Hoppa yfir valmynd
4. maí 2020 Heilbrigðisráðuneytið

​Nýjar reglur um takmarkanir á samkomum hafa tekið gildi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Á miðnætti aðfaranótt 4. maí tóku gildi nýjar reglur heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum. Fjöldamörk hafa verið hækkuð úr 20 í 50 manns, takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum hafa verið felldar niður og sömuleiðis vegna íþróttaiðkunar og æskulýðsstarfs barna á leik- og grunnskólaaldri. Framhalds- og háskólar hafa verið opnaðir á ný og ýmsir þjónustuveitendur opnuðu í morgun dyr sínar fyrir viðskiptavinum. Áfram gildir reglan um tveggja metra nálægðartakmörk hjá fullorðnum og gæta þarf að hreinlæti og sóttvörnum líkt og áður.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þá tilslökun á samkomubanni sem felst í nýjum reglum mikilvægt skref í mörgu tilliti: „Þessu fylgja margvísleg jákvæð áhrif á daglegt líf okkar sem smám saman færist nær þeim veruleika sem við áttum áður að venjast. Það er mikilvægt að við höldum áfram vöku okkar, stöndum saman og fylgjum gildandi reglum. Það hefur reynst okkur vel hingað til og er ein meginástæða þess að hér á landi hefur tekist eins vel og raun ber vitni að hafa stjórn á útbreiðslu veirunnar, verja heilbrigðiskerfið og síðast en ekki síst að vernda þau sem eru viðkvæmust fyrir veikindum “ segir Svandís Svavarsdóttir.

Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar með þeim reglum sem nú hafa tekið gildi er meðfylgjandi og á vefnum Covid.is má sjá spurningar og svör um framkvæmd þeirra. Í dag voru einnig afnumdar takmarkanir á heilbrigðisþjónustu, m.a. varðandi valkvæðar skurðaðgerðir og ífarandi rannsóknir.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum