Hoppa yfir valmynd
8. desember 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Styrkir til rannsókna á sviði velferðartækni

Velferðarráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki frá meistaranemum og doktorsnemum til þess að vinna að verkefnum á sviði nýsköpunar á vettvangi velferðarþjónustu sveitarfélaga.

Markmiðið er að stuðla að nýsköpun og frumkvöðlahugsun þar sem leitað er nýrra leiða til að auka lífsgæði notenda velferðarþjónustunnar í nútíð og framtíð. Þá skulu umsóknirnar

falla að stefnumótun sem unnið hefur verið að af nefnd á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra, sbr. meðfylgjandi skýrsla um stefnu á sviði nýsköpunar og tækni í velferðarþjónustu.

Umsóknarfrestur er til kl. 16:00 þann 30. desember 2015.

Heildarfjárhæð úthlutaðra styrkja er allt að kr. 1.000.000,-

Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram:

  1. Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang.
  2. Helstu atriði úr náms- og starfsferli umsækjanda og upplýsingar um námsárangur.
  3. Heiti rannsóknaverkefnis, markmið og vísindalegt gildi þess. Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, 2-3 málsgreinar, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar, hljóti verkefnið styrk.
  4. Veigameiri lýsing á rannsóknaverkefni að hámarki ein blaðsíða. Fram kemur hvernig verkefninu er ætlað að auka við núverandi þekkingu á sviði rannsóknarinnar og hvernig það styður við tilgang styrkveitinga og stefnudraga. Sé ætlunin að óska eftir stuðningi við hluta af stærra verkefni skal koma fram til hvaða þáttar er sótt um.
  5. Áætlun um námsframvindu, tímaáætlun, fjárhagsáætlun og helstu samstarfsaðilar verkefnisins. Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning við verkefnið komi einnig fram.
  6. Nöfn, símanúmer og netföng þeirra sem leita má til um meðmæli.

Gert er ráð fyrir því að styrkþegi skili skýrslu með helstu niðurstöðum, árangri af verkefninu og tillögum til þess að vekja athygli á niðurstöðum þess, þegar því er lokið.

Umsækjendur skulu sækja um styrk á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins sem er aðgengilegt hér: https://minarsidur.stjr.is 

Innskráning á mínar síður - þrjár leiðir:

  1. Auðkenning með rafrænum skilríkjum á vef Island.is
  2. Auðkenning með Íslykli á vef Island.is
  3. Notandi velur flipann Nýskráning og skráir sig á vefinn á kennitölu sinni, gefur upp fullt nafn, heimilisfang og netfang og ákveður síðan lykilorð.

Hafi notandi sótt um áður á Mínum síðum velur hann flipann Innskráning og skráir sig inn með einhverri ofangreindra aðferða.

Nánari upplýsingar veitir Þór Garðar Þórarinsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, í síma 545 8100


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira