Utanríkisviðskipti

 

Öflug viðskipti við útlönd er mikilvæg undirstaða hagvaxtar og velferðar á Íslandi. Á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins er unnið að því að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara og atvinnulífs með því að tryggja þeim bestu viðskiptakjör og aðgang að alþjóðamörkuðum, stuðla að jákvæðu orðspori og alþjóðlegri samkeppnishæfni þeirra. 

Viðskiptaskrifstofa annast samskipti og samstarf Íslands við erlend stjórnvöld, alþjóðleg viðskiptasamtök og stofnanir við gerð og framkvæmd alþjóðlegra og tvíhliða viðskiptasamninga og annan erindrekstur á sviði utanríkisviðskipta. Skrifstofan vinnur einnig náið með innlendum stjórnvöldum, sendiráðum og fastanefndum Íslands, stofnunum og hagsmunasamtökum á sviði utanríkisviðskipta. Viðskiptaskrifstofa annast framkvæmd EES-samningsins, Schengen samstarfið, málefni Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Á viðskiptaskrifstofu starfar deild viðskiptaþjónustu og menningarsamstarfs sem hefur það hlutverk að vera bakhjarl íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi, stuðla að jákvæðu orðspori og kynna íslenskar listir og menningu.

Efst á baugi

Á árinu 2016 nam verðmæti útfluttrar vöru og þjónustu frá Íslandi um 1.186 milljörðum króna. Þar af nam verðmæti vöruútflutnings um 537 milljörðum króna, og verðmæti þjónustuútflutnings um 649 milljörðum króna. Samtals dróst útflutningur saman um 0,2% frá árinu áður, aðallega vegna samdráttar í vöruútflutningi, einkum á iðnaðarvörum og sjávarafurðum. Verðmæti innfluttrar vöru og þjónustu nam á árinu 2016 um 1.034,6 milljörðum króna, þannig að viðskiptajöfnuður var hagstæður um 151,7 milljarða króna. Þar af nam verðmæti vöruinnflutnings um 646 milljörðum króna, og verðmæti þjónustuinn-flutnings nam um 388,6 milljörðum króna.

Lönd í Evrópu eru langstærstu viðskiptalönd Íslands, bæði hvað varðar útflutning og innflutning. Á árinu 2016 var yfir 80% af öllum vöruútflutningi Íslendinga seldur til landa í Evrópu og um 2/3 hlutar alls innflutnings komu frá Evrópulöndum. Hlutfall vöruútflutnings til ESB ríkja (ESB28) var 72,3% en ef Bretland er undanskilið (ESB27) lækkar hlutfall ESB niður í 61%. Ef frá er talið Holland, er Bretland stærsti einstaki markaðurinn fyrir íslenskar vörur árið 2016 (11,3%). Rotterdam-áhrifin svokölluðu skekkja þá mynd sem hagtölur draga upp af Hollandi en miklu magni af áli og einnig fiski er komið þar fyrir í vörugeymslum af hagkvæmniástæðum. Endastaður vörunnar er þá ekki þekktur þegar tollskýrslur eru gerðar. Samkvæmt könnun Hagstofunnar árið 2015, fer þó nokkuð af sjávarafurðum á fjölda annarra markaða, helst til Þýskalands og Frakklands, en ekki reyndist unnt að fá upplýsingar frá útflytjendum um endastöð áls sem er meginuppistaða útflutnings til Hollands (78% árið 2016). Bandaríkin, Japan og Kína voru helstu útflutningslönd Íslands utan Evrópu. Í töflum 2 og 3 hér að neðan má sjá nánari upplýsingar um utanríkisviðskipti á árunum 2015 og 2016.

 

Erfiðleikar hafa verið á nokkrum lykilmörkuðum Íslands. Spáð er tiltölulega hægum hagvexti í Evrópusambandinu, sem er stærsti útflutningsmarkaður Íslands, en það telst til tíðinda að í fyrsta sinn síðan 2008 er spáð hagvexti í öllum aðildarríkjum ESB. Þá þarf að semja að nýju við Bretland, stærsta útflutningsmarkað Íslands, um viðskiptasamband ríkjanna eftir Brexit. Hérlendis hefur einnig dregið til tíðinda. Álframleiðendur finna fyrir aukinni samkeppni frá Kína og íslenskir flugrekendur þurfa einnig að kljást við stóraukna samkeppni. Styrking á gengi krónunnar dregur úr samkeppnishæfni íslenskrar framleiðslu og hugvits sem og Íslands sem áfangastaðar fyrir erlenda ferðamenn.
Íslenska hagkerfið er opið og hagvöxtur er drifinn áfram af útflutningi. Við þessum áskorunum þarf því að bregðast til að verja markaði og störf innanlands og blása til sóknar á öðrum þar sem tækifærin leynast á næstu árum. Útflutningur á þjónustu hefur verið í kröftugum vexti og gegnir ferðaþjónustan þar lykilhlutverki. En ýmsar aðrar þjónustutekjur hafa einnig farið vaxandi undanfarin ár. Heildartekjur vegna notkunar hugverka, sérleyfa og vörumerkja, fjarskipta-, tölvu- og upplýsingaþjónustu, menningar- og afþreyingarþjónustu og annarrar viðskipta- og tækniþjónustu (rannsóknir, sérfræðiráðgjöf, tækniráðgjöf) numu samtals 108 milljörðum króna árið 2015 sem er ríflega tvöfalt meiri tekjur en allur vöruútflutningur til Bandaríkjanna. Stafræna hagkerfið, græna hagkerfið, laxeldi og aukin fullnýting sjávarafurða með aðstoð líftækni getur og hefur opnað nýja markaði, t.d. fyrir fæðubótarefni, lyf og snyrtivörur.

Utanríkisviðskiptastefna Íslands hlýtur að draga mið af breytilegum mörkuðum. Einn þáttur í þróun markaða er mikill vöxtur millistétta í heiminum, hvort sem er í Asíu, Suður-Ameríku og ekki síst Afríku. Hagvísar segja að millistéttin í Kína sé orðin fjölmennari en allir íbúar Bandaríkjanna. Samkvæmt alþjóðlegum samanburðartölum frá OECD er því spáð að neysla og þar með kaupmáttur millistéttarinnar á Indlandi muni aukast fjórfalt á næstu þrjátíu árum og hafa þá farið fram úr Kína. Samanlagt mun neysla millistéttarinnar í þessum tveimur fjölmennustu ríkjum veraldar verða meiri en sambærileg neysla í Bandaríkjunum, Evrópu, öðrum ríkjum Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Tölur um auðsöfnun styðja við sömu sviðsmynd og sýna fram á hægfara lækkandi hlutfall auðs í Bandaríkjunum og Evrópu á meðan Kína og nýmarkaðsríkin fylla skörðin. Íslensk fyrirtæki eru þegar farin að vinna með þessa þróun í huga og viðskiptastefna stjórnvalda þarf einnig að taka mið af þessu á næstu árum og áratugum.

Fréttir
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn