Hoppa yfir valmynd

Fjölþjóðlegt viðskiptasamstarf

Alþjóðaviðskiptastofnunin (World Trade Organization)

Opið alþjóðlegt viðskiptaumhverfi sem byggir á skilvirku regluverki er afar mikilvægt fyrir smáar þjóðir eins og Ísland sem byggja velsæld sína á greiðum milliríkjaviðskiptum. Átök milli aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization, WTO) um fyrirkomulag úrlausnar deilumála annars vegar og viðskiptadeilur milli stórra aðildarríkja hins vegar hafa litað störf stofnunarinnar undanfarin misseri og sér ekki enn fyrir endann á því. Mikilvægt er að tryggja að stofnunin geti áfram sinnt hlutverki sínu og standi vörð um reglur í alþjóðaviðskiptum og alþjóðlega viðskiptakerfið. Ísland hefur því tekið virkan þátt í tilraunum líkt þenkjandi ríkja til að lagfæra, bæta og tryggja áframhaldandi sanngjarnt viðskiptaumhverfi á grunni WTO. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að enn hefur ekki verið skipað í lausar stöður í áfrýjunarnefnd WTO sem tekur alþjóðleg viðskiptadeilumál fyrir. Til að unnt sé að taka deilumál fyrir innan WTO þarf þrjá dómara og nú eru aðeins þrír starfandi dómarar í nefndinni í stað þeirra sjö sem gert er ráð fyrir að séu þar að staðaldri. Ef fram heldur sem horfir verður nefndin óstarfhæf í árslok nema komið verði með einhverjum hætti til móts við kröfur Bandaríkjanna og fleiri ríkja um nauðsynlegar úrbætur.

Ólíklegt er að þetta ástand lagist nema afstaða Bandaríkjanna breytist en þau vilja knýja fram breytingar á starfsháttum WTO.

Í samræmi við áherslur í utanríkisstefnu Íslands hefur fastanefnd Íslands hjá WTO í Genf ásamt Botsvana og Alþjóðaviðskiptamiðstöðinni (International Trade Center, ITC) unnið að því að koma áherslum í jafnréttismálum á framfæri í alþjóðaviðskiptum en saman leiða þau vinnuhóp um jafnréttismál og alþjóðaviðskipti.

Ísland beitir sér sem fyrr fyrir því að takmarka ríkisstyrki í sjávarútvegi. Vinna sem snýr að því að takmarka ríkisstyrki til jarðefniseldsneytis og tollamál varðandi rafræn viðskipti eru mál sem unnið er að áfram, svo dæmi séu nefnd.

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA)

Aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA) hafa gert 27 fríverslunarsamninga sem taka til 38 ríkja utan ESB og hafa 26 þeirra samninga þegar tekið gildi. Nánar um EFTA.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD)

Efnahags- og framfarastofnunin (Organization for Economic Co-operation and Development, OECD) í París hefur það markmið að bæta efnahagsþróun og hagvöxt í aðildarríkjunum, stuðla að bættum lífskjörum og vexti og þróun heimsviðskipta. Á hverju ári gefur stofnunin út fjölda skýrslna þar sem aðildarríkin eru borin saman á ýmsum sviðum og árangur þeirra metinn. Íslensk stjórnvöld taka virkan þátt í starfsemi OECD og yfir 100 Íslendingar sækja þar fundi hinna ýmsu nefnda og vinnuhópa. Í fyrra fjallaði ráðherrafundur OECD um það hvernig ætti að ná sem mestum árangri af alþjóðlegri samvinnu ríkja og hvernig bæta mætti og styrkja það marghliða alþjóðakerfi sem við búum nú við. Samstaða var um að alþjóðleg, marghliða samvinna stuðlaði að friði og aukinni velmegun en lengi mætti gera betur. Leggja þyrfti meiri áherslu á að nýta tækniþróun til að efla hagvöxt fyrir alla. Á þessu ári verður þema ráðherrafundar OECD stafræn stefnumótun, sem rímar vel við áherslur íslenskra stjórnvalda sem vinna nú einnig að stafrænni stefnumótun undir forystu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, utanríkisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra heimsóttu OECD á síðastliðnu ári og áttu fundi með framkvæmdastjóra stofnunarinnar um ýmis áherslumál Íslands og hvernig unnt væri að vinna betur að þeim innan stofnunarinnar.

Ísland hefur beitt sér á sviði jafnréttismála hjá stofnuninni og íslenski fastafulltrúinn fer ásamt þeim lettneska fyrir sérstökum hópi fastafulltrúa um jafnréttismál. Á liðnu ári stóð fastanefndin fyrir rakarastofuviðburði hjá OECD þar sem utanríkisráðherra og Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, fóru fremstir í flokki.

Þá hefur Ísland ákveðið að gera úttekt á samkeppnismálum í samstarfi við OECD. Þetta er stærsta valkvæða framlag Íslands til stofnunarinnar frá upphafi en áætlað er að verkefnið taki tvö til þrjú ár og að lokaskýrsla verði kynnt sumarið 2020. Úttektin tekur á ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

Alþjóðleg viðskiptamál og jafnrétti

Utanríkisþjónustan leggur aukna áherslu á jafnréttismál í starfi sínu á sviði alþjóðaviðskipta og er Ísland í leiðandi hlutverki við að koma jafnréttismálum á dagskrá innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Á ráðherrafundi WTO í Buenos Aires í desember sl. gáfu rúmlega 120 aðildarríki WTO frá sér yfirlýsingu um viðskipti og valdeflingu kvenna. Yfirlýsingin er afrakstur starfshóps um viðskipti og jafnrétti, sem Ísland leiðir, ásamt Síerra Leóne og Alþjóðaviðskiptamiðstöðinni (e. International Trade Center, ITC). Vinnuhópurinn starfar undir regnhlíf samráðsvettvangs sendiherra og framkvæmdastjóra alþjóðastofnana í Genf sem vilja leggja sitt af mörkum til að auka áherslu á jafnréttismál í mismunandi málaflokkum (e. International Gender Champions Geneva). Ríkin, sem að yfirlýsingunni standa, munu starfa saman við að koma jafnréttisáherslum á framfæri í alþjóðaviðskiptum. Þá lagði Ísland í fyrsta sinn sérstaka áherslu á jafnréttismál í heildaryfirferð á viðskiptastefnu Íslands sem fram fór í WTO í október sl. Einnig stóðu Ísland, Kanada og ITC saman að viðburði um jafnréttismál og alþjóðaviðskipti í WTO í september sl.

Ísland hefur einnig gert samning við ITC, um fjárhagslegan stuðning næstu þrjú árin við verkefnið “SheTrades”. Verkefnið hefur það að meginmarkmiði að stuðla að efnahagslegri valdeflingu kvenna og tengja konur í þróunarríkjunum og á stríðshrjáðum svæðum við alþjóðamarkaði. Ísland mun veita stofnuninni framlög að upphæð 300.000 Bandaríkjadala sem verða greiddir á næstu þremur árum, eða alls rúmlega 30 milljónir króna undir hatti þróunaraðstoðar.

Utanríkisþjónustan hefur einnig unnið að framgangi jafnréttismála á vettvangi EFTA. Haustið 2016, undir formennsku Íslands, samþykkti EFTA jafnréttisáætlun fyrir stofnunina. Eitt af áherslumálum íslensku formennskunnar á fyrri hluta þessa árs er að skoða hvort og þá hvernig taka mætti jafnréttisákvæði upp í fríverslunarsamningum samtakanna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að við gerð fríverslunarsamninga skuli horft til þess að efla umhverfissjónarmið og mannréttindi, þ.m.t. réttindi kvenna.

Síðast uppfært: 14.12.2021
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira