Hoppa yfir valmynd

Viðskiptaþjónusta

Þjónusta við fyrirtæki, ferðaþjónustu og menningarlíf

Viðskiptaþjónustan sinnir þjónustu við íslensk fyrirtæki og styrkir samkeppnisstöðu á alþjóðlegum mörkuðum, sinnir kynningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna og stýrir samstarfi utanríkisþjónustunnar við íslenska aðila á sviði menningar, landkynninga og viðskipta. Starfseminni er að mestu sinnt erlendis en allar sendiskrifstofur Íslands sinna viðskiptaþjónustu, ferðamálum og menningarkynningu. Sérstakir viðskipta- og ferðamálafulltrúar eru við störf í stærri sendiráðum Íslands sem liðsinna íslenskum fyrirtækjum erlendis og koma íslenskum viðskiptahagsmunum á framfæri með fjölbreyttum hætti í hverju umdæmi fyrir sig. Sjö viðskiptafulltrúar eru í fullu starfi og þrír í hálfu starfi. Sendiskrifstofurnar eiga í nánu samstarfi við Íslandsstofu og aðrar hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunasamtök í því augnamiði að stilla saman strengi allra þeirra sem starfa að viðskiptum, ferðamálum og menningarkynningu á erlendri grundu.

Sendiskrifstofur Íslands vinna með margvíslegum hætti að viðskiptaþjónustu, menningarsamstarfi og tengslamyndun. Viðskiptafulltrúar starfa í sendiskrifstofum í Danmörku, Finnlandi, Noregi, Bretlandi, Rússlandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum (New York), Indlandi, Japan og Kína. Nýverið var komið á svæðisbundnum markaðsteymum sendiskrifstofa í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu í þeim tilgangi að samræma betur markaðsstarf og þjónustu sendiráðanna. Staðsetning viðskiptafulltrúa erlendis tryggir haldgóða þekkingu á staðháttum, eflir tengslanet og eykur skilning á ímynd og eftirspurn eftir íslenskri vöru og þjónustu á hverjum markaði fyrir sig. Sendiskrifstofur eru öflugt tæki til að opna dyr í vissum samfélögum.

Efst á baugi

Viðskiptaþjónusta utanríkisþjónustunnar styður við sókn á erlenda markaði. Sérstök áhersla er lögð á samstarf við atvinnulífið til að tryggja markvissa þjónustu. Viðskiptaþjónustan er einnig ábyrg fyrir menningar- og orðsporsmálum utanríkisþjónustunnar og styður við alþjóðleg átaksverkefni og kynningu á íslenskri menningu. Á árinu 2017 eru í fyrirrúmi aldarafmæli fullveldis Íslands og þátttaka Íslands á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Rússlandi. Reynt er að nýta slík verkefni til að vekja áhuga á viðskipta- og fjárfestingatækifærum og miðla upplýsingum um góðan árangur Íslands á ýmsum sviðum, t.d. í nýtingu náttúruauðlinda.  

Utanríkisráðuneytið hefur undirritað samstarfssamning við Samtök atvinnulífsins til eins árs. Ráðgjafi á vegum samtakanna mun veita ráðgjöf við stefnumótun og framkvæmd stuðningskerfis við útflutning og markaðssetningu erlendis, auk annarrar ráðgjafar um mikilvæg hagsunamál sem varða íslenskt atvinnulíf. Byggist samstarfið m.a. á tillögum sem lagðar eru fram í skýrslum á borð við Áfram Ísland og Utanríkisþjónusta til framtíðar – hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi.

Fyrirhugað er að fjölga viðskiptafulltrúum á árinu. Áherslan nú er fyrst og fremst á það að efla þjónustu við nýsköpunarfyrirtæki og alþjóðageirann, s.s. hátækniiðnað og skapandi greinar, og að efla frumkvæði utanríkisþjónustunnar almennt við að leita uppi tækifæri á viðskiptum og erlendri fjárfestingu á þessu sviði. Þá er unnið að því að virkja betur ólaunaða kjörræðismenn Íslands um allan heim í þágu viðskiptasóknar Íslands.

Til þess að halda við bestu lífsgæðum og stöðugum hagvexti á Íslandi þarf að auka útflutning frá Íslandi um sem nemur 1000 milljörðum á næstu tveimur áratugum eða einum milljarði á viku. Markmið á sviði viðskiptaþjónustu og -sóknar byggja á tillögum Framtíðarskýrslu um eflingu viðskiptasóknar og -þjónustu.

Viðskiptaþjónustan

Viðskiptaþjónusta efld úti á mörkuðum með fjölgun viðskiptafulltrúa í Asíu og Norður-Ameríku, m.a. í Kaliforníu, Ottawa, Japan og Kína.
• Komið hefur verið á þremur svæðisbundnum viðskipta- og markaðsteymum sendiráða í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu til að auka samlegð, slagkraft og þjónustu á mörkuðum.
• Sendiráðin efna til viðskipta- og markaðskynninga, samráðs og tengslamyndunar í samstarfi við atvinnugreinar og fyrirtæki ár hvert.
• Viðskiptaþjónustan sinnir fyrirspurnum fyrirtækja endurgjaldslaust en tekið er gjald fyrir sértæka fyrirtækjaþjónustu. Þjónustan felst í leit að samstarfsaðilum um sölu eða vöruþróun, greiningu á markaðstækifærum, skipulagningu funda, samskiptum við erlend stjórnvöld.
• Allir viðskipta- og menningarfulltrúar í sendiskrifstofum og starfsmenn viðskiptaþjónustu í ráðuneyti eiga reglulega fjarfundi undir merkjum Team Iceland til að stilla saman strengi, miðla reynslu og þekkingu.
• Stefnumót atvinnulífs og sendiskrifstofa eru í deiglunni á árinu 2018 sem liður í samþættingu, tengslamyndun og auknu upplýsingaflæði í þágu enn betri þjónustu og árangurs.
• Sendiherrar og viðskiptafulltrúar svöruðu 8.200 fyrirspurnum á sviði viðskipta á árinu 2017 og veittu tæplega 660 íslenskum fyrirtækjum viðskiptaþjónustu, þá eru ótaldar fyrirspurnir sem aðrir starfsmenn og ræðismenn sinntu.

Menningarmál

Vöxtur og viðgangur íslenskrar menningar og listalífs í útlöndum setur æ sterkari svip á daglegt starf utanríkisþjónustunnar. Smár heimamarkaður sníður menningu, listum og afþreyingu þröngan stakk en skapandi greinar hafa löngum leitað út fyrir landsteinanna. Vart telst til tíðinda lengur að myndlistarmaður opni sýningu eða hljómsveit haldi tónleika í þekktum menningar- og listhúsum stórborga heimsins. Íslenskt leikhúsfólk setur á svið sýningar í virtum leikhúsum víða um lönd og þýddar íslenskar bækur eru gefnar út á tugum tungumála.

Góð tengsl eru víða milli sendiráða og lista- og menningarstofnana. Þannig verður til vettvangur fyrir viðburði á sviði lista og menningar. Samstarf sendiráða Norðurlandanna á menningarsviðinu, sem oft nýtur styrkja úr norrænum sjóðum, er alltaf að aukast. Dæmi um slíkt er menningarhátíðin Nordic Matters, sem fram fer á South Bank í London á þessu ári.

Í bígerð er átak að frumkvæði Miðstöðvar íslenskra bókmennta og fleiri aðila til að finna þýðendur úr íslensku á sín móðurmál og halda þeim sem fyrir eru við efnið. Sums staðar er útlitið frekar dökkt og talið að skortur á góðum þýðendum geti staðið útbreiðslu íslenskra bókmennta fyrir þrifum ef ekki tekst að fylla í fyrirsjáanleg skörð í hópi bókmenntaþýðenda.

Utanríkisráðuneytið vinnur náið með mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Íslandsstofu og kynningarmiðstöðvum skapandi greina. Kynningarmiðstöðvarnar leggja faglegt mat á erindi og beiðnir um stuðning sem ráðuneytinu og berast og þær hafa hönd í bagga við gerð menningaráætlana sendiráðanna. Ráðuneytið veitir kynningarmiðstöðvunum fjárhagslegan stuðning og vinnur með þeim að margvíslegum verkefnum, smáum sem stórum.

Íslandsstofa

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda og miðar að því að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar með því að efla markaðssókn Íslendinga erlendis. Þjónustan byggir á þremur þáttum:

1) Almennu kynningarstarfi sem beinist að því að efla orðspor og ímynd Íslands erlendis, skapa áhuga á landinu sem            áfangastað og auka eftirspurn eftir því sem íslenskt er.

2) Upplýsingamiðlun, ráðgjöf og fræðslu við samtök, fyrirtæki og einstaklinga til þess að efla færni þeirra og árangur í             alþjóðaviðskiptum.

3) Markvissum aðgerðum í því skyni að laða að erlenda fjárfesta til beinna fjárfestinga í atvinnustarfsemi og nýsköpun í         samræmi við stefnu stjórnvalda.

Íslandsstofa gegnir veigamiklu hlutverki við að markaðssetja Ísland og styrkja íslenskt atvinnulíf í sókn á erlenda markaði með því að veita því þjónustu. Meginþungi starfseminnar undanfarin ár hefur beinst að því að skapa áhuga á landinu sem áfangastað ferðamanna og vinna að því að auka eftirspurn eftir íslenskri vöru og þjónustu. Hún sinnir jafnframt upplýsingamiðlun, ráðgjöf og fræðslu við samtök, fyrirtæki og einstaklinga til þess að efla færni þeirra og árangur í alþjóðaviðskiptum. Þá laðar hún að erlenda fjárfesta til beinna fjárfestinga í atvinnustarfsemi og nýsköpun í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Viðskiptaþjónusta ráðuneytisins og Íslandstofa hafa með sér samráð um viðskiptatengd verkefni á vegum utanríkisþjónustunnar. Sendiskrifstofur geta haft frumkvæði að verkefnum á markaði og sótt fjármagn úr samstarfssjóði ráðuneytisins og Íslandsstofu. Viðskiptafulltrúar sækja Ísland heim árlega og fá tækifæri til að stilla af starfsáætlanir sínar með Íslandsstofu og kynna fyrir viðskiptalífinu tækifæri á mörkuðum. Fyrirtæki fá tækifæri til að funda með forstöðumönnum sendiskrifstofa Íslands og viðskiptafulltrúum á hverju ári og eru viðtalstímar auglýstir hjá Íslandsstofu.

Sendiskrifstofur munu taka þátt í átaksverkefni um þátttöku íslenska landsliðsins í Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fram fer í Rússlandi næsta sumar. Gera má ráð fyrir því að kastljós alþjóðlegra fjölmiðla muni beinast að Íslandi sem nýliðum á mótinu. Sendiskrifstofur munu nýta þetta kastljós til að kalla fram alþjóðlega umfjöllun í fjölmiðlum. Þá munu sendiskrifstofur Íslands skipuleggja viðburði er tengjast beinni útsendingu leikjanna í samstarfi við stuðningsmannafélög í fótbolta eða taka höndum saman með þeim sem standa fyrir beinni útsendingu frá leikjunum. Samráðshópur utanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Íslandsstofu og Knattspyrnusambands Íslands mun samstilla skilaboðin heima fyrir, auk þess sem efnt verður til menningardagskrár í Rússlandi.

Samvinna atvinnulífsins og stjórnvalda mun ráða miklu um hvort takist að nýta tækifæri á alþjóðamörkuðum. Enn er full ástæða til að horfa til þeirra markmiða sem fyrst komu fram hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey árið 2012, og Samráðsvettvangur um aukna hagsæld og Viðskiptaráð hafa haldið á lofti, sem og Samtök atvinnulífsins. Þessi markmið fólu í sér að tvöfalda þyrfti árlegan vöxt útflutningstekna frá 2012 til 2030 og að vöxturinn yrði knúinn áfram af alþjóðageiranum. Miðað við útreikninga Samtaka atvinnulífsins er nauðsynlegt að auka útflutning sem nemur um einum milljarði króna í hverri einustu viku næstu tvo áratugi til að tryggja megi viðunandi lífsgæði á Íslandi fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Markmiðið með breytingum á frumvarpi um Íslandsstofu er ekki síst að efla markvissa langtímastefnumótun og tryggja að stjórnvöld og atvinnulíf gangi í takt, svo að unnt sé að veita íslenskum fyrirtækjum framúrskarandi þjónustu og auka árangur þeirra og slagkraft á erlendum mörkuðum.

Íslandsstofa er og verður samstarfsvettvangur atvinnulífsins og hins opinbera. Meginmarkmiðið með breytingu á lögum um Íslandsstofu er að skerpa og skýra rekstrarfyrirkomulag hennar til að festa með afgerandi ábyrgð atvinnulífsins á henni. Komið verður á þjónustusamningum sem kveða á um skyldur Íslandsstofu og hlutverk hennar gagnvart hinu opinbera. Í frumvarpinu er einnig lagt til að komið verði á Útflutnings- og markaðsráði sem hefur það hlutverk að marka langtímastefnu fyrir Ísland um alþjóðlega viðskipta- og markaðssókn. Þá er það eindreginn vilji stjórnvalda að breytingin hafi í för með sér að stuðningskerfið við útflutningsfyrirtæki í heild verði enn öflugra, samstilltara og sveigjanlegra þannig að þjónustan verði eins og best er á kosið og hún löguð að þörfum fyrirtækjanna í þágu aukins útflutnings, markvissari markaðssetningar og aukinna fjárfestinga á hverjum tíma.

Síðast uppfært: 27.6.2019
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira