Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2020 Matvælaráðuneytið

Skýrsla verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni afhent ráðherra

Verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni hefur afhent Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lokaskýrslu sinni. Ráðherra skipaði verkefnastjórnina í mars 2019 til þess að fjalla um þær athugasemdir og ábendingar sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í desember 2018 um Eftirlit Fiskistofu og gera tillögur um úrbætur í rekstri Fiskistofu einkum er varðar verklag og áherslur er snúa að eftirlitshlutverki hennar. Enn fremur var verkefnastjórninni falið að leggja mat á fjárþörf Fiskistofu til að hún geti sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum og að lokum að setja fram ábendingar um nauðsynlegar breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem varða hlutverk og viðfangsefni stofnunarinnar til að tryggja skilvirkni í störfum hennar.

Ráðherra skipaði  samráðshóp til að styðja við starf verkefnastjórnarinnar með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, stofnana og helstu hagaðila í sjávarútvegi til ráðgjafar um hvernig bæta megi eftirlit með nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar.

Niðurstöður verkefnastjórnar

Nokkrar af helstu tillögum sem fram koma í skýrslu verkefnastjórnarinnar eru:

  • Landhelgisgæslu Íslands verði falið aukið hlutverk við framkvæmd sjóeftirlits en að Fiskistofa fari með stjórnsýsluþátt verkefnisins og beri ábyrgð á áhættustýringu þess að höfðu samráði við Landhelgisgæsluna. Skilgreind verði ábyrgð og verkefnaskipting Fiskistofu og Landhelgis­gæslu við sjóeftirlit.
  • Að innleidd verði áhættustýring og áhættustefna við sjóeftirlit og vigtun sjávarafla.
  • Gerðar verði auknar kröfur um búnað sem nýtist við eftirlit með endur- og heimavigtun sjávarafla.
  • Fiskistofa hefji tilraunir með notkun myndavélakerfa til eftirlits, bæði um borð í skipum og í höfnum.Huga jafnframt að fleiri tækninýjungum sem gætu sparað kostnað og styrkt eftirlit til lengdar.
  • Stefna beri að aukinni samvinnu Fiskistofu og greinarinnar um nýtingu þeirra upplýsinga sem safnað er í þeim hátæknikerfum sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru búin.
  • Að komið verði á einu heildstæðu viðurlagakerfi við brotum gegn fiskveiðilöggjöfinni þannig að ávallt séu allar sömu heimildir til staðar til að bregðast við hverskyns brotum á sem virkastan hátt.
  • Að Fiskistofa fái heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir vegna meiri háttar brota gegn fiskveiðilöggjöfinni.
  • Lagðar eru fram tillögur um breytta skilgreiningu á tengdum aðilum.

 

Í verkefnastjórninni áttu sæti:

  • Sigurður Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðandi, formaður
  • Elliði Vignisson, bæjarstjóri
  • Hulda Árnadóttir, lögmaður
  • Oddný Guðbjörg Harðardóttir, alþingismaður
  • Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu

 

Skýrsluna má finna hér.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
14. Líf í vatni
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum