Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðir til að styrkja mönnun á sviði hjúkrunar

Aðgerðir til að styrkja mönnun á sviði hjúkrunar - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sent bréf til opinberra heilbrigðisstofnana þar sem þeim er falið að fjalla um og útfæra tilteknar aðgerðir sem hafa það markmið að laða fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa og styrkja mönnun á sviði hjúkrunar.

Eins og rakið er í bréfinu er skortur á hjúkrunarfræðingum innan heilbrigðisþjónustunnar alvarlegt vandamál  sem vegur að öryggi hennar, stendur í vegi fyrir því að unnt sé að veita nauðsynlega þjónustu og nýta innviði heilbrigðiskerfisins að fullu. Ríkisendurskoðun og Embætti landlæknis hafa ítrekað bent á þessa alvarlegu stöðu og vandanum hefur einnig verið lýst af hálfu heilbrigðisstofnana. Nauðsyn þess að fá fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa í heilbrigðisþjónustunni er skýr. Til þess er meðal annars brýnt að laða til starfa hjúkrunarfræðinga sem leitað hafa í önnur störf og einnig að finna leiðir sem stuðla að því að hjúkrunarfræðingar í hlutastörfum sækist eftir hærra starfshlutfalli.

Skortur á hjúkrunarfræðingum var tekinn til umfjöllunar að frumkvæði heilbrigðisráðherra á fundi ráðherranefndar um samræmingu mála þann 1. nóvember 2018 þar sem einnig áttu sæti forsætisráðherra, fjármálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Á fundinum kynnti heilbrigðisráðherra 18 tillögur að aðgerðum til að bregðast við vandanum, laða fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa og bæta mönnun. Þann 21. desember síðastliðinn fór málið aftur fyrir ráðherranefnd um samræmingu mála sem ákveðið var að heilbrigðisráðherra myndi fela heilbrigðisstofnunum að fjalla um og útfæra tilteknar aðgerðir með þetta að markmiði.

Tillögurnar sem um ræðir snúa meðal annars að heilsueflingu og bættu starfsumhverfi, endurskoðun réttinda til sí- og endurmenntunar, endurskoðun á vinnufyrirkomulagi og verkaskiptingu til að tryggja betur skilvirka og örugga þjónustu, innleiðingu stjórnunarhátta á stofnunum þar sem byggt er á umboði til athafna og rými til nýsköpunar og þróunar í starfi, leiðum til að fjölga verknámsstöðum á viðkomandi heilbrigðisstofnun og auknu svigrúmi hjúkrunarfræðinga til að sinna kennslu í starfi.

Því er beint til heilbrigðisstofnananna að við umfjöllun og útfærslu þessara tillagna verði höfð hliðsjón af samningum við samanburðarstéttir og að einnig verði horft til annarra heilbrigðisstétta eftir því sem það á við þar sem þörf er á aðgerðum til að tryggja mönnun.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira