Hoppa yfir valmynd
27. mars 2019 Utanríkisráðuneytið

Óháð félagasamtök lýsa yfir ánægju með framgöngu Íslands

Guðlaugur Þór Þórðarson flytur ræðu í mannréttindaráðinu í síðastliðnum mánuði - myndUtanríkisráðuneytið

Fertugustu fundarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf lauk sl. föstudag. Þetta var í annað sinn sem Ísland tók þátt sem aðildarríki ráðsins eftir að hafa verið kosið í ráðið í sérstökum aukakosningum í New York 13. júlí á síðasta ári. Óháð félagssamtök sem starfa náið með mannréttindaráðinu hafa lýst yfir ánægju með framgöngu Íslands í fundarlotunni.

Mannréttindaráðið afgreiddi 29 ályktanir á fimmtudag og föstudag. Þar ber einna hæst sérstaka ályktun um mannréttindaástandið í Níkaragva. Þá var samþykkt sérstök ályktun um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er 30 ára á þessu ári. Ennfremur lagði Ísland ríkulega lóð á vogarskálar hvað varðar samþykkt tveggja ályktana sem teljast sæta tíðindum. Önnur snýr að vernd þeirra sem berjast fyrir mannréttindum er tengjast umhverfismálum og kemur hún beint inn í umræðu sem fær sífellt meira vægi, ekki síst fyrir tilstilli ungs fólks.

Hin ályktunin er söguleg, borin upp af Suður-Afríku og fjallar um konur og stúlkur í íþróttum en þetta er fyrsta ályktunin sem áréttar að einstaklingar eigi ekki að þurfa að undirgangast ónauðsynlegar aðgerðir og íhlutanir og viðurkennir í fyrsta skipti réttindi fólks með óhefðbundin kyneinkenni. Ísland studdi þessa ályktun með virkum hætti og hjálpaði til við að veita henni brautargengi.

Þá voru samþykktar ályktanir um málefni Írans, Sýrlands, Suður-Súdan, Ísraels og Palestínu, Malí og Srí Lanka, svo fátt eitt sé nefnt.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra undirstrikaði í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að mannréttindi væru hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands. „Við erum stolt af því að hafa látið verkin tala um leið, jafnvel þorað á meðan aðrir þegja, og vonum að gagnrýnin skili árangri. Ekkert er gefið í þeim efnum – en dropinn holar steininn.“

Óháð félagssamtök sem starfa náið með mannréttindaráðinu hafa lýst yfir ánægju með framgöngu Íslands í fundarlotunni, ekki síst fyrir að leiða gagnrýni á mannréttindaástandið í Sádi-Arabíu. Með ræðunni sem Ísland flutti fyrir hönd ríkjanna 36 hafi ráðið sent eindregna stuðningsyfirlýsingu til þeirra sem berjast fyrir mannréttindum í landinu og það sé lofsvert

Bæði utanríkisráðherra og félags- og barnamálaráðherra sóttu fundi í mannréttindaráðinu að þessu sinni og flutti utanríkisráðherra ávarp í sérstakri ráðherraviku en félagsmálaráðherra tók þátt í sérstakri umræðu um réttindi barna. Alls fluttu fulltrúar Íslands átján ávörp í umræðum í mannréttindaráðinu í þessari fundarlotu, þ. á m. tvær fyrir hönd Norðurlandanna allra sem og Eystrasaltsríkjanna (NB8) og svo eina fyrir hönd 36 ríkja um mannréttindaástandið í Sádí Arabíu en sameiginlega ræðan um Sádí Arabíu þótti vera eitt hið markverðasta sem gerðist í þessari fundarlotu mannréttindaráðsins.

Þess utan átti Ísland aðild að fjórum NB8-ræðum til viðbótar og þremur norrænum ræðum, sem fulltrúar annarra ríkja en Íslands fluttu. Að síðustu má nefna tíu ræður til viðbótar sem fluttar voru af öðrum en í nafni fjölda ríkja, þ.m.t. Íslands, s.s. um ástand í Venesúela, í tilefni Alþjóðlegs baráttudags kvenna 8. mars sl. og um ofsóknir gegn hinsegin fólki í Tétsníu. Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands, stýrði enn fremur fundum ráðsins alls sjö sinnum en hann er einn varaforseta þess.

Allar ræður Íslands úr 40. fundarlotu mannréttindaráðsins eru aðgengilegar á vef Stjórnarráðsins sem og allar ræður sem Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin fluttu sameiginlega. Mannréttindaráðið birtir yfirlit um niðurstöðu atkvæðagreiðslna á vefsíðu sinni.

41. fundarlota mannréttindaráðsins fer fram í júní og í byrjun júlí og verða jafnréttismál meðal annars í brennidepli. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira