Hoppa yfir valmynd

EFTA

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA (European Free Trade Association) er samstarfsvettvangur aðildarríkja EFTA sem nú eru fjögur: Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Aðildaríki EFTA hafa gert fríverslunarsamning sín í milli, EFTA-sáttmálann og gera jafnframt sameiginlega fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópusambandsins (ESB) með það að markmiði að tryggja fyrirtækjum frá EFTA ríkjunum bestu viðskiptakjör hvar sem þau kjósa að eiga viðskipti.

EFTA skapar einnig samstarfsvettvang fyrir Ísland, Noreg og Liechtenstein gagnvart ESB á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) en fjórða EFTA-ríkið, Sviss, er ekki aðili að EES-samningnum.

Efst á baugi

Aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA) hafa sameiginlega gert 28 fríverslunarsamninga sem taka til 39 ríkja utan ESB og hafa 26 þeirra samninga þegar tekið gildi.  

Viðræður standa yfir um gerð fríverslunarsamninga við Indland, Indónesíu, Malasíu, Mercosur-löndin (Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ) og Víetnam. Fríverslunarviðræðum við Ekvador lauk á fyrri hluta ársins 2018 og var nýr fríverslunarsamningur EFTA og Ekvadors undirritaður á ráðherrafundi á Sauðárkróki í júnílok. Við sama tækifæri var skrifað undir uppfærðan fríverslunarsamning við Tyrkland. Samkvæmt formennskuáætlun Íslands, sem fór með formennsku EFTA á fyrri hluta ársins, er jafnframt stefnt að því að ljúka viðræðum við Indland, Indónesíu og Malasíu á þessu ári en viðræður við þessi lönd hafa reynst torsóttari en vonast hafði verið til. Þá standa yfir viðræður um endurskoðun gildandi fríverslunarsamninga EFTA við Mexíkó og Tollabandalag Suður-Afríkuríkja (e. South African Customs Union, SACU) og vonast er til að hægt verði að hefja á árinu viðræður um uppfærslu fríverslunarsamninga við Kanada og Chile. Samningaviðræður EFTA-ríkjanna við Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan eru hins vegar í biðstöðu um ótiltekinn tíma. Sama má segja um fríverslunarviðræður við Taíland.

Stefnt er að aukinni þátttöku á vettvangi EFTA og auknu samráði við sérfræðinga í ráðuneytum og undirstofnunum sem fara með málefni er falla undir einstök svið fríverslunarsamninga. Sömuleiðis hefur verið komið á fót reglubundnu samráði um fríverslunarviðræður við helstu hagsmunasamtök. Þá hefur að samningateymi Íslands í fríverslunarviðræðum EFTA verið styrkt í samningalotum.

Undanfarið hafa einstakir viðsemjendur EFTA-ríkjanna sett fram kröfur um að EFTA-ríkin gangi lengra í opnun markaða og semji á grundvelli annarra samningslíkana á sviðum þjónustu og fjárfestinga en gert hefur verið hingað til. Kanada er eitt þeirra ríkja sem þetta á við um. Í ljósi þessa var stofnaður sérstakur vinnuhópur meðal EFTA-ríkjanna til að fara yfir stöðu mála um þjónustu og fjárfestingar í fríverslunarviðræðum samtakanna. Þar hefur verið náð samkomulagi um nýtt samningslíkan á sviðum þjónustuviðskipta og fjárfestinga til að leggja fram í viðræðum við ríki sem byggja á öðrum samningslíkönum. Vonast er til að Kanada verði tilbúið til að hefja viðræður við EFTA-ríkin um uppfærslu fríverslunarsamnings ríkjanna á grundvelli þessa nýja samningslíkans.

EFTA-ríkin og Mercosur (tollabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ) hófu fríverslunarviðræður á síðasta ári. Viðræðurnar hafa farið nokkuð vel af stað og gefa væntingar um að grundvöllur sé fyrir því að ljúka fljótt viðræðum um ýmis efnisatriði hins fyrirhugaða samnings. Hins vegar er ljóst að viðræður um markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur verða erfiðar. Talsmenn Mercosur-ríkjanna hafa þó lýst yfir væntingum um að semja við EFTA-ríkin um greiðan markaðsaðgang fyrir nautakjöt og aðrar kjötafurðir. Greiður markaðsaðgangur fyrir slíkar afurðir sé forsenda þess að geta veitt EFTA-ríkjunum greiðan aðgang fyrir iðnaðarvörur og sjávarafurðir. Gera má ráð fyrir því að væntingar Mercosur standi til þess að fá umtalsverðan tollfrjálsan kvóta fyrir slíkar afurðir.

Sjá má nánari upplýsingar um fríverslunarsamskipti og fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við einstök ríki á vef EFTA

  

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira