Hoppa yfir valmynd
27. september 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mælaborð sem ætlað er að varpa ljósi á velferð barna kynnt í Hörpu

Mælaborðið verður kynnt á ráðstefnunni Breytingar í þágu barna 2. október næstkomandi. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fundaði í dag með Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs og fleiri hlutaðeigandi aðilum um stöðuna á vinnu við mælaborð sem varpar ljósi á velferð barna.

Félagsmálaráðuneytið, Kópavogsbær, hugbúnaðarfyrirtækið Kara connect og UNICEF á Íslandi undirrituðu í lok júní síðastliðinn samstarfssamning um þróun mælaborðs sem ætlað er að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna. Samningurinn hljóðar upp á að bærinn vinni sérstaklega að mælaborði um velferð barna í sveitarfélaginu. Mælaborðinu er ætlað að vinna og greina gögn í þeim tilgangi að mögulegt verði að sjá sem allra best á hvaða sviðum þurfi að bregðast við og hvort viðbrögðin skili tilætluðum árangri.

Vinnan við mælaborðið er vel á veg komin og er meiningin að kynna það á ráðstefnunni Breytingar í þágu barna sem haldin verður í Hörpu miðvikudaginn 2. október næstkomandi. Þar verða fyrstu tillögur að nýju velferðarkerfi fyrir börn og fjölskyldur kynntar og er mælaborðið mikilvægur hlekkur í því.

„Mælaborðinu er ætlað að mæla velferð barna, gefa til kynna hvar þarf að grípa til aðgerða og meta svo hvernig til tekst þannig að aðgerðirnar séu raunverulega að skila sér í aukinni velferð barna og fjölskyldna. Því er ætlað að tryggja rétta stýringu aðgerða og þar með betri nýtingu fjármuna. Vonir standa til þess að í náinni framtíð muni það svo geta nýst hverju og einu sveitarfélagi og þar með landinu öllu,“ segir Ásmundur Einar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum