Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Aukið samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar

Guðlaugur Þór og Halldór Benjamín Þorbergsson undirrita samninginn - mynd
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, undirrituðu í dag samstarfssamning sem felur í sér að stjórnvöld og atvinnulífið taka höndum saman um að efla þjónustu við útflutnings- og markaðsmál íslenskra fyrirtækja til að auka slagkraft þeirra á erlendum mörkuðum. Mun Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins, sinna hlutverki erindreka um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar.

Samkvæmt samningnum munu Samtök atvinnulífsins veita ráðuneytinu ráðgjöf við undirbúning að stefnumótun og framkvæmd á vegum atvinnulífs og stjórnvalda um enn frekari eflingu stuðningskerfis við útflutning og markaðssetningu Íslands erlendis, auk annarrar ráðgjafar um mikilvæg hagsunamál sem varða íslenskt atvinnulíf. Byggist samstarfið meðal annars á tillögum sem lagðar eru fram í skýrslum á borð við Áfram Ísland og „Utanríkisþjónusta til framtíðar – hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi“.

„Frá því að ég tók við embætti hefur áhersla verið lögð á að efla utanríkisviðskiptaþjónustuna. Þeim hugmyndum var komið blað í skýrslu um framtíð utanríkisþjónustunnar. Með þessu og öðrum aðgerðum erum við að hrinda hugmyndunum í framkvæmd,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

„Til að viðhalda 3% hagvexti næstu 20 ár þarf að auka útflutningstekjur íslensku þjóðarinnar um 1000 milljarða króna. Íslenskir viðskiptahagsmunir i útlöndum spyrja ekki um rekstrarform. Samvinna atvinnulífsins og íslenskra stjórnarerindreka á erlendri grundu mun ráða miklu um hvort okkur tekst að skapa og nýta viðskiptatækifæri næstu áratuga til að standa undir vaxandi lífsgæðum til lengri tíma. Við vitum hvað við þurfum að gera til að standa undir hagvaxtarspám, við þurfum að auka útflutning um 1 milljarð króna í hverri einustu viku og það mun ekki gerast að sjálfu sér,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Bergþóra nýr erindreki

Á grundvelli ofangreinds samnings mun Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins, sinna hlutverki erindreka um samstarf atvinnulífsins og utanríkisþjónustunnar.

Bergþóra er með meistaragráðu í alþjóðalögfræði og viðbótargráður bæði í alþjóðasamskiptum og frönsku. Í starfi sínu hjá Samtökum atvinnulífsins hefur hún sinnt alþjóðlegu samstarfi, sem fastafulltrúi samtakanna gagnvart BusinessEurope, Evrópusamtökum atvinnurekenda, sem fulltrúi atvinnurekenda í sendinefndum Íslands á þingi Alþjóðavinnumálastofnunar (ILO) og í norrænu samstarfi. Þá hefur Bergþóra sinnt margvíslegu samráði við innlend stjórnvöld fyrir hönd samtakanna þ.á m. við utanríkisráðuneytið á sviði EES-samningsins, Brexit og Iceland vörumerkjadeilunnar. Áður starfaði hún m.a. hjá Samkeppniseftirlitinu, fyrir sendinefnd Öryggis- og samvinnuráðs Evrópu (ÖSE) og hjá Embætti sérstaks saksóknara.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira