Hoppa yfir valmynd

EFTA

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA (European Free Trade Association) er samstarfsvettvangur aðildarríkja EFTA sem nú eru fjögur: Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Ísland gerðist aðili að EFTA árið 1970. Aðildarríki EFTA hafa gert fríverslunarsamning sín í milli, EFTA-sáttmálann, og gera jafnframt sameiginlega fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópusambandsins (ESB) með það að markmiði að tryggja sem best viðskiptakjör á erlendum mörkuðum.

EFTA skapar einnig samstarfsvettvang fyrir Ísland, Noreg og Liechtenstein gagnvart ESB á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) en fjórða EFTA-ríkið, Sviss, er ekki aðili að EES-samningnum.

EFTA-ríkin hafa gert 29 fríverslunarsamninga við fjörutíu ríki og ríkjasambönd utan ESB. Samningstextar EFTA eru í stöðugri þróun og endurspegla áherslur EFTA-ríkjanna, svo sem um umhverfisvernd, vinnurétt og kynjajafnrétti. EFTA hefur nýlega gert sérstakan kafla um rafræn viðskipti (E-commerce) sem ætlunin er að notast við í framtíðarsamningum EFTA um fríverslun. Tekur þetta mið af þeirri öru þróun sem átt hefur sér stað á þessu sviði undanfarin ár og endurspeglar jafnframt viðræður á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Sjá má nánari upplýsingar um fríverslunarsamskipti og fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við einstök ríki á vef EFTA. 

Síðast uppfært: 14.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum