Hoppa yfir valmynd
5. maí 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir plastfrumvarpi á Alþingi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi sem kveður á um bann við að setja tilteknar, algengar einnota plastvörur á markað.

Meginmarkmið frumvarpsins er að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks og ýta undir notkun margnota vara.

Meðal vara sem bannað verður að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, hnífapör, diskar, sogrör, hræripinnar og blöðruprik, sem og matarílát, drykkjarílát bollar og glös úr frauðplasti. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.
Sömuleiðis er lagt til að óheimilt verði að afhenda endurgjaldslaust einnota bolla, glös og matarílát úr plasti, sem ætluð eru undir drykki og matvæli til neyslu beint úr viðkomandi íláti. Gjaldið skal vera sýnilegt á kassakvittun.

Einnota drykkjarílát sem eru með tappa eða lok úr plasti verður einungis heimilt að setja á markað ef lokið er áfast ílátinu á meðan það er notað. Það er gert til þess að tappar og lok endi ekki á víðavangi, heldur fylgi með flöskum alla leið í endurvinnslu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að vörur sem gerðar eru úr svokölluðu oxó-plasti verði bannaðar en eðli þess er að sundrast í öragnir sem eru skaðlegar umhverfi. Vörur úr slíku plasti eru nokkuð algengar, s.s. vissar tegundir plastpoka.

Í frumvarpinu er kveðið á um sérstaka merkingu sem tilteknar einnota plastvörur eiga að hafa um hvernig meðhöndla eigi vöruna eftir notkun og þau neikvæðu áhrif sem hún hefur berist hún í umhverfið. Þetta á m.a. við um ýmsar tíðavörur, blautþurrkur, og bolla og glös fyrir drykkjarvörur.

Í öllum tilfellum eru fáanlegar staðgönguvörur sem eru margnota eða innihalda ekki plast sem nota má í stað þeirra plastvara sem frumvarpið tekur til.

Með frumvarpinu er innleidd að stærstum hluta ný Evróputilskipun sem er fyrst og fremst beint að ýmsum algengum plastvörum sem finnast helst á ströndum. Tilskipuninni er einnig ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og draga úr myndun úrgangs. Gert er ráð fyrir að lögin taki að stærstum hluta gildi 3. júlí 2021.

Spurt og svarað um bann við einnota plastvörum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum