Hoppa yfir valmynd
1. október 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir 2021-2025

Karl Björnsson, Bjarni Benediktsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson við undirskrift samkomulagsins.  - mynd

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga fyrir árin 2021-2025 hefur verið undirritað af fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í tengslum við samkomulagið var einnig undirrituð yfirlýsing sem felur í sér að framlög ríkissjóðs til að veita sveitarfélögum fjárhagslega viðspyrnu nema alls tæpum 5 milljörðum króna.

Í samkomulaginu, sem byggt er á lögum um opinber fjármál og endurnýjað er árlega, er byggt á eftirfarandi spá um afkomu og efnahag sveitarfélaga:

  • Heildarafkoma A-hluta sveitarfélaga mun versna verulega. Reiknað er með að afkoman verði neikvæð um 1,1% af VLF árið 2020, 1,1% 2021 og 0,8% 2022.
  •  Skuldir A-hluta sveitarfélaga geti farið í 7,0% af landsframleiðslu árið 2020 og 8,3% árið 2022. Samkvæmt undirliggjandi horfum mun þurfa að grípa til afkomubætandi ráðstafana til að skuldir sveitarfélaga haldi ekki áfram að vaxa.
  • Meginmarkmið fjármálaáætlunar er að stöðva hækkun skulda hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu fyrir árslok 2025. Þessi markmiðssetning tekur bæði til sveitarfélaga og ríkisins.

Í samkomulaginu eru tilgreind fjöldi verkefna sem gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög vinni saman að á næstu árum. Meðal verkefna er heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, auk endurmats á útgjöldum vegna hjúkrunar¬þjónustu og annarrar þjónustu við aldraðra.

Í tengslum við samkomulagið var einnig undirrituð viljayfirlýsing forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra til að vinna að því að afla fjárheimilda á Alþingi fyrir aðgerðir sem miða að því veita sveitarfélögunum fjárhagslega viðspyrnu og til að verja lögbundna grunnþjónustu. Viðbótarframlög ríkissjóðs nema samtals 3.305 m.kr. og heildarstuðningur til viðspyrnu fyrir sveitarfélögin á grundvelli yfirlýsingarinnar nemur því 4.805 m.kr. Aðgerðirnar sem fjárheimilda verður aflað vegna varða m.a. málefni fatlaðs fólks, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, stóraukinn stuðning við sameiningu sveitarfélaga o.fl. Auk þess verður heimilað að nýta 1.500 m.kr. úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að vega upp á móti lækkun almennra tekju- og útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins.

Koma þessar aðgerðir til viðbótar þeim fjölmörgu efnahagsaðgerðum vegna COVID-19 sem stjórnvöld hafa þegar samþykkt og ríkissjóður fjármagnar og koma sveitarfélögunum til góða með beinum og óbeinum hætti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira