Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Reykjavíkurborg og Stjórnarráðið fengu viðurkenningu fyrir bestu vefi ríkisstofnunar og sveitarfélags

Fulltrúar Reykjavíkurborgar tóku við viðurkenningu fyrir besta vef sveitarfélags. - mynd

Reykjavíkurborg og Stjórnarráðið fengu viðurkenningu fyrir bestu vefi ríkisstofnunar og sveitarfélags á degi upplýsingartækninnar sem fram fór í dag í Reykjavík. Fjallað var um fjölmargar hliðar vef- og upplýsingatækni á vinnustofu og ráðstefnu UT dagsins sem stóð daglangt.

Dómnefnd sem þau Marta Kristín Lárusdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, Tinni Sveinsson, þróunarstjóri hjá 365, og Margrét Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður almannatengsla hjá Samtökum iðnaðarins, skipuðu kynnti niðurstöðurnar á vinnustofu UT dagsins sem fram fór fyrir hádegi. Áður hafði Jóhanna Símonardóttir, framkvæmdastjóri Sjá, farið yfir niðurstöðu úttektarinnar Hvað er spunnið í opinbera vefi 2017 og má sjá niðurstöður hennar hér.

Rökstuðningur dómnefndar fyrir viðurkenningunum er eftirfarandi:

reykjavik.is
Mjög auðvelt aðgengi er að upplýsingum, sérstaklega þegar miðað er við að mikið magn upplýsinga er á vefnum. Auðvelt er að finna fyrirfram ákveðið efni. Öflugur fréttaflutningur úr borginni er á vefnum. Forsíða er vel skipulögð og valmyndir skýrar. Notað er orðalag notenda í fyrirsögnum sem talar við notendur. Hönnun vefsins er skýr og litanotkun er góð. Gott er að styðja notendur með litum flokka. Samspil ljósmynda og táknmynda er vel útfært á vefnum. Í heildina litið er góð upplifun af notkun vefsins.

stjornarradid
Mjög gott aðgengi er að upplýsingum á vefnum og flokkar skýrir. Auðvelt er að ná í upplýsingar frá miklu gagnamagni. Auðvelt að ná yfirsýn fyrir fjölþætta starfsemi stjórnarráðsins. Stílhrein hönnun vefsins er lýsandi fyrir hlutverk stjórnarráðsins og skipulag stjórnsýslunnar kemur vel fram. Litanotkun er einföld og í samræmi við hlutverk hans. Myndir gefa vefnum mannlegan blæ. Í heildina litið virkar vefurinn traustur og þjáll á notandann.

Fulltrúar stjórnarráðsins tóku við viðurkenningu fyrir besta vef ríkisstofnunar.

Fulltrúar stjórnarráðsins tóku við viðurkenningu fyrir besta vef ríkisstofnunar. Á myndinni eru frá vinstri: Björn Sigurðsson, Ragnhildur Hjaltadóttir, sem afhenti viðurkenninguna, Sigurður Davíðsson, Bergþóra Njála Guðmundsdóttir og Elísabet M. Jónasdóttir.

Nýjar áskoranir í öryggismálum og persónuvernd

Dagskrá síðari hluta UT dagsins var undir yfirskriftinni Í öruggri sókn á netinu. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, flutti ávarp í upphafi. Hún sagði yfirskriftina endurspegla viðangsefnið og brýnt væri að allir tækju höndum saman um að byggja upp þekkingu og viðbúnað til að takast á við nýjar áskoranir í öryggismálum og persónuvernd. „Þannig byggjum við upp traust og þannig tryggjum við framþróun. Þannig verjum við stjórnsýsluna, stofnanir, sveitarfélög, fyrirtæki og heimili fyrir aðsteðjandi ógnum.“

Ragnhildur sagði árið hafa verið viðburðaríkt á þessu sviði, Ísland hefði komist í efsta sæti meðal þjóða heims á lista Alþjóðafjarskiptasambandsins um stöðu ríkja í upplýsingatækni og fjarskiptum. Þá sagði hún unnið skipulega að því markmiði að 99,9% þjóðarinnar eigi kost á 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu árið 2020 undir landsátakinu Ísland ljóstengt. Hefði verkefnið verið unnið í góðu samstarfi við sveitarfélög og fjarskiptafyrirtæki. Einnig sagði hún áherslu hafa verið lagða á netöryggismál og unnið væri að nýrri löggjöf um net- og upplýsingaöryggi og vísaði til umfjöllunar um það síðar á ráðstefnunni.

Í lok ávarps síns óskaði Ragnhildur fulltrúum Stjórnarráðsins og Reykjavíkurborgar til hamingju með viðurkenningarnar og sagði vefmálin leggja grunn að upplýsingamiðlun ríkis og sveitarfélaga.

Ragnhildur Hjaltadóttir flutti ávarp á UT deginum.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, flutti ávarp á UT deginum.

Eftir ávarp ráðuneytisstjóra voru flutt erindi og fyrst ræddu Einar Birkir Einarsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, um breytingar á skipulagi upplýsingatæknimála hjá ríkinu og mótun nýrrar stefnu. Vera Sveinbjörnsdóttir, lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, fjallaði um heildarlöggjöf um net- og upplýsingaöryggi sem væri handan við hornið og Maria Bada, rannsóknarstjóri hjá Oxford háskóla, flutti erindi sem hún nefndi Deploying the Cybersecurity Capacity Maturity Model for Nations in Iceland: Findings and recommendations.

Síðan var fjallað um eIDAS reglugerðina og samstarf um auðkenningu innan ESB og EES ríkja og ræddu það efni þeir Ólafur Egill Jónsson, lögfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Sigurður Már Jónsson, deildarstjóri hugbúnaðarlausna hjá Advania. Dagurinn endaði síðan á pallborðsumræðum um hvernig fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög undirbúa sig fyrir nýtt persónuverndarregluverk.

  • Frá UT deginum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira