbótarkröfum verði beint að fyrirtækinu

Forstjóri Volkswagen Group óskar eftir því að viðbótarkröfum skatta og gjalda vegna rangrar skráningar mengunarefna í útblæstri ökutækja frá Volkswagen, sem fjallað hefur verið um að undanförnu, verði beint að Volkswagen Group en ekki að viðskiptavinum fyrirtækisins. Þetta kemur fram í bréfi forstjórans til fjármála- og efnahagsráðherra, sem barst 13. nóvember sl.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur að undanförnu haft til skoðunar hver áhrif rangrar skráningar mengunarefna í útblæstri ökutækja frá Volkswagen, annars vegar á innflytjendur ökutækjanna og hins vegar á eigendur þeirra, kunna að vera. Ástæðan er að við álagningu vörugjalds og bifreiðagjalds á ökutæki er m.a. tekið mið af magni koltvísýrings í útblæstri.

Í erindi Matthias Müller, forstjóra Volkswagen Group til fjármála- og efnahagsráðherra, er rakið að við mælingar á koltvísýringsútblæstri nokkurra gerða bifreiða hafi komið í ljós óútskýrður mismunur á skráðum koltvísýringsútblæstri og mældum koltvísýringsútblæstri um 800.000 bifreiða sem fyrirtækið hefur framleitt. Í framhaldinu er bent á mismunurinn kunni að hafa áhrif við ákvörðun skatta og gjalda, m.a. á Íslandi, en tekið fram að enn hafi ekki tekist að leggja raunhæft mat á hve mikill mismunurinn er. Í erindinu er upplýst að Volkswagen Group hyggist leiðrétta ranga skráningu á koltvísýringsútblæstri bifreiðanna og upplýsa skattyfirvöld um þær breytingar sem gerðar verða. Þá er þess óskað að viðbótarkröfum skatta og gjalda verði beint að Volkswagen Group en ekki að viðskiptavinum fyrirtækisins.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun kalla eftir frekari upplýsingum frá fyrirtækinu ef þörf krefur og fylgja því eftir að sérfræðingar ráðuneytisins og frá ríkisskattstjóra og tollstjóra, sem hafa verið upplýstir um efni erindisins, vinni áfram að úrlausn þess innan stjórnsýslunnar eins hratt og auðið er.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira