Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp um breytingar á lögum vegna brottfalls laga um kjararáð

 Alþingi - mynd Mynd: iStock

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu taka mið af tillögum starfshóps forsætisráðherra um málefni kjararáðs sem skilaði skýrslu í febrúar.

Í tillögum starfshóps var gert ráð fyrir að kjararáð yrði lagt niður og tekið upp nýtt fyrirkomulag við ákvörðun launa þeirra sem undir það heyrðu. Með lögum nr. 60/2018 var kjararáð lagt niður frá og með 1. júlí 2018.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum með það að markmiði að koma á fót nýju fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem féllu undir 1. gr. laganna um kjararáð:

  1. Laun þjóðkjörinna manna, ráðherra, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð í júní ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.
  2.  Laun dómara, saksóknara, ráðuneytisstjóra og ríkissáttasemjara verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð fyrir dagvinnu og álagi fyrir yfirvinnu miðað við tiltekið tímamark og þau síðan endurákvörðuð í júní ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.
  3. Laun og starfskjör forsetaritara og nefndamanna í fullu starfi hjá nokkrum úrskurðarnefndum verði ákvörðuð með hliðsjón af því launafyrirkomulagi sem ákveðið er í 39. gr. a laga nr. 70/1996.
  4.  Laun og starfskjör tveggja skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, sem fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga, verði ákveðin af ráðherra með hliðsjón af kjarasamningi þeim sem aðrir skrifstofustjórar Stjórnarráðsins falla undir.
  5. Laun og starfskjör sendiherra falli undir kjarasamninga og að viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd.

Í ljósi eðlis nokkurra starfa er ekki rétt að framkvæmdavaldið hafi aðkomu að ákvörðun launa og starfskjara þeirra sem þeim gegna vegna sjónarmiða um sjálfstæði starfanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í frumvarpinu er því lagt til, sbr. skýrslu starfshópsins um málefni kjararáðs, að laun þessara aðila verði fest við ákveðna krónutölufjárhæð sem taki mið af síðasta úrskurði kjararáðs um viðkomandi starf. Jafnframt er lagt til að krónutölufjárhæðin verði endurákvörðuð ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins eins og þær birtast í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár. Þannig geti laun hækkað tvisvar á ári svo að launahækkanir þessara aðila verði jafnari og nær almennri þróun kjaramála í tíma. Með frumvarpinu er lagt til að laun hækki í fyrsta skipti 1. júlí 2019. Þetta á við um þjóðkjörna menn, dómara, ráðherra, ráðuneytisstjóra, ríkissáttasemjara, saksóknara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra.

Hér að neðan má sjá myndir sem sýna launaþróun og launasetningu þeirra sem um ræðir í samanburði við þróun annarra hópa.

 

Á línuritinu sést að á árunum 2006-2016 fylgdi launaþróun kjörinna fulltrúa almennri launaþróun.  Launaþróun þeirra sem heyrt hafa undir kjararáð hefur verið mun óreglulegri en flestra annarra hópa. Í því samhengi er athyglisvert er að horfa til lækkunar og frystingar á launum kjörinna fulltrúa á árunum 2008 -2011 sem kom ekki fram með sama hætti hjá öðrum hópum. Á tímabilum hafa laun kjörinna fulltrúa hækkað minna en önnur laun í landinu en síðan tekin ákvörðun um hlutfallslega miklar launahækkanir.

Til þess að stuðla að gagnsæi, reglulegum tímasetningum og rökstuddum ákvörðunum er mikilvægt að nýtt launafyrirkomulag kjörinna fulltrúa sé staðfast og fylgi þróun kjara á vinnumarkaði með fyrirsjáanlegum hætti.

  


Tíundastuðullinn sýnir hlutfallið á milli heildarsummu þeirra launþega sem tilheyra efstu tíund og neðstu tíund starfsmanna ríkisins.

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira