Hoppa yfir valmynd
10. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mikilvægt skref í rafbílavæðingu – hleðslubúnaður í fjöleignarhúsum

 Til að draga úr kolefnislosun þarf að sögn Ásmundar Einars Daðasonar að sjá til þess að almenningur hafi greiðan aðgang að þeim innviðum sem nauðsynlegir eru við orkuskiptin. Frumvarpið er liður í því. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mun á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús sem lýtur að hleðslubúnaði fyrir rafbíla.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum til að skýra þær reglur sem gilda um slíkan búnað í fjöleignarhúsum og liðka fyrir rafbílavæðingu í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti.

„Markmið okkar allra er að draga úr kolefnislosun. Til að svo geti orðið þarf að sjá til þess að almenningur hafi greiðan aðgang að þeim innviðum sem nauðsynlegir eru við orkuskiptin og er frumvarpið liður í því,“ segir Ásmundur Einar.

Frumvarpið var samið í félagsmálaráðuneytinu á grundvelli tillagna nefndar sem félags- og barnamálaráðherra skipaði 1. janúar síðastliðinn. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá félagsmálaráðuneytinu, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Húseigendafélaginu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að almennt þurfi ekki samþykki annarra eigenda fyrir því að hleðslubúnaði verði komið upp fyrir rafbíla við eða á stæði á lóð fjöleignarhúss nema það leiði til þess að meira en helmingur sameiginlegra og óskiptra bílastæða verði eingöngu til notkunar fyrir rafbíla. Er þó gert ráð fyrir aðkomu húsfélagsins að slíkum framkvæmdum og ákvörðunartöku um útfærslu þeirra og val á búnaði

Þá er lagt til að kveðið verði á um hvernig kostnaður vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla skiptist á eigendur fjöleignahúss. Eins er lagt til að minni hluti eigenda geti í undantekningartilfellum krafist þess að framkvæmdum verði frestað í allt að tvö ár á meðan safnað verði fyrir þeim í sérstakan framkvæmdasjóð. Enn fremur er lagt til að húsfélögum verði fengin heimild til að krefjast hóflegrar mánaðarlegrar þóknunar frá þeim eigendum sem nýta hleðslubúnað fyrir rafbíla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum