Hoppa yfir valmynd
19. september 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samræmt og sveigjanlegra lífeyriskerfi til framtíðar

Samkomulag hefur tekist um nýtt samræmt lífeyriskerfi þar sem allt launafólk nýtur sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði.

  • Launakjör á opinberum og almennum vinnumarkaði verða samræmd og jöfnuð.
  • Launafólki verður gert betur kleift að færa sig milli almenns og opinbers vinnumarkaðar hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi teljandi áhrif á ávinnslu lífeyrisréttinda
  • Sjóðfélögum í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna verða tryggð sambærileg réttindi og þeir hafa nú með 120 milljarða króna framlagi hins opinbera til að mæta ófjármögnuðum framtíðarskuldbindingum vegna þeirra.
  • Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verður fullfjármagnað og kerfið sjálfbært.

Fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaganna, BSRB, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands hafa í dag skrifað undir samkomulag um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Breytingarnar taka til A-deildar LSR (Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins) og Brúar (Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga). Um 35.000 manns greiða í þessa tvo sjóði.

Í samkomulaginu er kveðið á um samræmingu og jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði. Í því felst einnig að unnið verði að því að jafna mismun á launakjörum á milli þessara geira vinnumarkaðarins. Miðað er við að eftir að breytingar hafa verið gerðar á lögum um LSR og samþykktum Brúar búi allir við sama fyrirkomulag í lífeyrismálum og geti fært sig milli lífeyrissjóða hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi teljandi áhrif á réttindi þeirra.

Frumvarp sem byggir á samkomulaginu verður lagt fram á Alþingi í vikunni. Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt málið og það hefur að auki verið kynnt fulltrúum allra flokka á Alþingi. Verði frumvarpið að lögum taka breytingarnar gildi 1. janúar 2017.

Réttindi sjóðfélaga skerðast ekki

Sjóðsfélagar í A-deildum LSR og Brúar verða jafnsettir þrátt fyrir breytingarnar. Réttindi þeirra eru tryggð með framlagi ríkis og sveitarfélaga í sérstaka lífeyrisaukasjóði og nemur það samtals um 120 milljörðum króna. Þar af greiðir ríkið rúmlega 91 milljarð króna sem er gjaldfært í reikningum ríkisins á yfirstandandi ári. Þessi eingreiðsla er sambærileg við núvirði þeirra skuldbindinga sem ella myndu falla á ríkið síðar. Með sérstökum samningi, sem gerður er samhliða samkomulagi allra aðila opinbers vinnumarkaðar, tekur ríkið að sér að greiða hlutdeild sveitarfélaga í skuldbindingum A-deildar LSR sem eru 20,1 ma. kr. Heildarkostnaður hins opinbera eykst því ekki umfram það sem óbreytt fyrirkomulag kallar á.

Sérstakar aðstæður í ríkisfjámálum á yfirstandandi ári, einkum vegna stöðugleikaframlags frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja og óreglulegra arðgreiðslna, gera ríkissjóði kleift að fjármagna þessar breytingar nú. Horfur eru á að afgangur á rekstri ríkissjóðs á þessu ári muni þrátt fyrir þessa ráðstöfun nema um 330 ma. kr.

Framtíðarskuldbindingar að fullu fjármagnaðar

Tugmilljarða halli er á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða opinberra starfsmanna vegna aldurssamsetningar sjóðfélaga en með þessu samkomulagi verður hann úr sögunni og þar með verulega dregið úr óvissu og áhættu um afkomu sjóðanna. Framtíðarskuldbindingar sjóðanna teljast með þessari aðgerð að fullu fjármagnaðar.

Ásamt framlagi ríkisins munu breytingar á fyrirkomulagi réttindaávinnslu stuðla að því að rekstur lífeyrissjóða opinberra starfsmanna verði sjálfbær. Aldurstenging réttinda verður grundvallarregla líkt og verið hefur á almennum markaði síðastliðinn áratug og lífeyrisaldur opinberra starfsmanna verður hækkaður úr 65 árum í 67. Tryggt er að núverandi sjóðfélagar haldi óbreyttum réttindum og geti eftir sem áður farið á eftirlaun 65 ára, ef þeir svo kjósa.

Samhliða fullri fjármögnun skuldbindinga verður ábyrgð launagreiðenda á réttindum í A-deild LSR og Brúar afnumin.

Til að mæta ófyrirséðum útgjöldum lífeyrissjóða opinberra starfsmanna vegna þessara breytinga munu ríki og sveitarfélög leggja til ákveðna fjárhæð í varúðarsjóð sem hægt verður að grípa til reynist áfallnar skuldbindingar umfram það sem nú er talið. Samningsaðilar skuldbinda sig enn fremur til að tryggja að markmið um jafn verðmæt rétttindi verði tryggð reynist þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar lífeyrisaukaframlaginu og framlögum í varúðarsjóð ekki hafa staðist. Ef ekki þarf að grípa til varúðarsjóðanna ganga þeir að 20 árum liðnum aftur til opinberra launagreiðenda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn

Í samkomulaginu segir að það sé sameiginleg stefna fulltrúa opinberra launagreiðenda og heildarsamtaka opinberra starfsmanna að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera séu samkeppnishæf. Í því skyni verður þróuð aðferðafræði til greiningar á launamun, ákvörðuð hlutlæg viðmið um hvenær leiðrétta beri launamun einstakra hópa og gerð áætlun um launajöfnun á grundvelli kjarasamninga á allt að áratug og helst í samhengi við nýtt vinnumarkaðslíkan sem aðilar vinnumarkaðarins fyrirhuga að móta á næstu misserum.

Á heildina litið mun aðgerðin hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn þar sem sveigjanleiki verður meiri og launafólk mun eiga auðveldara með að flytja sig milli opinbera og almenna markaðarins.

Í augsýn er að í kjölfar þessara ráðstafana verði Ísland, eitt örfárra ríkja í heiminum, með fullfjármagnað og samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Slík staða felur í sér afar þýðingarmikinn styrkleika til frambúðar, bæði fyrir fjármál hins opinbera og efnahagskerfið í heild, sem og allt launafólk í landinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira