Hoppa yfir valmynd

EFTA

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA (European Free Trade Association) er samstarfsvettvangur aðildarríkja EFTA sem nú eru fjögur: Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Aðildaríki EFTA hafa gert fríverslunarsamning sín í milli, EFTA-sáttmálann og gera jafnframt sameiginlega fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópusambandsins (ESB) með það að markmiði að tryggja fyrirtækjum frá EFTA ríkjunum bestu viðskiptakjör hvar sem þau kjósa að eiga viðskipti.

EFTA skapar einnig samstarfsvettvang fyrir Ísland, Noreg og Liechtenstein gagnvart ESB á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) en fjórða EFTA-ríkið, Sviss, er ekki aðili að EES-samningnum.

Efst á baugi

EFTA hefur gert 29 fríverslunarsamninga við 40 ríki utan ESB og 26 þeirra hafa tekið gildi gagnvart Íslandi. Á þessu löggjafarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga um fullgildingu heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Ekvadors og lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga um fullgildingu fríverslunarsamningsins milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja. Á næsta löggjafarþingi er gert ráð fyrir að lögð verði fram tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamningsins milli EFTAríkjanna og Indónesíu, sem skrifað var undir í desember 2018.

Viðræður standa yfir um gerð fríverslunarsamninga við Indland, Malasíu, Víetnam og Mercosur-ríkin: Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Þá stendur til að hefja fríverslunarviðræður fljótlega við Moldavíu, Kósovó og líklega Pakistan. Fríverslunarviðræðurnar við Indland hafa staðið yfir með hléum frá árinu 2008. Viðræðurnar hafi verið torsóttar en þeim miðaði í rétta átt þegar hlé var gert á viðræðunum vegna yfirstandandi kosninga á Indlandi.

EFTA-ríkin miða alltaf að því að fá að minnsta kosti sambærilegan markaðsaðgang og aðrir viðsemjendur viðkomandi ríkis og þá sérstaklega ef um er að ræða samning við ESB-ríkin. Stundum hefur þetta orðið til þess að viðræður í einstökum fríverslunarsamningum hafa tekið lengri tíma en ella. Þetta á til dæmis við um fríverslunarviðræðurnar við Malasíu og Víetnam, sem annars eru vel á veg komnar. Fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Mercosur-ríkjanna hófust árið 2017. Viðræðurnar hafa farið nokkuð vel af stað á mörgum sviðum. Talsmenn Mercosur-ríkjanna hafa hins vegar miklar væntingar um að fá umtalsverðan tollfrjálsan kvóta fyrir kjöt og þá sérstaklega nautakjöt. Búast má við því að það mál verði mjög snúið í viðræðunum.

Á undanförnum árum hafa samningaviðræður bæði um nýja fríverslunarsamninga og uppfærslu þeirra eldri orðið tímafrekari og flóknari en oft áður. Ástæðan er einkum sú að EFTA-ríkin og viðsemjendur EFTA hafa mismunandi áherslur sem oft er erfitt að samræma. Þetta á meðal annars við um markaðsaðgang með landbúnaðarvörur, þjónustuviðskipti og hugverkarétt. Viðræður um uppfærslu fríverslunarsamninganna við Kanada og Mexíkó eru dæmi um þetta.

Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands var samþykkt á þessu löggjafarþingi. Þá eru viðræður EFTA-ríkjanna og tollabandalags SuðurAfríku um uppfærslu fríverslunarsamnings ríkjanna langt komnar en í tollabandalaginu eru Suður-Afríka, Botswana, Lesótó, Namibía og Esvatíní (áður Svasíland). Vonast er til að viðræður um uppfærslu á fríverslunarsamningnum við Chile geti hafist sem fyrst.

Samningaviðræður EFTA-ríkjanna við Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan eru í biðstöðu um ótiltekinn tíma. Áhugi er á því hjá EFTA-ríkjunum að hefja aftur fríverslunarviðræður við Taíland þegar aðstæður leyfa. 

Unnið er að því meðal EFTA-ríkjanna að uppfæra texta sem nota á í samningaviðræðum um sjálfbæra þróun. Að frumkvæði Íslands var ákveðið í mars á þessu ári að taka upp ákvæði um jafnrétti í fríverslunarsamningum EFTA

Sjá má nánari upplýsingar um fríverslunarsamskipti og fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við einstök ríki á vef EFTA. 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira