Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamálaráðherra Noregs fundar með Lilju

Jan Tore Sanner ráðherra menntamála og aðlögunar í Noregi fundaði með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í gær. Sanner er staddur hér á landi í tengslum við fund samstarfsráðherra Norðurlanda sem fram fer í dag. Ráðherrarnir ræddu meðal annars áskoranir í menntamálum eins og stöðu barna af erlendum uppruna, áhrif tækni á skólastarf, stöðu drengja í skólakerfinu og skólasókn í framhaldsskólum. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi kennarastarfsins og ræddu stöðu kennara í löndunum tveimur.

„Samband Íslands og Noregs byggir á sterkum grunni. Í fyrra heimsótti ég Noreg og kynnti mér hvernig Norðmenn hafa mætt ýmsum áskorunum sem við erum vinna með. Þeir hafa náð góðum árangri í að auka aðsókn í kennaranám þrátt fyrir lengingu námsins í fimm ár. Að sama skapi eiga þeir góðu gengi að fagna þegar kemur að iðn-, verk- og starfsnámi en hlutfall þeirra sem stunda slíkt nám er talsvert hærra í Noregi en hér á landi. Til þessa höfum við meðal annars horft við mótun menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030, við getum margt lært af Norðmönnum,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Ráðherrarnir ræddu einnig mikilvægi norrænnar samvinnu og samstarfs í menntamálum en það er vilji beggja auka slíkt samstarf. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár en í formennskuáætlun Íslands er meðal annars sérstök áhersla lögð á ungt fólk og menntun. Meðal verkefna sem unnið er að á þeim vettvangi er verkefnið „Menntun fyrir alla“ sem miðar að því að Norðurlöndin verði í fararbroddi við innleiðingu á samnefndu heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna. Verkefnið nær til allra skólastiga og lýtur að því að þjónusta og stuðningur við menntakerfi landanna verði í fremstu röð og að einstaklingar hafi tækifæri til fjölbreytts náms og starfa, án aðgreiningar. Aukinheldur verða á formennskuári Íslands haldnar ráðstefnur um málefni leikskóla á Norðurlöndum, gæði í háskólastarfi og stuðning við nýútskrifaða kennara.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum