Hoppa yfir valmynd

Hagsmunagæsla Íslands og bætt framkvæmd EES-samningsins

Undirbúningur og mótun ESB-gerða - þátttaka EES/EFTA ríkja

Afleidd löggjöf ESB, svokallaðar réttargerðir, eða gerðir (e. act), eru þær réttarreglur sem stofnanir ESB setja með heimild í stofnsáttmálum ESB. Þær eru einkum ferns konar; reglugerðir, tilskipanir, ákvarðanir og tilmæli. Þar sem nýjar lagareglur sem varða Evrópska efnahagssvæðið eiga uppruna sinn hjá ESB er hagsmunamál að geta haft áhrif á reglur sem mögulega geta orðið hluti EES-samningsins og þar með hluti af íslenskri löggjöf á endanum.

Fjöldi sérfræðinganefnda og vinnuhópa er framkvæmdastjórn ESB til ráðgjafar þegar undirbúningur að lagasetningu hefst. Fjallað er um tilhögun ákvarðanatöku í 2. kafla VII. hluta EES-samningsins og þar segir meðal annars í 100. gr. að framkvæmdastjórnin skuli tryggja sérfræðingum EFTA/EES-ríkjanna eins víðtæka þátttöku og unnt er á viðkomandi sviðum við undirbúning á drögum að nýrri löggjöf sem síðar eiga að fara fyrir þær nefndir sem eru framkvæmdastjórninni til aðstoðar. EFTA/EES-ríkin eiga möguleika á að hafa áhrif á löggjöf ESB sem er í undirbúningi á þessu stigi, t.d. með þátttöku í fundum slíkra nefnda.

EFTA/EES-ríkin hafa aðgang að nefndum framkvæmdastjórnarinnar en ekki að nefndum ráðs Evrópusambandsins. Að mati EFTA-skrifstofunnar er rúmlega 80% af löggjöf ESB sem fellur undir EES-samninginn samþykkt af framkvæmdastjórninni.

Einnig segir í 99. gr. EES-samningsins að framkvæmdastjórnin skuli óformlega leita ráða hjá sérfræðingum EFTA-ríkjanna á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkja ESB við undirbúning að nýrri löggjöf á því sviði sem EES-samningurinn tekur til. Þegar framkvæmdarstjórnin sendir tillögur sínar til ráðs Evrópusambandsins er afrit sent EFTA-ríkjunum og þá geta farið fram skoðanaskipti um tillögurnar í sameiginlegu EES-nefndinni.

Löggjafarferli Evrópusambandsins má einkum skipta í þrjú stig, það er forstig (e. pre-pipeline aquis), vinnslustig (e. pipeline aquis) og samþykktar gerðir (e. adopted acquis). Mikilvægt er fyrir EFTA-ríkin að reyna að hafa áhrif á efni lagatillagna eins fljótt og unnt er og getur gefist tækifæri til þess á forstigi þegar framkvæmdastjórnin leggur fram stefnumarkandi skjöl og skýrslur, svokallaðar grænbækur og hvítbækur (e. green paper, white paper), eða í sumum tilvikum orðsendingar (e. communications), sem fela í sér ráðagerðir eða beinar tillögur að nýjum reglum.

Efst á baugi

Utanríkisþjónustan sinnir margháttaðri hagsmunagæslu innan EES-samstarfsins. Í því felst að koma til skila sjónarmiðum Íslands við mótun löggjafar innan Evrópusambandsins, fylgjast með umfjöllun um málefni sem varða íslenska hagsmuni innan stofnana ESB og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri eftir þörfum. Jafnframt felur það í sér að semja um nauðsynlegar aðlaganir við upptöku gerða í EES-samninginn og leysa úr hugsanlegum vandkvæðum sem íslensk fyrirtæki eða ríkisborgarar kunna að standa frammi fyrir á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í september 2016 samþykkti ríkisstjórnin forgangslista fyrir hagsmunagæslu í EES-samstarfinu. Forgangslistinn var endurskoðaður fyrir árið 2018 og þar eru skilgreind þau hagsmunamál Íslands sem eru brýnust af þeim málefnum sem eru í lagasetningarferli innan Evrópusambandsins. Forgangslistinn var unninn í samvinnu allra ráðuneyta og að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila. Spannar listinn allt frá loftslagsmálum til reglna um útsenda starfsmenn. Munu íslensk stjórnvöld fylgjast með framvindu þeirra mála, sem tiltekin eru á forgangslistanum, og koma sjónarmiðum Íslands á framfæri við umfjöllun um þau innan stofnana ESB. Gengið er út frá því að listinn verði endurskoðaður um mitt ár 2018 og árangur þá metinn.

Samkvæmt EES-samningnum hefur Ísland margvísleg tækifæri til að hafa áhrif á mótun nýrra EES-reglna. Mikilvægt er að nýta þau sem best. Til að mynda býðst íslenskum sérfræðingum þátttaka í sérfræðingahópum sem framkvæmdastjórnin hefur samráð við um mótun löggjafar. Ísland á sæti (án atkvæðisréttar) í stjórnarnefndum þeirra undirstofnana framkvæmdastjórnar ESB sem EFTA-ríkin innan EES eru þátttakendur í og þá er íslenskum ráðherrum oft boðin þátttaka í óformlegum ráðherrafundum ESB. Utanríkisráðuneytið hyggst leggja aukna áherslu á upplýsingastreymi til sérfræðinga í stjórnsýslunni og hagsmunaaðila um hvaða Evrópulöggjöf sé í farvatninu og ekki síst til Alþingis, skv. 8. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála, og auka aðkomu þess að hagsmunagæslunni. Samráð við önnur EFTA-ríki hefur m.a. verið aukið í þessu skyni.

Nýi EES-gagnagrunnurinn gefur tækifæri til aukins samráðs innan stjórnarráðsins. Um 250 sérfræðingar innan stjórnsýslunnar hafa nú aðgang að gagnagrunninum og geta nýtt hann til að vinna sameiginlega greiningarvinnu á stefnumótandi skjölum um mótun löggjafar í ESB inn í grunninum. Einnig gefur grunnurinn heildaryfirsýn yfir ferli EES-gerða allt frá mótunarstigi til upptöku í samninginn, innleiðingar í íslenska löggjöf og hugsanlegrar málsmeðferðar sem tengist gerðunum hjá Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum. Ekki hvað síst þarf að vinna með skipulegum hætti að því að koma sjónarmiðum Íslands á framfæri í umræðu um stefnumótun ESB, innan stofnana þess og gagnvart aðildarríkjunum og nýta möguleika sem Ísland hefur til að taka virkan þátt í mótun löggjafar ESB. Því markmiði verður einungis náð með því að koma á framfæri afstöðu Íslands við stofnanir og aðildarríki Evrópusambandsins og afla henni fylgis. Stefnt er að því að gera upplýsingar úr gagnagrunninum aðgengilegar Alþingi, hagsmunaaðilum og almenningi til að auka og auðvelda aðkomu þeirra að EES-málum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira