Hoppa yfir valmynd

Fjölþjóðlegt viðskiptasamstarf

Alþjóðaviðskiptastofnunin (World Trade Organization)

Staða heimsmála hefur sett mark sitt á starf Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. World Trade Organization, WTO) og um þessar mundir er mikilvægt að tryggja að stofnunin geti haldið áfram að sinna hlutverki sínu og að standa vörð um reglur í alþjóðaviðskiptum og hið alþjóðlega viðskiptakerfi.

Ellefti ráðherrafundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem haldinn var í Buenos Aires í desember 2017, sýndi hversu mikið ber á milli aðildarríkja stofnunarinnar og að samningaviðræður sitja fastar í gömlum hjólförum. Ekki náðist samstaða um stutta ráðherrayfirlýsingu á fundinum og var því niðurstaða fundarins í formi yfirlýsingar formanns fundarins. Þær ákvarðanir sem á annað borð voru teknar voru ítrekanir á því sem áður hefur verið samþykkt og endurskuldbindingar gagnvart gömlum markmiðum. Reyndar var ekki búist við miklu af fundinum vegna þeirrar gjár sem hefur myndast milli þróaðra ríkja og þróunarríkja. Þróunarríkin krefjast annars vegar frekari sérlausna og undantekninga fyrir sig og berjast hins vegar gegn því að „ný málefni“ séu sett á dagskrá, s. s. rafræn viðskipti. Með svokölluðum „nýjum málefnum“ er átt við þau málefni sem ekki voru tilgreind í Doha-samningaferlinu, sem hrundið var af stað árið 2001, og þar sem mörg málefni eru enn óútkljáð.

Fyrir ráðherrafundinn vann Ísland að því að takmarka ríkisstyrki í sjávarútvegi, auk þess sem Ísland tók þátt í yfirlýsingum um að takmarka ríkisstyrki til jarðefniseldsneyta, yfirlýsingu um landbúnaðarmál (G10-hópurinn) og að vinna frekar í tollamálefnum rafrænna viðskipta. Einnig studdi Ísland við ákvörðun um örsmá, lítil og meðalstór fyrirtæki. Ekki náðist samstaða um þessi málefni á ráðherrafundinum en ákveðið var að halda áfram að áfram að vinna að því að takmarka ríkisstyrki í sjávarútvegi og var tímabundið fyrirkomulag, sem lýtur að rafrænum viðskiptum, framlengt. Vegna afstöðu Bandaríkjanna hefur enn ekki verið skipað í lausar stöður í áfrýjunarnefnd WTO (e. appellate body) sem tekur alþjóðleg viðskiptadeilumál fyrir. Nú eru aðeins fjórir starfandi dómarar í nefndinni í stað sjö og í lok þessa árs verða þar einungis þrír dómarar. Til að unnt sé að taka deilumál fyrir innan WTO þarf þrjá dómara og hafa því ýmsir áhyggjur af þessu ástandi.
Viðskiptastefna Íslands var til skoðunar á vettvangi WTO sl. október en aðildarríki stofnunarinnar gangast reglulega undir úttekt á viðskiptastefnu sinni. Tilgangurinn með slíkri úttekt er að stuðla að því að aðildarríkin virði skuldbindingar sínar og auðveldi þar með framkvæmd alþjóðaviðskiptakerfisins. Meginniðurstaða endurskoðunarinnar var að íslenskt viðskiptaumhverfi sé opið og viðskiptastefna Íslands í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Tisa-viðræðurnar

Þá hefur hluti aðildarríkja WTO átt í svokölluðum TiSA-viðræðum (Trade in Services Agreement, TiSA) þar sem samið er um skuldbindingar varðandi aðgang þjónustuveitenda ríkjanna að mörkuðum annarra samningsaðila. Miðað er við að skuldbindingarnar verði færðar nær því að endurspegla núverandi framkvæmd og lagaumhverfi í viðkomandi ríkjum innan ramma núverandi löggjafar þeirra. Í tilboði Íslands er að mestu leyti byggt á skuldbindingum Íslands skv. GATS-samningnum (General Agreement on Trade in Services, GATS). Ísland undanskilur frá hvers kyns skuldbindingum þá starfsemi sem hið opinbera hefur með höndum, s.s. heilsutengda þjónustu, félagslega þjónustu og menntamál. Skuldbindingar um markaðsaðgang eru einungis teknar á sviðum sem eru í höndum einkaaðila og opin fyrir samkeppni frá útlöndum. Helstu ágreiningsmál eru enn útistandandi og viðræðurnar komnar í biðstöðu, m.a. vegna óvissu með stefnu Bandaríkjanna.

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA)


Aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA) hafa gert 27 fríverslunarsamninga sem taka til 38 ríkja utan ESB og hafa 26 þeirra samninga þegar tekið gildi. Nánar um EFTA.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD)

Efnahags- og framfarastofnunin (Organization for Economic Co-operation and Development, OECD) í París hefur það markmið að bæta efnahagsþróun og hagvöxt, stuðla að bættum lífskjörum og vexti og þróun heimsviðskipta. Starf stofnunarinnar miðar að því að efla stefnumótun aðildarríkja sinna og vera vettvangur þar sem ríki geta borið saman stefnur og starfshætti, deilt reynslu sinni og leitað lausna á því hvernig skuli mæta sameiginlegum áskorunum. Stofnunin er leiðandi í tölfræðiúttektum og samanburðarrannsóknum og gefur út fjölda skýrslna ár hvert þar sem aðildarríkin og stefnumörkun þeirra á ólíkum sviðum er borin saman og árangur þeirra metinn.

Íslensk stjórnvöld hafa tekið virkan þátt í störfum OECD og nefnda stofnunarinnar um ríkisfjármál, skattamál, stjórnun efnahagsmála og opinbera stjórnsýslu. Ísland tekur einnig virkan þátt í nefndum OECD sem tengjast menntamálum, félagsmálum, umhverfismálum, viðskiptum og fjárfestingum, auk þróunarnefndar OECD. Á ráðherrafundi OECD á síðasta ári var athyglinni fyrst og fremst beint að alþjóðavæðingu og mikilvægi þess að tryggja að allir gætu notið og verið upplýstir um ávinninginn af alþjóðavæðingunni. Um þessar mundir beinir stofnunin einnig sjónum að því að aðstoða ríkisstjórnir við að endurheimta traust á mörkuðum og stofnunum markaðarins, auka heilbrigði opinberra fjármála, sem grundvöll fyrir sjálfbærum hagvexti, stuðla að og styðja við nýja vaxtarbrodda með nýsköpun, umhverfisvænum „grænum“ hagvaxtarstefnum og þróun nýmarkaðsríkja, sem og með því að tryggja eins og framast er unnt að fólk á öllum aldri geti þróað með sér hæfileika til þess að taka fullan þátt í starfsumhverfi framtíðarinnar, þ.e. undirbúningur fyrir hina svokölluðu „fjórðu iðnbyltingu“.

Alþjóðleg viðskiptamál og jafnrétti

Utanríkisþjónustan leggur aukna áherslu á jafnréttismál í starfi sínu á sviði alþjóðaviðskipta og er Ísland í leiðandi hlutverki við að koma jafnréttismálum á dagskrá innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Á ráðherrafundi WTO í Buenos Aires í desember sl. gáfu rúmlega 120 aðildarríki WTO frá sér yfirlýsingu um viðskipti og valdeflingu kvenna. Yfirlýsingin er afrakstur starfshóps um viðskipti og jafnrétti, sem Ísland leiðir, ásamt Síerra Leóne og Alþjóðaviðskiptamiðstöðinni (e. International Trade Center, ITC). Vinnuhópurinn starfar undir regnhlíf samráðsvettvangs sendiherra og framkvæmdastjóra alþjóðastofnana í Genf sem vilja leggja sitt af mörkum til að auka áherslu á jafnréttismál í mismunandi málaflokkum (e. International Gender Champions Geneva). Ríkin, sem að yfirlýsingunni standa, munu starfa saman við að koma jafnréttisáherslum á framfæri í alþjóðaviðskiptum. Þá lagði Ísland í fyrsta sinn sérstaka áherslu á jafnréttismál í heildaryfirferð á viðskiptastefnu Íslands sem fram fór í WTO í október sl. Einnig stóðu Ísland, Kanada og ITC saman að viðburði um jafnréttismál og alþjóðaviðskipti í WTO í september sl.

Ísland hefur einnig gert samning við ITC, um fjárhagslegan stuðning næstu þrjú árin við verkefnið “SheTrades”. Verkefnið hefur það að meginmarkmiði að stuðla að efnahagslegri valdeflingu kvenna og tengja konur í þróunarríkjunum og á stríðshrjáðum svæðum við alþjóðamarkaði. Ísland mun veita stofnuninni framlög að upphæð 300.000 Bandaríkjadala sem verða greiddir á næstu þremur árum, eða alls rúmlega 30 milljónir króna undir hatti þróunaraðstoðar.

Utanríkisþjónustan hefur einnig unnið að framgangi jafnréttismála á vettvangi EFTA. Haustið 2016, undir formennsku Íslands, samþykkti EFTA jafnréttisáætlun fyrir stofnunina. Eitt af áherslumálum íslensku formennskunnar á fyrri hluta þessa árs er að skoða hvort og þá hvernig taka mætti jafnréttisákvæði upp í fríverslunarsamningum samtakanna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að við gerð fríverslunarsamninga skuli horft til þess að efla umhverfissjónarmið og mannréttindi, þ.m.t. réttindi kvenna.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira