Hoppa yfir valmynd
13. september 2019 Dómsmálaráðuneytið

Aðgerðaráætlun gegn peningaþvætti komin á vefinn

Aðgerðaráætlun stjórnvalda til að bregðast við áhættumati ríkislögreglustjóra um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hefur verið birt á vef stjórnarráðsins. Þar er einnig að finna stefnu stjórnvalda í málaflokknum.

Aðgerðaráætlunin er einn af mörgum þáttum sem stjórnvöld hafa gripið til vegna úttektar Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á stöðu Íslands. FATF gerði fjölmargar athugasemdir við stöðu mála hér á landi í úttekt sinni á stöðu mála 2018. Íslensk stjórnvöld fengu frest til að bæta úr þeim athugasemdum og hefur verið unnið að því síðan að bæta úr og bregðast við þeim.

Nýverið birti FATF skýrslu um stöðu Íslands sem lýtur að laga og regluverki og er niðurstaða hennar sú að af 40 tilmælum FATF, séu 28 uppfyllt eða að mestu leyti uppfyllt, 11 séu uppfyllt að hluta og ein tilmæli teljist óuppfyllt. Aðgerðir sem Ísland hefur unnið að frá áramótum sem snúa meðal annars að regluverki um raunverulega eigendur, frystingu fjármuna, útgáfu fræðsluefnis og fræðslufundi, mæta að miklu leyti þeim tilmælum sem útaf standa.

Með þessum aðgerðum er það mat stjórnvalda að sá þáttur athugasemdanna sem snýr að laga og regluverki séu komin í viðunandi horf. Auk þess að meta fylgni Íslands við tilmæli FATF er nú yfirstandandi úttekt á skilvirkni þeirra aðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til, sem eru meðal annars:

  • stofnun nýs eftirlitsaðila innan embættis ríkisskattstjóra sem hefur eftirlit með þeim aðilum sem ekki lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins, og tryggja þannig að allir tilkynningarskyldir aðilar samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka lúti eftirliti
  • umfangsmikil laga- og reglusetning, meðal annars ný heildarlög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, lög um skráningu raunverulegs eiganda, lög um frystingu fjármuna, reglugerð um áhættusöm ríki, reglugerð um áreiðanleikakönnun og reglugerð um millifærslu fjármuna
  • fjölgun stöðugilda við eftirlit, rannsóknir og saksóknir á málum sem tengjast peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
  • umfangsmikil útgáfa fræðsluefnis, bæði af hálfu eftirlitsaðila og stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
  • fræðslufundir sem stjórnvöld hafa haldið fyrir tilkynningarskylda aðila og almannaheillafélög
  • innleiðing nýs kerfis hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu vegna móttöku tilkynninga um grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka
  • útgáfa áhættumats um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka
  • aukið samstarf og samhæfing stjórnvalda í gegnum stýrihóp um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og samstarfssamninga
  • aukið áhættumiðað eftirlit með tilkynningarskyldum aðilum

Niðurstöðu úr mati FATF á skilvirkni þeirra aðgerða sem Ísland hefur gripið til er að vænta 18. október næstkomandi

Hér má finna aðgerðaráætlunina og stefnu stjórnvalda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira