Hoppa yfir valmynd
7. desember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Greinargerð um endursendingu hælisleitenda til Ítalíu

Innanríkisráðuneytið hefur á síðustu vikum farið yfir forsendur fyrir endursendingum hælisleitenda á grundvelli svonefndrar Dyflinnarreglugerðar. Á það einkum við Ítalíu, Ungverjaland og Grikkland og var það talið nauðsynlegt  vegna aðstæðna sem skapast hafa í þessum löndum vegna mikils fjölda hælisleitenda sem þangað hafa leitað.

Innanríkisráðuneytið hefur lokið gagnasöfnun og úttekt hvað varðar endursendingar til Ítalíu. Við vinnsluna aflaði ráðuneytið fjölda gagna sem varða ástand hælismála, meðferð hælisumsókna og aðstæður hælisleitenda á Ítalíu, þar á meðal upplýsinga frá Sameinuðu þjóðunum, Evrópuráðinu og frá öðrum Norðurlöndum. Þá hefur ráðuneytið kannað dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um endursendingar hælisleitenda.

Með tilliti til fyrirliggjandi gagna er það mat ráðuneytisins að ágallar á aðbúnaði og móttökuskilyrðum hælisleitenda á Ítalíu verði ekki taldir slíkir að þeir gefi ástæðu til að ætla að endursendingar þangað muni almennt brjóta gegn alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda. Lagt er til að meginreglan verði sú að hælisleitendur verði endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en hins vegar skuli áfram ávallt skoða hvert tilvik fyrir sig og meta aðstæður viðkomandi einstaklings áður en ákvörðun er tekin. Áfram skal miðað við þá framkvæmd íslenskra stjórnvalda síðan í maí 2014 að þeir sem teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli ekki sendir til Ítalíu. Þá þarf jafnframt að kanna hvort hætta sé á því að viðkomandi verði áframsendur til þriðja ríkis þar sem hætt er við því að hann sæti illri meðferð. Verði talið varhugavert með hliðsjón af ofangreindu mati að endursenda viðkomandi til Ítalíu m.a. í ljósi stöðu hans og einstaklingsbundinna aðstæðna, er lagt til að undanþáguheimild 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar verði beitt þannig að efnismeðferð hælisumsóknarinnar fari fram hér á landi.

Hvað Ungverjaland varðar hefur ráðuneytið ekki lokið sambærilegri úttekt og liggur nú fyrir um Ítalíu. Útlendingastofnun ákvað 15. október 2015 að stöðva tímabundið endursendingu hælisleitenda á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Ungverjalands þar til aðstæður skýrast betur. Var það gert í ljósi þess mikla og skyndilega álags sem er á hæliskerfi Ungverjalands og gagnrýni á aðstæður hælisleitenda þar í landi. Þá er enn í gildi ákvörðun ráðuneytisins frá 14. október 2010 um að endursenda ekki hælisleitendur til Grikklands.

Ráðuneytið mun kappkosta að ljúka úttektarvinnu hvað Ungverjaland varðar eins fljótt og kostur er og verður hún þá einnig birt á vef ráðuneytisins. Ráðuneytið telur hins vegar að svö stöddu ekki tilefni til að endurmeta sérstaklega stöðuna í Grikklandi. Í ljósi þess sérstaka ástands sem ríkir innan Evrópu í málefnum hælisleitenda og flóttamanna og þeim öru breytingum sem nú eiga sér stað telur ráðuneytið nauðsynlegt að aðstæður í ríkjum sem eru aðilar að Dyflinnarsamstarfinu verði metnar reglulega.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum