Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Opnað fyrir móttöku umsókna um Schengen-áritanir í þremur indverskum borgum

Sendiráð Íslands í Nýju-Delí opnaði í dag móttöku fyrir umsóknir um Schengen-vegabréfsáritanir til Íslands í þremur borgum á Indlandi með milligöngu þjónustufyrirtæksins VFS Global. Ísland hefur að undanförnu tekið í auknum mæli ábyrgð á útgáfu Schengen-áritana á Indlandi og í Kína.

Um er að ræða borgirnar Chandigarh, Goa og Kolkata og bætast þær við borgirnar Bangalore, Mumbai og Nýju-Delí þar sem hægt hefur verið að leggja inn umsókn til íslenska sendiráðsins í Nýju-Delí frá 1. október 2019. Til stendur að opna afgreiðslustaði í þremur borgum til viðbótar á Indlandi þann 3. febrúar n.k. og tveimur borgum þann 2. mars n.k.

Danska sendiráðið í Nýju-Delí hefur undanfarin ár séð um afgreiðslu umsókna og útgáfu Schengen-áritana til Íslands, en með opnun afgreiðslustaða í fyrrgreindum borgum tekur íslenska sendiráðið alfarið yfir afgreiðsluna á Indlandi. Er það m.a. liður í að bæta þjónustuna við erlenda ferðamenn sem hingað koma frá Indlandi og styðja um leið við íslenska ferðaþjónustu.

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem fram fór í Borgarnesi í september undirrituðu Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, nýjan samning varðandi vegabréfsáritanaútgáfu til erlendra ferðamanna og er undirritun samningsins liður í því ferli að Ísland annist sjálft þessa útgáfu á þeim svæðum þar sem álagið hefur verið mest á fyrirsvarsríkin.

Þannig er búist við að í lok þessa árs verði útgáfa vegabréfsáritana til kínverskra ferðamanna á leið til Íslands alfarið í höndum íslenska sendiráðsins í Peking og miðlægrar áritanadeildar í utanríkisráðuneytinu.  Á undanförnum mánuðum hefur ábyrgð á nokkrum móttökustöðvum um umsóknir áritana til Íslands færst frá Dönum til sendiráðsins og sinnir það nú borgunum Nanjing, Fuzhou, Hangzhou, Wuhan, Chengdu, Xi‘an og Chongqing. Alls starfa í Kína fimmtán slíkar stöðvar og er ætlunin að sinna þeim öllum og bæta þar með þjónustu sendiráðsins við kínverska ferðamenn.

Síðar á þessu ári er vonast til að tilskilin leyfi hafi fengist frá kínverskum stjórnvöldum þannig að ábyrgð á áritunum til kínverskra ferðamanna verði alfarið í höndum sendiráðsins og munar þar mestu um stórborgirnar Shanghai, Guangzhou og Shenzhen. 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira