Hoppa yfir valmynd
17. október 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra flutti ávarp á 20 ára afmæli Samtaka atvinnulífsins

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti ávarp á ársfundi Samtaka atvinnulífsins þar sem jafnframt var fagnað 20 ára afmæli samtakanna. 

Forsætisráðherra ræddi um aðdraganda lífskjarasamninganna, þau verkefni sem eru framundan við að bæta umgjörð kjarasamninga og standa við fyrirheit stjórnvalda um félagslegar umbætur, s.s. lengingu fæðingarorlofs, úrbætur á húsnæðismarkaði, aðgerðir til að sporna gegn félagslegum undirboðum og mansali og skattkerfisbreytingar. Ennfremur ræddi hún um nauðsyn þess að allir aðilar leggi sig fram um að skapa sátt á vinnumarkaði. Þá ræddi hún um mikilvægi þess að atvinnulífið taki virkan þátt í að draga úr losun kolefnis og stuðli að kolefnishlutleysi. Að lokum ræddi hún um stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði og mikilvægi þess að öll kyn sitji við borðið þegar ákvarðanir eru teknar. Sérstaklega ræddi hún um kynjahallann í æðstu stöðum í íslensku atvinnulífi og gagnrýndi einkageirann fyrir að hafa ekki tekið betur við sér á sviði jafnréttismála. Hún lauk ræðu sinni á eftirfarandi orðum:

„Hér á landi höfum við átt því láni að fagna að undanförnu að við höfum verið að taka framfaraskref, hvort sem er í samskiptum á vinnumarkaði, samstarfi um loftslagsmál eða samstarfi innan stjórnmálanna. Við eigum hins vegar mörg verk eftir óunnin. Gleymum því aldrei að sáttin byggist alltaf á því að við veitum öllum jöfn tækifæri, tryggjum félagslegt réttlæti samhliða blómlegu efnahagslífi og að við göngum ekki á umhverfisleg gæði heldur tryggjum jafnvægi í sambúð manns og náttúru.“

Auk forsætisráðherra flutti Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins ávarp. Þá fóru Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, yfir farinn veg, það sem hefur áunnist frá 1999 og drógu upp mynd af þeim áskorunum sem eru framundan.

Ræða forsætisráðherra á ársfundi Samtaka atvinnulífsins 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum