Hoppa yfir valmynd
11. september 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2019

Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Mynd/Pressphotos - mynd
 • 29 ma.kr. afgangur af rekstri ríkissjóðs
 • Minni álögur á launafólk – persónuafsláttur hækkar
 • Barnabætur verða hækkaðar
 • Heilbrigðismál í forgangi – framlög aukin um verulega
  • Hærri framlög til heilsugæslu
  • Geðheilbrigðisþjónusta efld
  • Aukinn kraftur í byggingu nýs Landspítala
  • Áhersla á uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimila
 • Framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála aukin verulega
 • 25 ma.kr. í stuðning vegna húsnæðis
 • Áframhaldandi lækkun skulda
 • Áhersla á fjárfestingar í innviðum
 • Aukin framlög til loftslagsmála

Jákvæð útkoma þrátt fyrir vaxandi útgjöld

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2019 er lagt fram á Alþingi í dag. Gert er ráð fyrir að afgangur á heildarafkomu ríkissjóðs verði 1% af vergri landsframleiðslu árið 2019 eða um 29 milljarðar króna. Þetta er í samræmi við afkomumarkmið fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar, en rekstur ríkissjóðs hefur verið jákvæður síðustu ár þrátt fyrir verulegan vöxt útgjalda, sérstaklega til heilbrigðismála og félags-, trygginga- og húsnæðismála.

Alls aukast heildargjöld ríkissjóðs milli ára um 7% að nafnvirði, eða um ríflega 55 milljarða króna, en á móti er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs aukist um tæplega 52 milljarða. Er ljóst að þetta er við efri mörk mögulegs útgjaldavaxtar. Við þeim vexti verður brugðist með reglulegu endurmati á útgjöldum til þess að unnt sé að tryggja sem besta ráðstöfun fjármuna.

 

Helstu áherslumál

 

Framlög til heilbrigðismála verða aukin á árinu 2019 og vega þar þyngst framkvæmdir við nýjan Landspítala en áætlað er að verja 7,2 ma.kr. til þeirra á næsta ári. Auk þess verða framlög aukin vegna byggingar og rekstrar hjúkrunarheimila. Hækkun framlaga til heilbrigðismála milli 2018 og 2019 nemur 12,6 milljörðum króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. Einnig er verulega er aukið við framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála en þar nemur heildarhækkunin 13,3 ma.kr. að frátöldum launa- og verðlagshækkunum.

Áfram er lögð áhersla á fjárfestingar í innviðum. Til viðbótar við uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut er gert ráð fyrir 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála sem skýrist fyrst og fremst af sérstöku átaki í samgöngumálum á árunum 2019-2021 sem fjármagnað verður með tímabundnum umframarðgreiðslum fjármálafyrirtækja líkt og boðað var í gildandi fjár­mála­áætlun. Gert er ráð fyrir að framlög til samgöngu- og fjarskipta­mála verði aukin um 9% á árinu 2019 en framlög til málaflokksins verða ríflega 43,6 ma.kr. 

Af öðrum stærri fjárfestingarverkefnum má nefna fyrstu framlög til kaupa á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, sem gert er ráð fyrir að verði afhentar árið 2022, auk uppbyggingar Húss íslenskunnar.

Rúmir 25 milljarðar króna í stuðning vegna húsnæðis

Á næsta ári er gert ráð fyrir að stuðningur vegna húsnæðis aukist um ríflega 900 miljónir króna. Þá verður stuðningurinn alls um 25,4 milljarðar króna en hann er veittur eftir nokkrum ólíkum leiðum, svo sem í formi húsnæðisbóta, stofnframlaga til byggingar almennra íbúða og vaxta­bóta. Einnig er húsnæðisstuðningur veittur með skattastyrkjum vegna almenns séreignar­sparnaðar­úrræðis og stuðnings til fyrstu kaupa, auk undanþágu leigutekna frá skatti, afsláttar á stimpilgjöldum vegna fyrstu kaupa og endurgreiðslu á virðisaukaskatti til byggjenda vegna sölu og leigu íbúðarhúsnæðis og til fasteignaeigenda vegna viðhaldsvinnu.

Minni álögur á launafólk

Á næsta ári verður unnið að fyrstu áföngum í breytingum á samspili tekjuskatts- og bótakerfa, sem er eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Í febrúar lýsti ríkisstjórnin því yfir að í tengslum við endurskoðun kjarasamninga á almennum markaði yrði hafin endurskoðun á tekjuskattskerfinu með áherslu á  lækkun skattbyrði og mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa. Því er samhliða frumvarpi til fjárlaga lagt til að gripið verði til aðgerða sem miða að því að liðka fyrir samningum á vinnumarkaði.

Lagt er til að persónuafsláttur hækki um 1 prósentustig umfram lög­bundna 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs á árinu 2019. Jafnframt er gert ráð fyrir því að hækkun þrepamarka efra skattþreps verði miðuð við vísitölu neyslu­verðs, en tenging marka efra þrepsins við vísitölu launa skapar ákveðið misræmi þar sem persónu­afsláttur­inn og þar með skattleysismörkin fylgja vísitölu neysluverðs. Við því er nú brugðist með því að festa mörk efra þrepsins við vísitölu verðlags. Við þetta verður jafnræði milli ólíkra tekjuhópa gagnvart skattkerfinu meira og skattgreiðslur almennings lækka um 1,7 ma.kr.

Samhliða hækkun persónuafsláttar og tengingu þrepmarka efra skattþreps við vísitölu neyslu­­verðs verða barnabætur hækkaðar verulega, eða sem svarar til 1,6 ma.kr. frá gildandi fjárlögum. Það felur í sér 16% hækkun milli áranna 2018 og 2019. Auk hækkunar fjárhæða og viðmiðunarmarka skerðingar barnabóta er í fjárlögum gert ráð fyrir nýju þrepi skerðingar á barnabótum sem er ætlað að tryggja að hækkunin skili sér fyrst og fremst til lágtekju- og lægri millitekjuhópa. Vaxtabætur hækka einnig, um sem nemur 13% frá áætlaðri útkomu 2018.

Í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019 er lagt til að trygginga­gjald lækki í ársbyrjun 2019 um 0,25 prósentustig og aftur um 0,25 prósentustig í ársbyrjun 2020. Samanlagt þýðir þetta um 9,3% lækkun á gjaldinu. Er aðgerðinni ætlað að stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði og því að launahækkanir á næsta ári leiði síður til verðbólgu.

Góð staða efnahagsmála

Þrátt fyrir að hægist á vexti er hann enn umtalsverður og talsvert meiri en flest þróuð hagkerfi í Evrópu geta vænst. Staða efnahagsmála telst góð á flesta mælikvarða eins og endur­speglast í mati lánshæfisfyrirtækjanna á ríkissjóði, en lánshæfiseinkunn Íslands hefur jafnt og þétt hækkað síðustu ár og er nú metin A/A-1 og A hjá S&P Global og Fitch, með stöðugum horfum en A3 með jákvæðum horfum hjá Moody‘s. Núverandi einkunnir grundvallast á háum þjóðartekjum, sterkum stofnunum, góðum lífs­kjörum og viðskiptaumhverfi.

 
 

Markviss lækkun skulda

Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt síðustu ár. Heildarskuldir hafa lækkað um 658 milljarða króna á sex árum og hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkað úr 86%, þegar það var hæst árið 2011, í 31% í lok þessa árs. Frá miðju ári 2017 til miðs árs 2018 lækkuðu skuldir ríkissjóðs um 88 ma.kr. en það samsvarar því að skuldir hafi lækkað um 10 milljónir á klukkustund. Vegna þessara aðgerða munu skuldir ríkissjóðs fara undir viðmið fjármálareglna laga um opinber fjármál í fyrsta sinn árið 2019. Útlit er fyrir að hrein vaxtagjöld verði um 26 milljörðum lægri árið 2019 en árið 2011.

 

Auk þess sem skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar hafa háar fjárhæðir verið greiddar inn á lífeyrisskuldbindingar, en þessar aðgerðir auka sjálfbærni ríkisfjármálanna til langs tíma litið og koma í veg fyrir að núlifandi kynslóðir taki út lífskjör á kostnað þeirra sem á eftir koma. Áformuð stofnun Þjóðarsjóðs með lagasetningu á þessu þingi, sem ætlað er að safna upp arði af orkuauðlindum, getur stutt við þessa stefnu um sjálfbærni opinberra fjármála.

Framsetning fjárlagafrumvarps

Fjárlög byggjast á fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Lögð eru fram tvö skjöl, annars vegar frumvarpið sjálft og hins vegar fylgirit. Fylgiritið sýnir meðal annars skiptingu fjárheimilda í fjárveitingar til ríkisaðila í A-hluta, verkefna og í varasjóði málaflokka.

Nánari upplýsingar um fjárlagafrumvarp fyrir 2019 eru á fjárlagasíðu Stjórnarráðsins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira