Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Staða ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri

Sæmundur á selnum
Sæmundur á selnum

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur skilað niðurstöðum rannsóknar sem gerð var fyrir velferðarráðuneytið til að fá innsýn í aðstæður ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri, kanna reynslu þess af stuðningi sem það hefur fengið og fá ábendingar um hvað betur má fara.

Rannsóknin var tvíþætt, bæði megindleg og eigindleg, og beindist að fólki á aldrinum 18–39 ára með geðraskanir eða stoðkerfissjúkdóma samkvæmt örorkumatsskrá Tryggingastofnunar ríkisins sem hafði fyrst verið metið til örorku eða endurhæfingar á árunum 2012–2015.

Meðal þess sem rannsóknin leiddi í ljós er að sú fjölgun ungra öryrkja sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hefur fyrst og fremst verið í hópi þeirra sem eru með meðfæddar skerðingar, (svo sem einhverfu eða þroskaröskun) fremur en þeirra sem hafa vegna stoðkerfis- eða geðsjúkdóma þurft að hverfa frá námi eða starfi. Þetta er meðal annars rakið til mikillar fjölgunar einhverfugreininga á undanförnum árum.

Í niðurstöðum könnunarinnar eru tilgreindir þættir þar sem bæta megi þjónustu við hóp ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri og er fjallað um hvern þeirra í stuttu máli. Þessir þættir eru eftirfarandi og lúta að því að:

 • Efla geðheilbrigðisþjónustu

 • Auka aðgengi að upplýsingum um réttindi fólks og stuðning sem í boði er

 • Samræma vinnubrögð ólíkra kerfa

 • Minnka bið og tafir

 • Auka aðgengi að læknum og öðrum fagaðilum meðan á endurhæfingu stendur

 • Bæta vinnubrögð og aðgengi að upplýsingum um reglur Tryggingastofnunar

 • Stuðla að því að endurhæfingaráætlanir séu raunsæjar og á forsendum þátttakenda

 • Tryggja aðgengi breiðari hóps að endurhæfingu

 • Tryggja fjárhagslegan stöðugleika einstaklinga í endurhæfingu

 • Brúa bilið úr endurhæfingu yfir í nám og starf

 • Auka sveigjanleika starfa á atvinnumarkaði

 • Efla vitund um fordóma


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum