Hoppa yfir valmynd

Utanríkisviðskipti

Öflug viðskipti við útlönd er mikilvæg undirstaða hagvaxtar og velferðar á Íslandi. Á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins er unnið að því að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara og atvinnulífs með því að tryggja þeim bestu viðskiptakjör og aðgang að alþjóðamörkuðum, stuðla að jákvæðu orðspori og alþjóðlegri samkeppnishæfni þeirra. 

Viðskiptaskrifstofa annast samskipti og samstarf Íslands við erlend stjórnvöld, alþjóðleg viðskiptasamtök og stofnanir við gerð og framkvæmd alþjóðlegra og tvíhliða viðskiptasamninga og annan erindrekstur á sviði utanríkisviðskipta. Skrifstofan vinnur einnig náið með innlendum stjórnvöldum, sendiráðum og fastanefndum Íslands, stofnunum og hagsmunasamtökum á sviði utanríkisviðskipta. Viðskiptaskrifstofa annast framkvæmd EES-samningsins, Schengen samstarfið, málefni Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Efnahags og framfarastofnunarinnar (OECD) og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Á viðskiptaskrifstofu starfar deild viðskiptaþjónustu og menningarsamstarfs sem hefur það hlutverk að vera bakhjarl íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi, stuðla að jákvæðu orðspori og kynna íslenskar listir og menningu.

Efst á baugi

Ísland er með opið og útflutningsdrifið hagkerfi. Hlutfall samanlagðs innflutnings og útflutnings af landsframleiðslu var um 100% á árunum 2014-2015 en féll niður í 92% árið 2016 skv. upplýsingum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. Organization for Economic Co-operation and Development, OECD) og hefur að öllum líkindum lækkað enn meira á síðasta ári. Þetta hlutfall er yfir heimsmeðaltali og meðaltali OECD-ríkjanna (<60%) en þó sambærilegt við mörg smærri ríki. Samanlagðar tekjur af vöru- og þjónustuútflutningi drógust saman á milli ára um (19.6) milljarða króna (-1,7%) sem einkum má rekja til samdráttar í vöruútflutningi.

Vöru- og þjónustujöfnuður árið 2017 var hagstæður um 105.1 milljarð kr. samanborið við 155.4 milljarða kr. árið áður. Methalli var á vöruviðskiptum, en hann mældist 178.3 ma. kr. eða um 6,8 % sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og hefur þetta hlutfall ekki verið hærra í áratug. Hins vegar var mikill afgangur af þjónustuviðskiptum og námu tekjur af útflutningi á þjónustu 671.814 ma. kr. Fluttar voru út vörur fyrir 517.648.6 ma.kr. (fob) og inn fyrir 695.907.9 ma.kr. (fob).

Helstu skýringu á auknum vöruskiptahalla milli ára má rekja til styrkingar krónunnar en raungengið var að jafnaði 12% hærra á árinu 2017 en 2016. Þetta jók kaupmátt og gerði innflutning ódýrari. Þannig stóð útflutningur nánast í stað í magni mælt á síðasta ári en innflutningur jókst um 10%, þar af jókst innflutningur neysluvara hraðar en annar innflutningur, eða um 20%. Samdrátt í vöruútflutningi má aðallega rekja til samdráttar í útflutningi sjávarafurða sem bæði á rætur sínar að rekja til styrkingar á gengi krónunnar og sjómannaverkfallsins í byrjun árs 2017. Heildaraflinn jókst þó um 40 þúsund tonn á milli ára (þrátt fyrir 34 þús. tonna samdrátt í þorskafla) en útflutningsverðmæti dróst saman um 35 ma.kr. (-15,1%). Útflutningur á áli jókst hins vegar um 20.7 ma.kr. milli ára, sem fyrst og fremst má rekja til hærra heimsmarkaðsverðs á áli, en greina má aukna eftirspurn eftir áli hjá bílaframleiðendum. Mikil aukning á útflutningi á áli til Spánar hefur leitt til þess að Spánn er orðinn stærsti einstaki útflutningsmarkaður Íslands fyrir vörur.

Útflutningur á vöru og þjónustu árið 2017 nam 1.199.721.8 ma. kr. samanborið við 1.183.9 ma. kr. árið áður. Útflutningstekjur jukust því einungis um 15.8 ma. kr., eða 1,3%. Reyndar hafa útflutningstekjur ekki aukist nema um 8,4% frá árinu 2013. Þá vekur athygli að ef frá eru dregnar tekjur vegna neyslu ferðamanna á Íslandi hafa tekjurnar dregist saman um 13% á tímabilinu, eða um 123 milljarða kr.

Ef horft er til styrkingar krónunnar á tímabilinu blasir við önnur mynd og hafa tekjur í erlendum gjaldeyri á þessu tímabili vaxið umtalsvert meira en t.d. það markmið sem Samráðsvettvangur um aukna hagsæld lagði til árið 2012 um tvöföldum útflutningstekna á tímabilinu 2012-2030. Hlutdeild Bandaríkjadals í vöruútflutningi nam tæplega 54% árið 2016, hlutdeild evru 31% og sterlingspunds 7,5%.

Þegar litið er til einstakra þátta þjónustuútflutnings sést að helmingur þjónustutekna er borinn uppi af neyslu ferðamanna (ferðalög) en sá þáttur hefur vaxið um 11,7% samanborið við 35,6% árið áður. Tekjur af farþegaflugi er rúmur fjórðungur þjónustuteknanna og nam vöxtur þeirra 4%. Mikil aukning hefur verið í flugferðum erlendra flugfélaga hingað til lands sem skýrir hraðari vöxt í komu til landsins og neyslu erlendra ferðamanna en í tekjum af flugi en farþegum sem fóru um Leifsstöð fjölgaði um 15,6%. Spáð er umtalsverðum vexti í komu skiptifarþega í tengiflugi á þessu ári, eða aukningu um 33%. Á síðasta ári var Keflavík orðinn fimmti stærsti flugvöllur í heimi fyrir farþega á leið til Bandaríkjanna frá Evrópu. Ferðaþjónustan heldur áfram að vaxa, sérstaklega yfir vetrartímann, en búast má við að fjölgun ferðamanna verði nálægt 11%, samanborið við 24% árið 2017 og 40% árið 2016.

 

Samsetning vöruviðskiptajafnaðarins gefur til kynna að hagsveiflan á Íslandi sé að þróast frá útflutnings- og fjárfestingardrifnum hagvexti yfir í vöxt sem er í auknum mæli drifinn áfram af neyslu og fjárfestingum heimilanna. Mikilvægt verkefni til framtíðar erað hlúa að útflutningsgreinunum bæði hinum hefðbundnu auðlindatengdu útflutningsstoðum og alþjóða- eða hugvitsgeiranum en þar eru vaxtarmöguleikarnir óendanlegir. 

Hagvaxtarhorfur á helstu mörkuðum Íslands fara almennt batnandi. Gert er ráð fyrir meiri hagvexti á evrusvæðinu, í Japan og nýmarkaðsríkjum Asíu en á móti hafa horfurnar versnað í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þessi tvö lönd eru mikilvæg viðskiptalönd Íslands en rúmlega 30% af heildarutanríkisviðskiptum Íslands má rekja til Bandaríkjanna og Bretlands á árinu 2016. 

Sundurliðun á útflutningi þjónustu eftir löndum árið 2017 liggur enn ekki fyrir, en árið 2016 voru stærstu einstöku markaðirnir Bandaríkin (175.412 ma.kr.), Bretland (75.944 ma.kr) og Þýskaland 44.756 ma.kr.)

Breið sátt ríkir um það markmið að hagvöxtur skuli vera útflutningsdrifinn og að árlegur vöxtur hans árin 2012-2030 skuli vera þrefalt meiri en á árunum 1994-2013. Þetta þýðir að hagvöxtur þarf að vaxa úr því að vera um 1,3% á ári í um 3,9%. Æskilegt er að hann verði í auknum mæli borinn uppi af alþjóðageiranum sem er óháður náttúruauðlindunum (sjávarútvegur, orkutengd framleiðsla og ferðaþjónusta). Þannig þarf vöxtur útflutningstekna vegna alþjóðageirans að þrefaldast á tímabilinu, þ. e. 300% aukning, og tekjur auðlindageirans að vaxa um 66%. Hvorugu markmiðinu hefur verið náð enn sem komið er.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira