Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ríkisstjórnin skilgreinir forgangsmál vegna hagsmunagæslu gagnvart ESB

Íslenski fáninn - myndSøren Sigfusson / Norden.org

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun lista yfir forgangsmál hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu 2020-21. Á listanum eru einkum mál sem eru í undirbúningi á vettvangi ESB og þar sem íslenskir hagsmunir eru sérstaklega í húfi. Sum málin eru lengra komin og bíða upptöku í EES-samninginn.

Tvö stærstu málefnin sem framkvæmdastjórn ESB hefur sett á oddinn eru hinn svokallaði Græni sáttmáli og Stafræna starfsskráin. Forgangslistinn endurspeglar þetta. Aðrir málaflokkar á listanum eru matvælaöryggi, orkumál, samgöngumál, jafnréttismál, fjármálaþjónusta, peningaþvætti, rannsóknir og nýsköpun, lyfjamál, vinnumarkaðurinn, almannatryggingar og samspil sóttvarna og ferðafrelsis.

Drög að listanum voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 7. september 2020 og bárust fimm umsagnir og hefur verið tekið tillit til þeirra. Þá hefur listinn verið kynntur fyrir utanríkismálanefnd Alþingis.

Sendiskrifstofa Íslands í Brussel og sérfræðingar í ráðuneytum og stofnunum hér á landi munu fylgja því eftir að hagsmuna Íslands sé gætt varðandi þau mál sem eru á listanum. Þá verða sett upp sérstök teymi til að samhæfa nálgun ráðuneyta þar sem viðfangsefni eru þverlæg, sbr. Græna sáttmálann og Stafrænu starfsskrána. Gert er ráð fyrir því að árangur verði metinn og listinn endurskoðaður fyrir upphaf árs 2022.

Meira um hagsmunagæslu Íslands

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum