Hoppa yfir valmynd
25. mars 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðuneytið hlýtur jafnlaunavottun

Frá vinstri: Anna Ósk Kolbeinsdóttir, Davíð Lúðvíksson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sturla Sigurjónsson og Berglind Bragadóttir. - myndUtanríkisráðuneytið

Utanríkisráðuneytið hefur hlotið jafnlaunavottun frá Vottun hf. sem er staðfesting þess að jafnlaunakerfi ráðuneytisins samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012.
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra og Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri veittu í dag viðtöku skírteini þessu til staðfestingar ásamt þeim Önnu Ósk Kolbeinsdóttur mannauðs- og launafulltrúa og Berglindi Bragadóttur stjórnarráðsfulltrúa.  Davíð Lúðvíksson úttektarmaður afhenti skírteinið fyrir hönd Vottunar hf.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. 

Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Óháður aðili er fenginn til að staðfesta að viðkomandi stofnun eða fyrirtæki starfræki stjórnunarkerfi sem uppfyllir ákveðnar kröfur, m.a. um að málefnaleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi við ákvörðun launa og þau feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Ráðuneytið fór í gegnum vinnu við jafnlaunavottun á árinu 2018 og hefur vottunin nú tekið gildi.

Unnið hefur verið að innleiðingu jafnlaunavottunar á vegum Stjórnarráðsins á síðustu mánuðum og nær öll ráðuneyti hafa nú hlotið vottun.

Nánar um jafnlaunavottun

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 5 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum