Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um bann við einnota plastvörum

Bann við að setja á markað tilteknar, algengar einnota plastvörur á markað tók gildi 3. júlí 2021.

Lögunum er ætlað að draga úr áhrifum plasts á umhverfið og heilsu fólks. Þeim er fyrst og fremst beint að þeim plastvörum sem finnast helst á ströndum. Ætlunin er einnig að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og koma í veg fyrir myndun úrgangs, með því að styðja við notkun sjálfbærra og fjölnota vara fremur en einnota.

Plast er að stórum hluta gert úr óendurnýjanlegum auðlindum og það er yfirleitt endingargott. Það er líka yfirleitt eðlislétt og fýkur auðveldlega undan veðri og vindum. Þegar plast berst út í náttúruna brotnar það ekki niður og hverfur, heldur verður að sífellt minni ögnum, svokölluðu örplasti. Plast hefur slæm áhrif á vistkerfi dýra. Þegar dýr taka plast í misgripum fyrir fæðu getur plastið stíflað meltingarvegi þeirra og valdið kvalafullum dauðdaga. Þar fyrir utan getur örplast safnast fyrir í dýrum, borist upp fæðukeðjuna og endað í mönnum. Stundum eru í plasti óæskileg efnasambönd eins og þalöt, BPA, brómeruð eldvarnarefni og fleira sem getur safnast fyrir í náttúrunni og haft slæm áhrif á heilsu manna og dýra.

Í skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins sem gefin var út árið 2016 var því spáð að ef fram héldi sem horfði yrði meira af plasti í sjónum en fiski árið 2050. Plast hefur fundist á mesta dýpi sjávar, í ísjökum á Norðurpólnum, fjallstindum í Sviss, í fiskum í Amazon og skordýrum í Wales. Þá hafa rannsóknir sýnt að örplast finnst í drykkjarvatni í öllum heimsálfum. Það á líka við um Ísland. Þá hefur Umhverfisstofnun látið gera rannsóknir á Íslandi sem leiddu í ljós að plast er að finna í um helmingi kræklings og hátt í 70% fýla við strendur landsins.


Lögin eiga að leiða til minni notkunar á einnota vörum úr plasti. Samhliða minni notkun má búast við að það dragi úr streymi plasts út í umhverfið og að líkur minnki á því að plast komist inn í fæðukeðju mannsins eða valdi dýrum skaða. Lögin munu hafa jákvæð áhrif á frárennsli, notkun auðlinda, sjónræn áhrif og á myndun úrgangs. Samfélagslegur ávinningur verður ótvíræður, með bættu umhverfi og minni plastmengun.
Með lögunum er innleidd að stórum hluta tilskipun sem öðlaðist gildi innan Evrópusambandsins árið 2019, en kom að mestu leyti til framkvæmda 3. júlí 2021. Tilskipunin hefur verið tekin upp í EES samninginum.

Frá og með 3. júlí 2021 er bannað að setja á markað:

  • bómullarpinna úr plasti (nema þeir falli undir lög um lækningatæki)
  • plasthnífapör (gaffla, hnífa, skeiðar og matprjóna)
  • plastdiska
  • sogrör úr plasti (nema þau falli undir lög um lækningatæki)
  • hræripinna fyrir drykkjarvörur, úr plasti,
  • plastprik á blöðrur
  • matarílát úr frauðplasti, með eða án loks, undir tilbúinn mat sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu. T.d. ílát undir skyndibita eða ísrétti.
  • drykkjarílát úr frauðplasti, þ.m.t. tappar þeirra og lok. T.d. ílát undir kaffi, mjólkurhristinga eða aðra hristinga.
  • allar vörur úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun, t.d. burðarpoka úr sk. oxó-plasti.

Annað er ekki bannað.

Einungis er bannað að setja á markað þær vörur sem auðveldlega má skipta út fyrir aðrar vörur sem fáanlegar eru á markaði og eru margnota og/eða innihalda ekki plast.


Frá og með 3. júlí 2021 má ekki lengur afhenda ókeypis:

  1. plastbolla og -glös fyrir drykkjarvörur, þ.m.t. lok þeirra, svo sem undir kaffi, gosdrykki, bjór, safa, ,,smoothie“ eða aðra hristinga.
  2. matarílát úr plasti, með eða án loks, sem ætluð eru undir tilbúin matvæli sem er alla jafna neytt beint úr ílátinu. T.d. ílát undir skyndibita, ávexti, salat eða ísrétti. Þetta á ekki við um umbúðir sem vafið er utan um matvæli, t.d. samlokur eða sælgæti. 

Það eru seljendur sem ákveða sjálfir upphæð gjaldsins og það þarf að koma fram á kassakvittun. Um er að ræða sambærilega ráðstöfun og tók gildi varðandi burðarpoka þann 1. september 2019.


Eyrnapinnar úr plasti eru bannaðir, nema þér séu skilgreindir sem lækningatæki.

Eyrnapinna sem ekki innihalda plast er áfram leyfilegt að selja.
Lögin gilda hér á landi, í lofthelgi og efnahagslögsögu landsins. Markmiðið er að draga úr notkun tiltekinna plastvara hér á landi þ.m.t. í flugvélum til og frá landinu. Almennt eru plastvörur sem lögin taka til ekki seldar í flugvélum en ákvæði laganna um gjald fyrir drykkjarílát úr plasti á við um flugvélar.
Efni laganna er í samræmi við almenna stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir 2016-2027; Saman gegn sóun, sem og aðgerðaáætlun ráðherra í plastmálefnum sem gefin var út í september 2020. Þá má einnig nefna að umhverfisráðherrar Norðurlandanna skrifuðu undir yfirlýsingu hér á landi 10. apríl 2019 um að vera leiðandi á alþjóðavísu við að draga úr umhverfisáhrifum vegna plasts.
Bannið gildir einungis um vörur sem taldar eru upp í svari 5 og skiptir þá ekki máli hvar þessar vörur eru notaðar. Á þessu eru tvær undantekningar; ef bómullarpinnar eða sogrör eru skilgreind sem lækningatæki má nota þær vörur í heilbrigðisþjónustu.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum