Hoppa yfir valmynd
23. mars 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Áhrif COVID-19 á pakkaferðir

Áhrif kórónaveirunnar á veitingu ferðatengdrar þjónustu eru nú orðin veruleg. Stjórnvöld víðs vegar um heim hafa gripið til margvíslegra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar sem hafa m.a. falist í ferðabanni þar sem ferðamönnum er ýmist meinuð koma eða íbúum meinað að ferðast frá sínum heimalöndum. Þessar ráðstafanir hafa haft afgerandi áhrif á samgöngur og aðra ferðatengda þjónustu.

Um pakkaferðir gilda lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Samkvæmt lögunum skal ferðaskipuleggjandi endurgreiða ferðamanni þær greiðslur sem hann hefur greitt vegna pakkaferðar sem er aflýst eða afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar. Endurgreitt skal innan 14 daga frá aflýsingu eða afpöntun pakkaferðar.

Útbreiðsla kórónaveirunnar getur talist til óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna en meta þarf atvik og aðstæður hverju sinni. Við matið þarf m.a. að horfa til ráðstafana sem stjórnvöld hér á landi og í öðrum löndum hafa gripið til vegna útbreiðslu veirunnar. Þannig hafa íslensk stjórnvöld ráðið Íslendingum frá ferðalögum og hafa hvatt Íslendinga á ferðalagi erlendis til að íhuga að flýta heimför. Sóttvarnalæknir hefur gefið út áhættumat með skilgreindum svæðum með mikla smitáhættu. Þá hafa fjölmörg ríki nú lokað landamærum sínum vegna útbreiðslu veirunnar og sett hefur verið bann við samkomum 20 manns eða fleiri hér á landi.

Til viðbótar við endurgreiðslurétt ferðamanna geta ferðamenn samþykkt breytingu á pakkaferð, svo sem með breyttum dagsetningum eða annarri sambærilegri ráðstöfun. Þannig geta ferðamenn til dæmis samþykkt að taka við inneignarnótu fyrir nýrri pakkaferð í stað endurgreiðslu.

Á grundvelli laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun skulu skipuleggjendur með ferðaskrifstofuleyfi frá Ferðamálastofu hafa tryggingu fyrir endurgreiðslu allra greiðslna sem þeim hafa verið greiddar vegna pakkaferða sem ekki verða framkvæmdar vegna ógjaldfærni eða gjaldþrots. Komi til gjaldþrots skipuleggjanda með ferðaskrifstofuleyfi geta þeir ferðamenn sem hafa ekki fengið fulla endurgreiðslu fyrir gjaldþrot því gert kröfu í tryggingarfé viðkomandi skipuleggjanda og eftir atvikum fengið fulla endurgreiðslu.

Inneignarnótur sem bera skýrt með sér að vera greiðsla vegna pakkaferðar falla að mati atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins undir tryggingaverndina. Taki ferðamenn við inneignarnótu í stað endurgreiðslu vegna pakkaferðar  munu ferðamenn geta gert kröfu í tryggingarfé skipuleggjanda verði hann ógjaldfær eða gjaldþrota áður en inneignarnótan er nýtt. Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi eru vegna útbreiðslu kórónaveirunnar bendir ráðuneytið ferðamönnum á að rétt er að huga vel að því hvort það úrræði geti nýst þeim.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira