Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálaáætlun 2019-2023: Styrkari samfélagsinnviðir, lægri skattar og betri þjónusta

Í fyrstu fjármálaáætlun ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks endurspeglast áherslur ríkisstjórnarinnar um að samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og að samfélagslegur stöðugleiki og lífsgæði verði treyst til framtíðar.

Í áætluninni er tryggð áframhaldandi jákvæð afkoma opinberra fjármála og stuðlað að ábyrgð og festu í opinberri starfsemi. Styrkari staða ríkissjóðs, lægri vaxtagreiðslur og horfur um minnkandi spennu í hagkerfinu skapa ríkisstjórninni góða stöðu til að fylgja eftir markmiðum um auknar fjárfestingar í samfélagsinnviðum og styrkingu velferðarþjónustu.

Frá 2013 hafa skuldir ríkissjóðs verið lækkaðar um 600 ma.kr. Á sama tíma hefur landsframleiðslan vaxið umtalsvert og er nú meiri en nokkru sinni fyrr, en þess má geta að hún hefur tvöfaldast frá árinu 1998. Aukin efnahagsleg umsvif og lægri vaxtagjöld í kjölfar skuldalækkunar hafa skapað nauðsynlegt svigrúm í ríkisrekstrinum. Þrátt fyrir verulega aukin framlög til allra helstu málefnasviða helst samneysla ríkisins, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, stöðug yfir áætlunartímann eða í kringum 11,2%. Aukin framlög haldast því í hendur við getu þjóðarbúsins til að fjármagna betri þjónustu við almenning.

Samneysla

 

Verulegar fjárfestingar í innviðum

Fjárfestingar vaxa umtalsvert á árinu 2019 eða um 13 ma. kr. og ná hámarki á árinu 2021. Alls er gert ráð fyrir að á tímabilinu 2019-2023 nemi fjárfestingar í útgjaldarömmum málefnasviða um 338 ma.kr.

Umfangsmikil fjárfesting í samgöngu- og fjarskiptamálum verður meðal annars fjármögnuð með arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Alls er reiknað með að framlög nemi 124 ma.kr. á tímabilinu og að frá árinu 2019 bætist við sérstök árleg framlög til þriggja ára upp á 5,5 ma.kr. Gert ráð fyrir að ljósleiðaravæðingu landsins ljúki árið 2020.

Alls er gert ráð fyrir tæplega 75 ma.kr. í fjárfestingu í sjúkrahússþjónustu og fer mest til byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Framkvæmdir við byggingu nýs meðferðarkjarna hefjast á árinu 2018 en meginþungi framkvæmda verður á árunum 2020-2023.

Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir að ráðist verði í uppbyggingu á innviðum og önnur verkefni á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og öðrum ferðamannastöðum.

Af öðrum stærri fjárfestingum má nefna kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, uppbyggingu hjúkrunarheimila og Hús íslenskunnar.

Betri þjónusta og aukin þróunarsamvinna

Framlög til heilbrigðismála verða í lok tímabilsins um 249 ma.kr. á ári, og hafa þá uppsafnað aukist um 40 ma.kr. frá fjárlögum 2018, eða rúmlega 19% að raunvirði. Fyrir utan uppbyggingu Landspítala og raunvöxt í heilbrigðiskerfinu er lögð sérstök áhersla á geðheilbrigðismál, að efla heilsugæsluna og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga.

Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála verða um 226 ma.kr. árið 2023. Uppsöfnuð aukning framlaga nemur 28 ma.kr. og hækkar um rúmlega 14% að raunvirði. Gert er ráð fyrir kerfisbreytingu til að bæta kjör örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Einnig er áformað að hækka hámarksfjárhæðir í fæðingarorlofi og lengja orlofstímann.

Í mennta- og menningarmálum ber hæst verulega vaxandi framlög til háskólastigsins. Framlög til háskóla voru aukin um ríflega 2 ma.kr. í fjárlögum 2018 og er á áætlunartímanum gert ráð fyrir að framlög til sviðsins hækki um ríflega 2,8 ma kr. Framlög á hvern nemanda á framhaldsskóla- og háskólastigi hækka. Á sviði menningar og lista verður lögð áhersla á aðgerðaáætlun um máltækni, höfuðsöfn verða efld og faglegir starfslauna- og verkefnasjóðir listamanna styrktir.

Framlög til umhverfismála verða aukin um tæplega 4 ma.kr. yfir tímabilið og hækka þannig um 35% frá fjárlögum ársins 2017. Unnið verður að stofnun Miðhálendisþjóðgarðs, stutt myndarlega við landvörslu og framlög aukin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, í samræmi við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Auk 900 m.kr. aukningar vegna almanna- og réttaröryggis í fjárlögum 2018 er nú gert ráð fyrir að framlög verði aukin um nærri 14% á árinu 2019. Er þar miðað að því að bæta landamæravörslu og samþætta landamærastjórnun, meðal annars á grundvelli skuldbindinga Íslands vegna Schengen-samstarfsins. Því til viðbótar verða framlög aukin um rúmlega 800 m.kr. einkum til að styrkja löggæslu og rekstur Landhelgisgæslunnar. Áfram fara umtalsverðir fjármunir til aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota.

Á sviði utanríkismála má nefna að framlög til opinberrar þróunarsamvinnu aukast úr 0,26% af vergum þjóðartekjum á yfirstandandi ári í 0,35% árið 2022. Framlög til uppbyggingarsjóðs EES fara hækkandi á tímabilinu og gert er ráð fyrir aukningu vegna varnarsamstarfs við Bandaríkin og aðildar að Atlantshafsbandalaginu.

Lægri skattar og sanngjarnari bótakerfi

Áfram er stefnt að því að draga úr álögum, gera skattheimtu sanngjarnari og tryggja skilvirkt skatteftirlit. Ríkisstjórnin mun eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins um samspil tekjuskatts og bótakerfa á árinu, en í áætluninni er gengið út frá að tekjuskattur lækki í neðra skattþrepi og geti lækkað um 1 prósentustig í áföngum á áætlunartímanum. Um leið er stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga, samhliða endurskoðun bótakerfa. Þar er horft til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og vegna húsnæðis­kostnaðar, með markvissari fjárhagslegum stuðningi við efnaminni heimili.

Gert er ráð fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,25% á árinu 2019, úr 6,85% í 6,6%. Frekari lækkun ræðst m.a. af niðurstöðu samráðs við aðila vinnumarkaðarins um útfærslu réttinda, sem fjármögnuð eru með tryggingagjaldi, og afkomu ríkissjóðs.

Virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn í byrjun árs 2019 og ári síðar verða höfundaréttargreiðslur, sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta, skattlagðar sem eign en ekki tekjur.

Sérstakur bankaskattur verður lækkaður úr 0,376% í 0,145% á áætlunartímabilinu. Skattaívilnun vegna þróunarkostnaðar verður aukin á árinu 2019 og stefnt að afnámi þaksins síðar á tímabilinu. Skattstofn fjármagnstekjuskatts verður endurskoðaður með það að markmiði að skattleggja raunávöxtun, en áhrif þeirra breytinga koma fram árið 2020.

Í upphafi árs var kolefnisgjald á eldsneyti hækkað um 50% og er fyrirhugað að hækka gjaldið um 10% árið 2019 og aftur 2020. Skoðaðar verða leiðir til gjaldtöku af ferðamönnum. Miðað er við að gjaldið verði lagt á frá og með árinu 2020.

Gott samstarf við vinnumarkaðinn og áframhaldandi skuldalækkun

Ágætt jafnvægi er í hagkerfinu um þessar mundir eftir kröftugan vöxt undanfarin ár. Samkvæmt opinberum hagspám og efnahagslegum greiningum er útlit fyrir hægari hagvöxt á næstu árum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að gott samstarf takist milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að varðveita efnahagslegan stöðugleika og efla velferð. Þannig megi stuðla að farsælli niðurstöðu í kjarasamningum næstu ára sem varðveiti óvenju mikla kaupmáttaraukningu síðustu ára með hóflegum launahækkunum og skili heimilunum áfram auknum kaupmætti.

Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af rekstri ríkis og sveitarfélaga öll ár áætlunarinnar í samræmi við þá fjármálastefnu sem lögð var fram samhliða fjárlögum ársins 2018 og Alþingi hefur nú samþykkt. Góður árangur hefur náðst við að lækka skuldir ríkissjóðs frá því þær náðu hámarki árið 2012. Stefnt er að því að heildarskuldir hins opinbera samkvæmt viðmiðum laga um opinber fjármál fari undir lögboðið 30% viðmið í árslok 2019, eða ári fyrr en fjármálastefnan gerir ráð fyrir og verði um 22% í árslok 2023.

Töflur á xlsx sniði

Töflur á csv sniði

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum