Hoppa yfir valmynd
9. október 2018 Félagsmálaráðuneytið

Fyrsti fundur þingmannanefndar um málefni barna

Nýskipuð samráðsnefnd þingmanna sem falið hefur verið að endurskoða barnaverndarlög og leggja til aðrar breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar til að skapa heildarsýn í málefnum barna og þjónustu við þau, fundaði í fyrsta sinn í dag. Nefndin mun starfa að þessu viðamikla verkefni í samvinnu við sérfræðinga stjórnsýslunnar, fagfólk og hagsmunaaðila.

Nefndin er skipuð að frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem boðað hefur endurskoðun á barnaverndarlögum, félagslegri umgjörð í málefnum barna og þjónustu við börn á landsvísu. Markmiðið er að tryggja að hagsmunir barna hafi ávallt forgang, stuðla að snemmtækri íhlutun og samfelldri þjónustu þegar hennar er þörf. Með þetta að leiðarljósi undirrituðu fimm ráðherrar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga viljayfirlýsingu nýlega um aukið samstarf á málefnasviðum sem snúa að velferð barna.

Þverpólitísk nálgun mikilvæg

Ásmundur Einar segir þverpólitíska nálgun verkefnisins nauðsynlega í jafn viðamiklum og flóknum málaflokki og um ræðir: „Það er þó ljóst að þrátt fyrir góðan vilja og metnað margra eru ýmsar hindranir fyrir hendi í núverandi kerfi sem torvelda samspil milli ólíkra hluta þess sem þurfa að vinna saman. Hagsmunir barna krefjast þess að horft sé heildstætt á alla þætti kerfisins sem eiga að vernda þau og veita þeim þjónustu. Til að svo megi verða þurfa allir að leggjast á eitt, almenningur, fagfólk og fólk sem starfar á vettvangi stjórnmálanna. Ég hef miklar væntingar til vinnu nefndarinnar og er þakklátur þeim þingmönnum sem hafa ákveðið að leggja tíma og vinnu í þetta mikilvæga verkefni." 

Áætlað er að haustið 2019 liggi fyrir þverpólitísk afstaða þingmannanefndarinnar til breytinga á skipulagi barnaverndarstarfs í landinu, sem og afstaða þeirra stjórnvalda sem hlutverki hafa að gegna á málefnasviðinu.

Formaður nefndarinnar er Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar. Með nefndinni starfar Erna Kristín Blöndal, lögfræðingur og verkefnastjóri í málefnum barna hjá velferðarráðuneytinu. Nefndinni til aðstoðar verður þverfaglegur hópur starfsmanna ráðuneyta, auk annarra sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Aðrir nefndarmenn eru:

  • Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks
  • Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar
  • Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs
  • Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata
  • Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins
  • Ómar Ásbjörn Óskarsson, varaþingmaður Viðreisnar
  • Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokks

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira